Silja Björk

Geðsjúkur rithöfundur, fyrirlesari og femínisti

Silja Björk hefur undanfarin áratug látið mikið á sér kveða í málefnum geðsjúkra á Íslandi. Silja Björk, sem er fædd og uppalin á Akureyri, veiktist af þunglyndi sem ung kona og fann fyrir miklum fordómum í samfélaginu. Árið 2013 skrifaði hún sína fyrstu grein, „Þunglyndi er líka sjúkdómur”, sem vakti mikla athygli og hefur Silja Björk allar götur síðan lagt hönd á plóg til þess að uppræta fordóma í garð geðsjúkra á Íslandi. 

Fyrirlestur hennar á TEDx ráðstefnunni í Hörpu árið 2014, „The Taboo of Depression” fór eins og eldur um sinu í íslenskum fjölmiðlum og hefur fengið yfir 200.000 spilanir á YouTube. Ári síðar var Silja Björk ein stofnenda #égerekkitabú samfélagsmiðlabyltingarinnar sem var mikilvægt fyrsta skref fyrir mörg sem búa með geðsjúkdómum. Þá var Silja Björk einn fjögurra viðmælanda í sjónvarpsþáttunum Bara geðveik undir stjórn Lóu Pindar og vakti þar mikla athygli þegar hún ræddi sjálfsvígstilraun sína með fjölskyldunni sinni fyrir framan þjóðina. 

Silja Björk hefur haldið ótal fyrirlestra í skólum, fyrirtækjum og hópum um málefni geðsjúkra, stöðu geðsjúkra barna í skólakerfinu og geðrækt innan fyrirtækjamenningar. Fyrsta bók hennar Vatnið, gríman og geltið sem kom út árið 2020 fjallar um sögu hennar af áföllum, sjálfsvígstilraunum og þunglyndi en sýnir umfram allt ljósið í batanum. Silja Björk var meðhöfundur Öldu Karenar Hjaltalín að Lífsbiblíunni, sem varð fljótt metsölubók og skapaði miklar umræður í samfélaginu. 

Silja Björk hefur einnig látið á sér kveða í réttindabaráttu kvenna og jaðarsettra, hinsegin fólks og þeirra sem skortir málpípu á opinberum vettvangi. Silja Björk starfar nú sjálfstætt sem fyrirlesari, blaðamaður hjá Birtíngi og sem aðstoðarframkvæmdarstjóri Eden Foundation.