UM MIG

Ég hef alltaf verið draumóramanneskja. Alltaf verið sveimhuga, aldrei getað lifað í núinu. Ég veð yfirleitt úr einu í annað, tala rosalega hátt og mikið og hef sjaldnast vit á því að þegja. Hvernig á ég þá að lýsa mér svo þú hafir áhuga á því að fylgjast með því sem ég hef að segja?

 

Ég er geðsjúklingur. Ég er greind með þunglyndi og kvíða. Ég fékk ógeð á því hvernig fólk talaði um geðsjúkdóma og geðsjúklinga svo ég tók mitt sterkasta vopn – orðin mín – og skrifaði fjölda greina, hélt TEDx fyrirlestur, stofnaði #égerekkitabú og kom fram í sjónvarpi. Ég er stolt af því að vera brautryðjandi í íslensku geðumræðunni og hef margt gott og gagnlegt lært á því að vera geðsjúklingur. Ég held reglulega fyrirlestra um málefni andlegrar heilsu og getur þú bókað fyrirlestur hér.

 

Ég er femínisti. Ég trúi á jafnrétti kynjanna. Ég vil geta gengið um göturnar óáreitt, ég vil geta verið ber að ofan í sundi, ég vil fá sömu laun og sömu tækifæri og strákarnir í kringum mig, ég vil vera virt og örugg og að allar konur og allir karlar fái það líka. Það er ótrúlega gaman að vera femínisti á Íslandi í dag, þar sem umræðan er fjölbreytt, opin og alltaf hægt að læra eitthvað nýtt.

 

Ég er matgæðingur. Ég er líka kaffibarþjónn og áhugamanneskja um kokteilagerð og matreiðslu og ef ég er ekki að borða eyði ég tíma mínum í að hugsa um hvað ég ætla að borða næst. Ég elska að elda góðan mat fyrir gott fólk, drekka góð vín og læra ný galdrabrögð í eldhúsinu. Þess vegna nældi ég mér í matreiðslumeistara fyrir kærasta. Viltu koma í mat?

 

 

 

 

Ég er kvikmyndaunnandi. Ég stunda nám við kvikmyndafræði í HÍ og skrifa reglulega pistla fyrir Engar stjörnur, kvikmyndarýniklúbb Háskóla Íslands. Ég er pælari og pæli í öllu í kringum mig og einna helst kvikmyndalistinni. Hvað hreyfir við okkur, hvert ert tungumál listarinnar, hvert beinir tökuvélin okkur, hvað segir sálfræðin í handritinu, hvað er gott bíó og hvað ekki. Dáist að Kubrick, Nolan og dýrka Marilyn Monroe. Flestir halda að þá sé ég ófær um að horfa á heilalausar gamanmyndir án þess að gagnrýna þær í þaula en sú er nú ekki raunin. Ekki alveg.

 

Ég er rithöfundur. Ég skrifaði bók. Hún ber titilinn “Vatnið, gríman og geltið” og er í stöðugri vinnslu. Hún fjallar í stórum dráttum um það tímabil í mínu lífi þegar ég var sem veikust og hvaða lífslexíur ég hef lært í gegnum þunglyndið. Einn daginn kemur hún út og mun standa í söluhillum allra helstu bókabúða landsins. Þá verður veizla. Ég skrifa líka smásögur, greinar, pistla og viðra skoðanir mínar á samfélagsmiðlum. Ég elska íslenska tungumálið og er mikil áhugamanneskja um tilfinningarnar sem fylgja orðunum. Ég er samt alltaf að mismæla mig.

 

Í september verð ég mamma. Mig hafði alltaf dreymt um að verða ólétt, upplifa meðgöngu og kraftaverkið sem er fæðing, uppeldi og foreldrahlutverkið. Ég trúi staðfastlega á heiðarleika í samskiptum, sjálfbærni, endurnýtingu, sparsemi, skynsemi og hóflega stjórnun væntinga þegar kemur að foreldrahlutverkinu og ég hlakka til að deila með ykkur pælingunum mínum, innkaupalistum, ráðum um brjóstagjöf, barnauppeldi og hvernig mér þykir best að fóta sig sem ungt foreldri í heiminum í dag.

 

Ég er líka Akureyringur sem borðar ekki Brynjuís, fyndin húmoristi með ótal húðflúr, ferðalangur sem instagrammar, baðunnandi trúleysingi, kattareigandi en hundaelskandi, barngóð, ímyndunarveik, ákveðin, pólitísk til vinstri langoftast og þó óflokksbundin, elska íslenskt rapp og Davíð Stefánsson, klæðist allskonar fötum og reyni að vera týpa, elska Harry Potter og get verið algjört nörd þegar ég nenni því, reyni að vera dugleg í ræktinni og í leitinni að sjálfri mér, ég er góð systir, fjölskyldurækin dóttir, frænka, vinkona, jólabarn og óneitanlegur þræll kapítalismans sem gleðst jafnt yfir nýjum skóm og góðri rommflösku.

 

Velkomin í hugarheim minn.