ÞEGAR ÉG FLUTTI FYRST AÐ HEIMAN

ÞEGAR ÉG FLUTTI FYRST AÐ HEIMAN

Ég tók því ekkert alltof vel þegar litla systir mín fæddist. Ég var bara fimm ára svo ég man lítið eftir því, þannig séð en ég man að það tók verulega á fyrir mig að vera ekki lengur miðpunktur allrar athyglinnar. Ég var fyrsta barnið, fyrsta barnabarnið og barnabarnabarnið í fjölskyldunni svo það var ekki nema von að ég væri eilítið ofdekruð ef svo má að orði komast. Þegar systir mín fæddist fékk ég svokallaða „systkinaveiki”. Ég veit reyndar ekki hvort þetta kallast „systkinaveiki” á læknamáli en mömmu var tjáð að slík hegðun væri ekkert svo óalgeng hjá eldri systkinum. Þetta byrjaði allt með því að ég fékk hita og ælupesti á meðan mamma lá á spítalanum með systur mína. Það er víst einhverskonar öfundsýkisveiki sem börn fá gjarnan þegar athyglin beinist að nýju barni, svona eins og ég væri dauðvona blóm sem þarfnaðist vökvunnar. Ég gisti hjá fjölskyldu og vinum í þessa tæpu viku sem mamma og fyrirburinn hún systir mín jöfnuðu sig á fæðingardeildinni. Pabbi skutlaði mér til og frá leikskóla, spítalanum og gistiplássum. Mér fannst ég gjörsamlega gleymast og laug því að leikskólakennurunum í ekkasogum að ég hefði verið yfirgefin og látin gista hjá ókunnugum því öllum væri sama um mig. Það var að sjálfsögðu ekki satt.

Í mörg ár eftir fæðingu systur minnar leið mér eins og mér hefði verið skipt út. Ég skyldi loksins hvað Viddi og félagar í Leikfangasögu gengu í gegnum þegar Bósi Ljósár kom til kastanna og Addi henti gömlu leikföngunum undir rúmið eins og ótíndu rusli. Ég var Viddi og Viddi var ég.

Mamma segir að ég hafi alltaf verið góð við hana systur mína þrátt fyrir að ég væri að sligast undan afbrýðissemi. Ég reyndi hvað ég gat til að vekja athygli á mér, söng og dansaði, grét og hló eftir geðþótta viðstaddra, allt til að verða miðpunktur athyglinnar.

Ári eftir að systir mín kom í heiminn fékk ég víst nóg. Það var eins og eitthvað innra með mér springi þegar litli sex ára heilinn minn áttaði sig loks á því að þetta skríkjandi bleika gerpi sem mér átti að þykja svo vænt um væri komið til að vera. Í einhverju afbrýðissömu frekjukastinu var mér ofboðið og hótaði mömmu að flytja að heiman.

„Nú skal ég sko sýna henni!” hugsaði ég með mér, „hún mun sko aldeilis átta sig á því hversu mikið hún mun sakna mín þegar ég verð farin!”. Ég strunsaði inn í herbergi og tók saman föggur mínar í hálfgerðu rússi og vonaðist til þess að mamma kæmi hágrátandi inn í herbergið og sárbændi mig um að vera um kyrrt.

„Jæja góða mín, “ var svarið, „þá skalt þú bara flytja að heiman! Bless bless!” sagði mamma og ekki var vottur af söknuði í rödd hennar.

„Jæja já, þetta vissi ég! Þau elska systur mína greinilega meira en mig fyrst henni er alveg sama um það að ég fari” sannfærði ég sjálfa mig um í hljóði á meðan ég barðist við tárin. Ég tók saman nokkrar töskur og fyllti þær af „nauðsynjum”. Ég pakkaði niður skærum, því það er aldrei að vita hvenær til átaka kæmi í hinum stóra heimi. Ég pakkaði sömuleiðis niður uppáhalds barbídúkkunum mínum, nokkrum sokkapörum og koddanum mínum. Því næst greip ég fjólubláu regnhlífina mína, enda vetur og aldrei að vita hvenær tæki að snjóa svo best var að hafa eitthvað til að skýla sér fyrir veðurbrigðunum. Já, og vettlingar, þeir rötuðu líka ofan í pokann og stóra svarta pottlokið sem amma gaf mér, það endaði á höfðinu. Ég kæmi líka til með að þurfa félaga svo ég tók tuskukanínuna mína og klæddi hana í þykka peysu og rauðdoppóttar smekkbuxur svo henni yrði heldur ekki kalt. Ég tók mér minn tíma að pakka saman og vonaðist eftir því að því lengur sem það tæki mig að pakka því fljótari yrði mamma að átta sig á því að hún myndi sakna mín. Hún gerði það ekki, heldur lá bara upp í rúmi eins og skata og ruggaði hvítu hjólarúmi systur minnar fram og til baka.

„Jæja, nú er nóg komið!” hugsaði ég, „ósanngirnin á þessu heimili er mér ofviða og nú er sko farin!”. Ég strunsaði inn í rósableikt hjónaherbergið snúðug og tilkynnti mömmu hástöfum að ég væri tilbúin til brottfarar og það væri sko ekkert sem hún gæti sagt til að fá mig ofan af flutningunum, enda greinilegt að hún elskaði mig ekki jafn mikið og systur mína.

Mamma smellti af mér ljósmynd, „svona til að muna hvernig þú lítur út”, sagði hún og kvaddi mig. Hnúarnir hvítnuðu þegar ég kreppti saman litlu lófana í bræði og strunsaði út. Alltaf beið ég eftir því að mamma kæmi hlaupandi á eftir mér forviða af sorg, en hún kom ekki þó ég færi í útiskónna í forstofunni. Hún elti mig ekki fram á teppalagðan ganginn eða að daufgrænni lyftunni. Hún elti mig ekki niður að andyrinu, henni var greinilega alveg sama um mig. Ekki kom hún á eftir mér þegar útidyrahurðin skelltist á eftir mér og ég snéri bakinu í fölbleika blokkina. Hún stóð ekki grátandi út á svölunum og kallaði á eftir mér þegar ég arkaði taktfast yfir frosið grasið, upp brekkuna, framhjá leikvellinum og næstum því að stóru götunni. Með kökkinn í hálsinum áttaði ég mig á því hvað ég hafði gert. Ég stóð uppi á drullugum snjóskafli í gulum stígvélum og volg tárin runnu niður rauðbleikar, frostbitnar kinnarnar.

„Ég er alein, það elskar mig enginn. Mömmu er alveg sama um mig” hvíslaði ég með stærðarinnar skeifu og faðmaði að mér kanínubangsann. Kuldinn nísti inn að beini og ég áttaði mig á því að ég kynni hvorki að taka strætó né rata um bæinn. Ég hafði aldrei ætlað mér að flytja í alvöru að heiman, þessi gjörningur átti bara að sýna mömmu í tvo heimana. Það hafði greinilega ekki virkað. Ég var líka svöng og hafði ekki pakkað niður neinu matarkyns og var ekki viss hversu mikið fé var að hafa úr sparibauknum mínum, eða hvernig ég átti að opna hann. Ég játaði mig því sigraða og snéri aftur heim. Ég klifraði niður skítugan snjóskaflinn, niður frosna brekkuna og hringdi dyrasímanum að íbúðinni okkar.

„Halló, hver er þar með leyfi?” sagði mamma.

„Þetta er ég” svaraði ég í gegnum samanbitnar tennurnar.

“Ég hver?” sagði mamma kímin.

“Silja…” svaraði ég mjóróma, hún er greinilega strax búin að gleyma mér fyrst hún þekkir ekki einu sinni röddina, „Má ég flytja aftur heim?”.

Mamma hló og hleypti mér inn.

Hún stakk myndinni í vasann á albúminu merktu árinu 1999 og þreytist ekki á að segja söguna af því þegar ég flutti fyrst að heiman sex ára gömul.