KRYDDAÐUR KJÚKLINGUR OG BLÓMKÁLSHRÍSGRJÓN

KRYDDAÐUR KJÚKLINGUR OG BLÓMKÁLSHRÍSGRJÓN

Hver þekkir ekki “nýtt ár, ný ég”-möntruna? Nú er kominn janúar og ég ákvað að taka ekki veganúar þetta árið, það verður að bíða betri tíma þegar ég er ekki með barn á brjósti en eftir smá ráðfæringar ákvað ég að taka ketóanúar. Þessi uppskrift er ofureinföld og svona frekar ketógenísk, kannski fyrir utan döðlurnar en ég bara elska döðlur og fattaði ekki að þær væru stappfullar af sykri!

Uppskriftirnar mínar eru oftast alveg ofureinfaldar og má breyta þeim eftir  behag – bæta við, breyta og aðlaga svo endilega látið ímyndunaraflið ráða!

Kryddaður kjúklingur (2-4 manns)
6 úrbeinuð kjúklingalæri (ca. 200 gr mann)
Múskat
Kanill
Reykt paprika
Cayennepipar
Túrmerik
Þurrkað engifer
Ferskur hvítlaukur
Sítrónupipar
Salt & pipar
Olía

Blómkálshrísgrjón
500 gr rifið blómkál
Smjör
Fínt salt
Smá hot sauce

Meðlæti
Paprika
Brokkolí
Sveppir
Laukur
Púrrulaukur
Olía
Salt & pipar

Takið kjúklingalærin og setjið í mót eða á bakka. Dreypið olíu yfir og kryddið lærin. Ég byrja á góðri klípu af grófu salti og pipra vel yfir úr piparkvörninni. Því næst strái ég múskati og kanill yfir, ekki meira en teskeið yfir öll lærin. Því næst reykt paprika og cayenne, ég strái bara aðeins yfir því þessi krydd eru braðgsterk og heit, svo því meira sem maður setur af þeim því sterkari og reyktari verður maturinn. Kryddið svo vel með túrmerikinu, það gefur svo gott bragð og fallegan lit, svona eins og 2 teskeiðar.

Síðast dassa ég þurrkuðu engiferi yfir, eins og eina teskeið eða rúmlega það. Að lokum tek ég smá sítrónupipar og pipar yfir og mer hálfan hvítlauk yfir kjúklinginn.

Þegar allt kryddið er komið þá skuluð þið taka kjúklinginn og velta honum upp úr kryddblöndunni og krydda “hina” hliðina á kjúklingnum ef ykkur sýnist svo. Ég er svo rosalegur “sirkari” þegar kemur að mínum eigin uppskriftum að þetta er allt bara eftir smekk hvers og eins!

Ef þið viljið hafa réttinn vel marineraðan og vel sterkan þá er um að gera að græja kjúklinginn með nokkurra klukkutíma fyrirvara og leyfa honum að liggja í marineringunni. Það er engin nauðsyn en um að gera ef maður hefur tíma!

Kryddblönduna má svo nota á hvaða kjöt, baunir eða hráefni sem er.

Því næst skeriði grænmetið sem þið viljið hafa með en mér finnst algjörlega nauðsynlegt að hafa lauk, sveppi og papriku. Svo má bara steikja það sem maður á til eða langar að hafa með, ég notaði brokkolí og púrrulauk með þessu í þetta skiptið.

Hitið hellu og setjið pönnu yfir með smá olíu. Þegar pannan er heit skuluð þið skella grænmetinu á pönnuna og steikja vel, það er gott að skvetta eins og einni matskeið af vatni yfir pönnuna til að fá smá gufusteikingu á grænmetið. Búið svo til pláss á miðri pönnunni og setjið kjúklinginn þar niður. Lækkið hitann aðeins á pönnunni og steikið kjúklinginn og grænmetið saman. Leyfið þessu a damla aðeins á pönnunni á meðan þið græjið blómkálshrísgrjónin. Munið bara að snúa kjúklingnum svo hann brenni ekki á annarri hliðinni.

Rífið niður u.þ.b. 500 gr af blómkáli með stóru rifjárni. Bræðið smjörklípu, 50 gr, í potti og smá skvettu af hot sauce. Munið bara að því meiri hot sauce, því meiri hiti!

Þegar smjörið er bráðið í pottinum setjið blómkálið í pottinn og hrærið með sleikju. Þekjið blómkálið með smjörinu þangað til það verður gullið og fallegt. Ég skar svo nokkrar döðlur og blandaði saman við en fyrir þá sem eru 100% ketó er gott að sleppa því!

Athugið svo með kjúklinginn á pönnunni hvort hann sé ekki pottþétt steiktur í gegn og ekki bleikur að innan. Grænmetið á að vera orðið fallega steikt og gullbrúnt og eldhúsið ilmar vel!

Njótið svo með bestu lyst, kannski með smá extra hot sauce eða sojasósu til hliðar!