ÁRAMÓTAUPPGJÖR

ÁRAMÓTAUPPGJÖR

Nú er árið 2018 liðið og hefð fyrir því að fara yfir farinn veg. Það er greinilegt hvað stóð upp úr hjá fylgjendum mínum á instagram en sonur minn var augljóslega vinsælasta viðfangsefni þessa árs, bæði hjá þeim og mér.

Þegar ég var yngri átti ég mjög erfitt með áramót, sérstaklega sem unglingur. Þau voru ákaflega kvíðavaldandi tímamót fyrir mig – að horfa yfir farinn veg, minnast áfalla og sigra, vinamissis og gleðistunda, hamingju og sorgar. Mér þótti þessi tímamót angurvær áminning þess að lífið er óútreiknanlegt og stundum getur verið erfitt að fóta sig sérstaklega þegar manni líður eins og maður sé á rangri hillu.

Það var ekki fyrr en ég náði ákveðnum þroska og andlegri vellíðan að ég náði að halda upp á áramótin með gleði og þakklæti, vongóð í hjarta um komandi tíma. Við fiskarnir eigum það til að dramatísera hlutina um of og ég þurfti að læra að sleppa dögum, ártölum, tímasetningum og væntingum. Ég er alltaf að læra það að lífið er langhlaup ekki kapphlaup og þú ert alltaf á þeim stað sem þú átt að vera á akkúrat á þeim tíma. Við þurfum að læra af fortíðinni á sama tíma og við lærum að sleppa henni.

Að því sögðu þá var árið 2018 þvílíkur vendipunktur í mínu lífi. Þegar ég horfi yfir árin á undan þá var árið 2016 mikið mótunarár fyrir okkur Ísak þar sem við unnum eins og skepnur, fluttum inn á foreldra og söfnuðum okkur fyrir heimsreisunni sem setti fallega slaufu á annars viðburðarríkt ár. Árið 2016 var í alvöru talað síðasta ár unglingsára okkar, við lifðum áhyggjulaus og barnsleg á sama tíma og ferðalagið þroskaði okkur og opnaði huga okkar. Árið 2017 var ótrúlega furðulegt ár því þó það hafi verið skemmtilegt og fullt af ævintýrum var það líka erfitt fyrir okkur fjárhagslega, ég handleggsbrotnaði og lenti í þunglyndislægð og mér fannst ég algjörlega týnast. Það var magnað að enda árið 2017 í faðmi vina og fjölskyldu en vakna svo á nýársmorgun sannfærð um það að árið 2018 yrði ég loksins mamma.

Árið 2018 var þannig ein meðganga og nýtt hlutverk að hausti til. Haustin mín hafa gjarnan einkennst af nýjungum, breytingum og umhleypingum. Eftir sumarið er gott að endurstilla sig og hefja ný verkefni – ég flutti út frá foreldrum mínum að hausti til, byrjaði í háskóla að hausti til, ég skipti um vinnur að hausti til, fékk stöðuhækkanir að hausti til, flutti inn með Ísak að hausti til og nú síðasta haust varð ég mamma.

Öll skynjum við tíma og rúm á ólíka vegu og hentaði það mínu tímaskyni fullkomlega að uppgötva óléttu í janúar og eyða árinu í meðgönguna, hver mánuður í takt við þann mánuð meðgöngunnar. Fyrstu þrír mánuðir meðgöngunnar eru þokukenndir, það var flókið að byrja í skóla en vera alltaf óglatt, “ljúga” að vinum okkar og vandamönnum, hætta að drekka og neyðast til að breyta matarvenjum sínum í takt við kröfur barnsins. Það var leiðinlegt að æla og líða illa og skrópa í skólann og komast ekki til vinnu en þegar fyrsta hlutanum lauk tók við blómlegt tímabil ferðalaga, meðgöngujóga og gleði.

Ég tók prófatíðina í nefið og lauk önninni með yfir níu í meðaleinkunn. Ég finn innblástur og gleði í náminu og er spennt að taka aftur upp þráðinn í kvikmyndafræðinni í næstu viku. Fiskurinn sem ég er, þá hef ég háleitar hugmyndir um ágæti mitt og starfsferil innan kvikmyndafræðinnar og líður mér eins og 2019 verði stórkostlegt ár fyrir frama minn og nám. Hver veit, kannski er sá grunur á engum rökum byggður en við verðum líka að muna að hver er sinnar gæfu smiður.

Ég lét meðgönguna ekki stöðva mig í ferðalögum og gleði, þrátt fyrir að hafa þurft að fresta einni vinkonuferð í febrúar sökum litla farþegans en ég ferðaðist engu að síður þrisvar erlendis á liðnu ári.

Ég fór í stórkostlega ferð til Stokkhólms með systur minni, sem var ákaflega þroskandi og gefandi fyrir okkur systurnar sem þrátt fyrir að deila nákvæmlega sömu genum, erum eins og svart og hvítt. Við erum að fóta okkur í nýju sambandi sem systur á fullorðinsaldri og var ómetanlegt að deila með henni þessu ferðalagi og hápunktur þess var að sjálfsögðu að sjá Sam Smith á tónleikum. Slíkar stundir eru ómetanleg upplifun sem engin veraldleg auðævi eiga roð í.

Við Ísak heimsóttum vinafólk okkar til Lundar í Svíþjóð og upplifðum þar stórskemmtilegt nemendakarnival í háskólabænum fagra. Sólin sleikti vanga okkar og lífið lék við okkur á Spáni síðsumars í faðmi fjölskyldunnar á Almeria. Ég viðurkenni það þó fúslega að slíkar túristaferðir í uppskrúfaða ferðamannabæi á Spáni, með rútuferðum í verslunarmiðstöðvar og fótboltaáhorf á hollenskum krám, eru ekki alveg minn tebolli en það var engu að síður ómetanlegt að eyða tíma með fjölskyldunni í sólinni, svona sér í lagi þar sem Reykjavík var á rigningarfloti allt sumarið.

Þegar líða tók á sumarið minnkaði ég verulega við mig í vinnu og var farin að finna allverulega fyrir ferðafélaganum í bumbunni. Það varð sífellt flóknara að sætta sig við slitin og kílóin á sama tíma og maður var þakklátur fyrir eigin heilsu og barnsins og spenntur fyrir komu drengsins. Sumrinu lauk með tíu ára árgangsmóti gamalla bekkjarfélaga úr grunnskóla heima á Akureyri og stórfenglegu þrítugsafmæli Ísaks og alltaf styttist biðin í soninn.

Meðgöngujógað hélt áfram að gefa af sér og fann ég hvernig hugurinn fór að endurstilla sig og reikna ný hnit fyrir vegferðina sem foreldrahlutverkið er. Þegar haustið loksins bar að garði hófst mín stærsta áskorun til þessa – að koma þessu barni í heiminn. Sú áskorun var erfið og tók gríðarlega mikið á því eftir draumkennda meðgöngu og streituvaldandi fæðingarferli sem endaði í keisarauppskurði fékk ég loksins son minn í hendurnar. Þannig hófst bataferlið hönd í hönd við nýtt hlutverk og hefur það verið gefandi, flókið, strembið og auðvelt allt í bland.

Ég leyfði sjálfri mér að lifa og njóta þetta haustið. Ég tók mér pásu frá starfsskyldum, freelance-vinnu og samfélagsmiðlum. Ég einbeitti mér að brjóstagjöfinni og bataferlinu, að geta gengið upprétt aftur og læra á tvo nýja líkama, minn eiginn og sonar míns. Það hefur verið flókið að feta sig í foreldrahlutverkinu því eins og gefur að skilja, breytist gjörsamlega allt þegar barn er komið í spilið. Sonurinn er algjört draumbarn og fylgir honum ekkert vesen, engar pestar eða heilsuvandamál en þrátt fyrir það allt getur þetta orðið erfitt og þreytandi á tímum, eðlilega. Við erum hinsvegar ævinlega þakklát að eiga heilbrigðan son sem vex og dafnar, drekkur brjóstamjólk og þrátt fyrir bakvandamál og keisarauppskurði erum við Ísak bæði fullkomlega tilbúin í það auðmýkjandi, valdeflandi og styrkjandi hlutverk að vera foreldrar.

Þegar ég horfi yfir árið er ég sátt og sæl. Ég þrái hinsvegar ferskleikann og nýjungagirnina sem janúar hefur í för með sér og hlakka til að takast á við ný verkefni og nýjar áskoranir þegar einbeitning fer ekki öll í það að ganga með barn. Það verður gott að komast í betri rútínu, komast aftur í skólann og feta mig aftur á þá andlegu braut sem meðgangan og jógað beindi mér á.

Ég hef ákveðið að taka lífið í mínar eigin hendur og láta orð gagnrýnenda sem vind um eyru þjóta. Ég er með háleit markmið og plön fyrir þetta gefandi ár en þó einbeitingin sé að sjálfsögðu sett á að verða betra foreldri og sinna barninu af fremsta megni hef ég líka ákveðið að árið 2019 verður árið þegar ég get loksins kallað mig útgefinn rithöfund!

Þið verðið að bíða spennt og fylgjast vel með en ég hef ákveðið að gefa út “Vatnið, gríman og geltið” óháð forlagi og fer hópsöfnun fyrir verkefnið af stað með vormánuðum. Þetta er árið 2019, árið sem ég tek lífið í mínar eigin hendur og stýri því þangað sem ég vil!

Ég er fyrir lifandi löngu hætt að strengja streituvaldandi áramótaheit. Ég set hinsvegar ásetning inn í árið og sá ásetningur er að vaxa, dafna og þroskast með ástinni minni og syni, takast á við áskoranir lífsins af jákvæðni og halda áfram þessari andlegu, spírítisku vegferð sem meðgangan og jógað beindu mér á. Ég ætla að horfa meira inn á við og rækta sjálfa mig svo ég geti ræktað samböndin við fólkið sem ég elska.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs, farsældar og hamingju á komandi ári, takk fyrir að vera með mér í þessari rússíbanareið!