MANGÓ BBQ KJÚKLINGUR

MANGÓ BBQ KJÚKLINGUR

Stundum hefur maður engan tíma til að elda en langar samt í eitthvað ótrúlega gott og girnilegt. Þetta er svoleiðis uppskrift, nánast fyrirhafnarlaus og getur verið að malla á meðan maður sinnir öðrum hlutum! Ég er með BBQ-sósur á heilanum og elska kjúkling þannig þessi marinering er ein af mínum uppáhalds. Ég skellti í þessar kjúklingalundir fyrir mig og vinkonu mína um daginn, þannig uppskriftin miðast við mat handa tveimur en auðvitað er hægt að stækka uppskriftina ef von er á fleirum í mat!

MANGÓ BBQ KJÚKLINGUR (2-4 manns)

500 gr kjúklingalundir (miðað við 250 gr á mann)
1 msk BBQ-sósa
1 msk Mango Chutney
1 tsk sojasósa
1 tsk hunang
2 hvítlauksrif
Sesamfræ eftir smekk

SÆTKARTÖFLUMÚS
1/2 sæt kartafla
1/2 bökunarkartafla
100 gr smjör
Dass af mjólk
Salt & pipar
Túrmerik
Cayennepipar
Reykt paprikuduft

Það er best að byrja á að græja marineringuna. Hlutföllinn eru afar einföld og því ekkert mál að stækka eða minnka uppskriftina. Blandið henni saman í skál og smakkið til eftir smekk, setjið síðan lundirnar í eldfast mót, saltið og piprið kjötið og veltið þeim upp úr marineringunni. Passið að marineringin fari vel yfir allt kjötið. Látið lundirnar svo liggja í marineringunni í einhverja stund, í þetta skiptið lét ég lundirnar liggja í klukkutíma á meðan ég græjaði músina og forhitaði ofninn.

Til að gera músina er best að elda kartöflurnar fyrst. Það er hægt að sjóða þær fyrst, til að mýkja þær upp eða baka í ofni. Í þetta skiptið sauð ég kartöflurnar en ég hef gert mús áður með því að baka kartöflurnar fyrst og mér finnst það gefa betra bragð af músinni sjálfri. Ef þið ætlið að baka kartöflurnar þá er best að forhita ofninn á 200°c og setja undir/yfir blástur. Hitið ofninn hvort sem þið ætlkið að baka kartöflurnar í honum eða ekki, því kjúklingurinn fer líka inn í ofn!

 

Það þarf ekki að flysja kartöflurnar en sumir kjósa að gera það, það fer algjörlega eftir smekk. Skerið kartöflurnar niður í bita og skellið þeim á bökunarpappír með smá olíu, salt og pipar. Bakið í 15-20 mín eða þangað til þær verða mjúkar.

Ef þið viljið heldur sjóðað þær þá skuluð þið setja vatn í pott með fínu salti, skera kartöflurnar niður og sjóða þær þangað til kartöflurnar verða mjúkar.

Skellið kjúklingnum inn í ofn. Það er gott að strá smá sesamfræjum yfir lundirnar til að fá smá stökkleika og bragðið af ristuðum sesamfræjum á vel við með þessari marineringu. Ég gerði þau mistök að gleyma fræjunum og setti þau ofan á aðeins of seint, þess vegna eru þau ekki nægilega vel ristuð eins og sést á myndinni, þannig munið að setja þau á um leið og þið skellið kjúklingnum inn í ofn!

Þegar kartöflurnar eru orðnar mjúkar er best að setja þær í pott, bæta smjörinu við og stappa þeim saman með gaffli eða kartöflustappara. Það er líka hægt að nota töfrasprota en þannig næst besta áferðin á músina, nú eða setja blönduna í matvinnsluvél. Ekki hafa helluna á fullum hita, þá eigiði á hættu að brenna músina en það er best að hafa helluna meðalheita. Bætið mjólkinni út í, eftir smekk hversu þykka eða þunna þið viljið hafa músina. Kryddið hana svo eftir smekk! Passið bara að hræra henni alltaf vel saman eftir að þið bætið kryddi við og smakkið hana til þangað til að þið eruð ánægð með bragðið.

Fylgist með kjúklingnum en hann þarf að bakast i 15-20 mín, þangað til marineringin er orðin klístruð og fín og lundirnar eru eldaðar í gegn, ekki bleikar heldur alveg hvítar þegar skorið er í þær.

Ég skar svo niður kirsuberjatómata, papriku, vorlauk og ruccola til að hafa smá hliðarsalat með og toppaði kartöflumúsina með niðurskornum vorlauk. Verði ykkur að góðu elskurnar!