MEÐGÖNGUJÓGA

MEÐGÖNGUJÓGA

Ljósmynd: Krista Björk Kristjánsdóttir/ @kristabjorkk
Færslan er hvorki kostuð né unnin í samstarfi.

Ég hef alltaf verið frekar andleg týpa og trúað staðfastlega á mátt andlegra málefna. Hugur minn hefur verið á reiki um margra ára tímabil, sérstaklega eftir mikið þunglyndi og kvíða, áföll og streitu. Ég hef leitað að andlegri útrás í kristinni trú, stjörnuspeki, sálfræði, hugrænni atferlismeðferð, ferðalögum og líklegast í öllum krókum og kimum samfélagsins en aldrei fundið djúpstæða tengingu á þessum stöðum.

Mín andlega vegferð hófst djúpt innra með mér þegar við Ísak ferðuðumst um Asíu haustið 2016. Þá vaknaði áhugi minn á búddisma og andlegri heilun fyrir alvöru, þó ég væri alls ekki að leitast eftir því að verða búddisti. Mér fannst bara einhver skynsemi í því hvernig margar Suður-Asískar þjóðir höguðu lífi sínu eftir gildum búddismans, án nokkurar fanatíkur eins og ég þekkti úr vestrænum trúarbrögðum. Þrátt fyrir að áhuginn á andlegum málefnum hafi kviknað á þessu ferðalagi, þá bældi ég þessar langanir niður, því mér fannst klisja að vera týpan sem ferðaðist til Asíu og “fann sjálfa sig” í anda Borða, biðja, elska.

Samband mitt við líkamsrækt er óttalega slitrótt. Ég hef stundað jóga hér og þar í gegnum tíðina og alltaf langað að verða betri, fimari, liðugari og flottari í jógastöðunum. Ég einbeitti mér að því að mæta í flottasta jógadressinu, með rándýra dýnu og handklæði, anda sem hæst og reyna að ná og halda teygjunum sem lengst. Ég einblíndi á kílóatölur og mínútulengd hvers hunds sem ég gerði. Nú skildi ég sko verða alvöru jógi, sem gæti staðið á höndum og teygt líkamann í ótrúlegustu stöður. Ég eyddi fúlgu fjár í allskonar óþarfa drasl sem átti allt að stuðla að því að ég yrði betri í jóga. Það gekk ekki eftir og fann ég aldrei minni innri jóga, mína innri tengingu. Ég entist stutt á allskonar jóganámskeiðum í jógastöðvum sem okruðu að meðlimum sínum með því loforði að færa þig nær innri frið og reyndi að stunda jóga í flex-sölum líkamsræktarstöðva, en allt kom fyrir ekki, ég fann ekki tenginguna.

Þangað til ég fór í meðgöngujóga hjá Auði Bjarnadóttur í Jógasetrinu. Ég hafði heyrt bæði mömmur og ljósmæður dásama meðgöngujógað hjá Auði og þegar ég fór í fyrsta tímann hélt ég að við værum að fara að toga og teygja legið og útlimi til að verða betri í skrokknum fyrir fæðinguna. Ég hélt að þetta yrði líkamsrækt eins og ég hafði trúað að jóga væri í mörg ár. Það sló mig því algjörlega útaf laginu þegar tíminn byrjaði á möntrusöng og fallegum orðum úr viskubrunni Auðar. Við sátum heillengi í kyrrð og ró með bumburnar út í loft, umkringdar kristöllum og lofnarblómailmi, áður en nokkrar teygjur eða öndunaræfingar áttu sér stað.

Tengingin sem ég hafði leitað að var fundin. Jóga er ekki bara líkamsrækt, jóga er fyrst og fremst hugarrækt, sálarrækt. Jóga snýst ekki um það hver getur staðið lengst í teygjunni eða hver kemst lengst upp á tær sér, hver andar hæst og hver nær erfiðustu jógastöðunni. Jóga snýst um innri hugarró, fegurðina í jógafræðunum og að hlusta á eigið innsæi.

Ég fór að gráta í fyrsta meðgöngujógatímanum. Orkan í herberginu var svo falleg og dásamleg, þrjátíu óléttar konur komnar saman með þrjátíu lítil kríli með sér. Allar vorum við að leitast eftir einhverri tengingu, einhverskonar andlegri handleiðslu í gegnum þetta kyngimagnaða ferli sem meðgangan og fæðingin er. Hingað var svo hún Auður mætt, mikill gúru, og hellti úr viskubrunni sínum sem við óléttu konurnar elskuðum að baða okkur í. Þegar Auður talaði til okkar með mjúkri röddu og sagði okkur að við værum gyðjur, ljós lífsins og opinn farvegur inn í lífið, að við gætum andað okkur í gegnum sársaukann sem væri bara tímabundinn því verðlaunin að fá barnið í hendurnar væru svo frábær, fór ég svo djúpt inn í mig að tárin fóru að streyma. Ég var svo þakklát henni fyrir að beina mér loksins að þessari andlegu visku og tengingu sem ég hafði leitað sáran að í mörg, mörg ár.

Ég stundaði meðgöngujóga af kappi síðustu þrjá mánuði meðgöngunnar. Ástundunin stuðlaði að hreyfingu, sem ég átti erfitt með alla meðgönguna og hjálpaði mér að ná tengslum við hugleiðslu og að tengja jógísku fræðin við mitt daglega líf og rútínu. Að skilja jóga á þennan hátt og hlusta á öll jákvæðu skilaboðin frá Auði hefur einnig kennt mér að verða auðmýkri í samskiptum og tengslum mínum við umheiminn. Þegar Auður segir að jóga snúist ekki um hver sé í flottustu fötunum eða nái lengstu teygjunni, heldur séum við öll hér til að gera þetta á okkar eigin hraða og forsendum finnst mér eins og hún sé að tala um lífið sjálft. Við þurfum ekki að vera í kapphlaupi og það eina sem við þurfum að gera er að finna okkar farveg.

Ég skammast mín ekki fyrir þessa upplifun. Ég skammast mín ekki fyrir að vera hvít, millistéttakona á þrítugsaldri sem er að finna sig í “austurlenskum” fræðum og jóga. Mér líður vel, ástundunin og heillaráð Auðar láta mér líða vel og hafa leyft mér að opna hjarta mitt fyrir ákveðnum sannleika sem ég hafði verið að fela í mörg ár. Ég dýrka að setjast á dýnuna, finna orkuna frá kristöllunum og gong-tónlistinni, anda að mér dásemdar lofnarblómum og leita að rótartengingu rófubeins við jörðina.

Eitt það mikilvægasta sem Auður kennir okkur konunum er öndunin. Hún les regulega upp fæðingarsögur kvenna sem hafa verið hjá henni í meðgöngujóga og allar tala þær um það hversu mikið haföndunin, eða ujjayi, hafi hjálpað þeim. Það var ótrúlegt hvað þessi öndun nýttist vel í gegnum hríðaverkina, jafnvel þótt fæðingin mín hafi ekki farið eins og ég áætlaði.

Fæðingin mín endaði í keisaraaðgerð, sem hafði svo sannarlega aldrei verið á planinu. Auður hafði mikið talað um það hvernig konur ættu að taka vald dá eigin fæðingu og sækja sjálfstraust til gyðjunnar innra með okkur. Mæðurnar ættu að fá að stjórna því sjálfar hvernig fæðingin fer fram og taka ekki öllum inngripum þegjandi og hljóðalaust. Það þýðir að sjálfsögðu ekki að gefa skít í vestræna heilbrigðisþjónustu og gefa læknum puttann, heldur aðeins að vera meðvituð og vera óhrædd að véfengja og spyrja spurninga. Þessi lexía nýttist mér svo sannarlega vel því í gegnum mitt fæðingarferli var mikið um inngrip. Ég trúi því staðfastlega að hefði ég ekki farið í jóga til Auðar og meðtekið kennslu hennar, hefði farið verr fyrir okkur mæðginum.

Auður hafði kennt mér að vera sterk, vera gyðja og ljónynja, stórkostlegt fjall sem lætur ekkert á sig fá og með þeirri visku gat ég tekist á við þessa áskorun af svo mikilli auðmýkt og rólyndi í stað kvíða og hræðslu.

Meðgöngujógað býður upp á parakvöld, þar sem mæðurnar geta komið með maka sína og makarnir geta kynnst því sem konan hefur verið að læra og upplifa í meðgöngujóganu. Mér fannst gott að sjá Ísak meðtaka boðskapinn, sem mér þótti smá erfitt að koma sjálf til skila og upplifun okkar af parakvöldinu gerði ekki aðeins það að verkum að Ísak skildi mig betur og þá andlegu vegferð sem ég var komin í heldur gat hann notað fræðin í fæðingunni sjálfri. Hann minnti mig á að anda djúpt, hann strauk mér og nuddaði og spreyjaði lofnarblómaolíu yfir mig til að róa mig niður. Það hjálpaði honum að halda ró sinni og jarðtengingu að sjá hversu róleg ég var á meðan öllu þessu stóð, sérstaklega þegar við enduðum loks í keisaraaðgerð.

Á þessari meðgöngu lærði ég að sleppa því sem skiptir engu máli. Ég hef komist í djúpstæð tengsl við fallega, rólega og yndislega konu sem bjó innra með mér og hafði verið í dvala í gegnum ólgusjó af áföllum og þunglyndi. Mér finnst ég vera búin að finna sjálfa mig upp á nýtt. Ég hlakkaði til síðustu vikurnar að takast á við fæðinguna af krafti, jákvæðni og visku á sama tíma og ég meðtók alla möguleika sem gætu farið úrskeiðis. Auður og viska hennar var mér ofarlega í huga í gegnum erfiða fæðinguna og keisaraaðgerðin sem fylgdi. Ég hlakka líka til að nota jógatækin og tólin sem Auður hefur kennt mér í uppeldinu, brjóstagjöfinni og framtíðinni.

Á þessari meðgöngu lærði ég að bera nýfundna virðingu fyrir sjálfri mér og því magnaða sköpunarverki sem líkaminn er. Að sjá líkama sinn breytast, þroskast, stækka og teygjast í allar áttir til að rúma fyrir nýju lífi er ótrúleg lífsreynsla að ganga í gegnum. Lífsreynsla sem ég tek á móti með auðmýkt og þakklæti, því ekki er það öllum gefið að geta gengið með börn.

Ég hef aldrei verið jafn hamingjusöm eða ánægð með sjálfa mig og fyrir manneskju sem hefur glímt við alvarlegt þunglyndi, mikinn kvíða og sjálfsefa allt sitt líf er ótrúlega gefandi að vera kominn á þann stað að finna fullkominn frið í hjartanu.

Ég get því heilshugar mælt með meðgöngujóga fyrir allar barnshafandi konur og maka þeirra. Ég þreytist ekki á að tala um það hversu mikið þessir þrír mánuðir hjálpuðu mér sem barnshafandi konu, verðandi móður og einstakling. Ég get ekki beðið eftir að komast aftur á dýnuna, með soninn með mér, og halda áfram að læra, meðtaka og upplifa.