ALFREDO PASTA MEÐ KJÚKLING

ALFREDO PASTA MEÐ KJÚKLING

Ég ætla ekki að ljúga að ykkur, ég elska pasta. Ég fer ekki ofan af því að ég var örugglega Ítali í fyrra lífi, því mér þykir í alvörunni ekkert betra en ferskt pasta með nóg af djúsí sósu og eitt (tvö, eða jafnvel þrjú) sléttfull rauðvínsglös með. Þessi réttur er fullkomlega klassískur ítalskur pastaréttur en hefðbundin útgáfa af honum inniheldur fettuccine-pasta og þykkja, parmesan alfredo-sósu. Ég notaði hinsvegar penne, því það var það sem ég átti til en alfredo-sósan klikkar ekki á hvaða pasta sem er!

Upphaflega var fettuccine alfredo hugsað sem forréttur – aðeins lítill skammtur af fettuccine var eldaður með nægilega miklu smjöri og parmesan. Þegar parmesanosturinn bráðnar saman við smjörið verður til ríkuleg, þeytt sósa sem hylur ferska fettuccine strimlana og myndar djúsí húð yfir pastanu. Þegar rétturinn berst svo til Bandaríkjanna með ítölskum innflytjendum verður vinsælt að bæta við hann kjöti, kjúklingi og jafnvel brokkolí til að gera réttinn matarmeiri og vellegri. Útgáfan sem við þekkjum af réttinum í dag, í uppskriftabókum og ítölskum veitingastöðum, kallast því gjarnan “Chicken Alfredo” en í rauninni er það alfredo-sósan sem skiptir mestu máli hér.

Því miður var ég mjög mikið að flýta mér þegar ég eldaði þennan rétt síðast og á því engar myndir af ferlinu sjálfu, en vona að lýsingar mínar á eldmennskunni dugi ykkur til í þetta skiptið!

Alfredo pasta með kjúkling (fyrir 2-4 manns)

250 gr penne pasta
300 gr brokkolí (1 haus)
2 msk olía
200 gr úrbeinuð kjúklingalæri
55-60 gr smjör
3-4 hvítlauksgeirar
240 ml matreiðslurjómi
170 gr fínt rifinn parmesan ostur
Örlítið af múskat
Salt & pipar eftir smekk
Auka parmesan sem garnish

Byrjið á því að sjóða um það bil 950 ml af vatni í nægilega stórum og góðum potti. Saltið vatnið með fínu salti eftir smekk, en saltið hjálpar ekki endilega til við suðuna heldur aðeins við bragðið. Þegar þið hafið náð upp suðu á vatninu, lækkið þá aðeins hitann undir pottinum og sjóðið pennepastað í rúmlega 8 mínutur, þangað til það verður ljósgult en gætið að því að sjóða það ekki alveg, heldur hafa það aðeins undireldað.

Á meðan pastað er að sjóða, hreinsið og skerið niður brokkolíhausinn. Gott er að skera brokkolíið í meðalstóra bita. Þegar pastað hefur soðið í þessar 8 mínútur, skellið þá brokkolíinu ofan í pottinn með pastanu, setjið lok á og eldið í aðrar fjórar mínútur. Best er að hafa meðalhita undir pottinum og lok á meðan.

Hafið til djúpa pönnnu og kveikið undir henni. Hafið meðalhita undir djúpu pönnunni og bíðið eftir að hún hitni. Þessi panna er notuð til að steikja kjúklinginn og síðar til að blanda öllum réttinum saman.

Þegar pastað og brokkolíið er soðið og klárt, takið pottinn af hellunni og hellið pastanu og brokkolíinu í gegnum sigti. Gott getur verið að geyma smá af pastavatninu til hliðar til að bæta út á sósuna, en margir ítalskir matgæðingar vilja meina að sú aðferð að bæta við soðnu pastavatni gerir allar pastasóur mýkri og betri!

Hellið ísköldu vatni yfir sigtið með pastanu og brokkolíinu í, til að “blanchera” brokkolíið og stöðva suðuna. Þetta gerir brokkolíið grænna, stinnarra og bragðbetra og kemur í veg fyrir að pastað og brokkolíið ofeldist í eigin gufum yfir næstu skrefum.

Þegar djúpa pannan er orðin nægilega heit, setjið út á hana olíu og steikið kjúklinginn. Saltið og piprið eftir smekk. Sjáið til þess að kjúklingurinn sé vel steiktur og fjarlægið hann af pönnunni, ofan í skál eða á disk, þegar hann er tilbúinn en haldið pönnunni heitri og góðri. Gætið þess þó að hafa hana ekki of heita, svo sósan brenni ekki!

Bætið smjörinu út á pönnuna og bræðið það til fulls. Skerið og merjið hvítlaukinn og blandið honum vel saman við smjörið en gætið þess að hætta aldrei að hræra í blöndunni svo hún brenni ekki við. Þegar smjörið er bráðið, hellið þá rjómanum varlega út á pönnuna og haldið áfram að hræra. Bætið við salti, pipar og múskati. Hrærið vel saman og smakkið til.

Þegar sósan fer að “búbbla” eða er við suðupunkt, bætið þá parmesan ostinum út í blönduna og munið að halda áfram að hræra. Gætið þess að smakka sósuna til, því það getur tekið hvítlaukinn og kryddinn nokkurn tíma að sýna bragðeiginleika sína til fulls. Haldið áfram að hræra í sósunni á meðan hún þykkist og þykkist.

Þegar sósan er orðin klár, er þykk og rjómakennd, bætið þá kjúklingnum, pastanu og brokkolíinu aftur út á pönnuna og hrærið réttinum öllum saman. Sjáið til þess að sósan blandist vel saman við hráefnin og smakkið til rétt undir lokin.

Rétturinn er klár og er best borinn fram með nægilega miklu magni af parmesan osti og salti til hliðar, fersku spínati með smá extra virgin ólífuolíu og að sjálfsögðu, ekta ítölsku rauðvíni með!

Bon appétit!