SORGARFERLIÐ – GEYMUM EKKI FÖGRU ORÐIN

SORGARFERLIÐ – GEYMUM EKKI FÖGRU ORÐIN

Sorgin er ótrúlega furðulegt fyrirbæri. Hún er óumflýjanlegur hluti hinnar mannlegu reynslu, hvort sem það er sorgin við ástvinamissi, áföll, sambandsslit eða annars konar sorg. Sorgarferlið sjálft getur verið óútreiknanlegt og eins erfitt og það getur verið gefandi. Áföllin og sorgin sem ég hef upplifað á minni annars stuttu ævi hafa hinsvegar kennt mér það að engin, hvorki þú né aðrir í kringum þig, geta stjórnað sorginni.

Tilfinningar okkar eru okkar hreinasta tjáningarform og eru þær gjarnan þannig gerðar að við einfaldlega ráðum ekki við þær. Tilfinningar sem okkur finnst oft ekki eiga rétt á sér, vera óviðeigandi eða jafnvel heimskulegar geta blossað upp á hinum ólíklegustu augnablikum án þess að við botnum nokkuð í þeim. Þá er mál að staldra við og virkilega meðtaka þessar tilfinningar og velta því fyrir sér hvers vegna þær séu að brjótast út með þessum hætti, nú undir þessum kringumstæðum. Tilfinningar okkar berskjalda okkur fyrir umheiminum og í rauninni eigum við aldrei að þurfa að biðjast afsökunar á tilvist þeirra, hvað þá í sorgarferlinu.

Lífsreynslan að takast á við sorg er eins fjölbreytt og frábrugðin öðrum og hugsast getur. Fólk tekst á við sorgina á mismunandi hátt og líklegast bregst fólk við sorginni á mismunandi vegu eftir því hvar það er statt á lífsleiðinni. Áföll og átök móta okkur jafn skilmerkilega og sigrar. Þannig geta sorgarviðbrögð okkar sem börn verið fullkomlega frábrugðin því sem við upplifum sem unglingar eða fullorðið fólk. Aðstæður sorgarinnar spila svo að sjálfsögðu stórt hlutverk í því hvernig við tökumst á við áfallið og er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að engin hefur fullkomið vald á lífinu, tilfinningum sínum eða sorginni.

Þegar kemur að sorginni er ekkert sem kallast rétt eða rangt. Engin viðbrögð eru réttari eða rangari en önnur. Mikilvægast er að sjálfsögðu að bera virðingu fyrir tilfinningum og þörfum þess sem gengur í gegnum sorgarferlið og vera hreinskilin í samskiptum við hvort annað. Fólk sem gagnrýnir sorgarferli annarra hefur einfaldlega engan skilning á því hvernig tilfinningar virka og kunna greinilega ekki að bera virðingu fyrir tilfinningum og upplifunum annarra. Það er mikilvægt að hugsa til þess að þó þú hefðir persónulega brugðist öðruvísi við aðstæðum eða þyki viðbrögð þess sem í sorginni er vera helst til of dramatísk, að þá ógildir það ekki tilfinningar annarra.

Þegar kötturinn minn varð fyrir bíl var ég óvinnufær í viku. Vinkona mín sem lenti í því sama á svipuðum tíma mætti í vinnuna samdægurs. Langamma eins vinnufélaga míns lést háöldruð og var hann umframkominn af sorg meðan önnur samstarfskona okkar gagnrýndi hann fyrir “aumingjaskapinn” því þetta hefði nú “bara verið langamma hans”.

Ég benti henni þá góðfúslega á það að við hefðum ekki hugmynd um hvernig samband þessa tiltekna manns hafði verið við langömmu hans og þó þau hefðu ekki talast við í 20 ár kæmi það okkur ekki við að stjórna því hvernig hann væri að syrgja hana. Það skiptir heldur ekki máli hvort það var gullfiskurinn þinn eða fjölskylduhundurinn sem kvaddi eða hvort sambandið sem slitnaði uppúr varði í þrjá mánuði eða þrjátíu ár – tilfinningarnar eru flæðandi orka og er það ekki annarra að setja sorginni okkar sérstaka skilmála.

Systir sorgarinnar er eftirsjáin. Tilhugsunin um allt sem við hefðum nú átt að segja eða gera öðruvísi. Sífelldar, nagandi hugsanir hvort við hefðum getað bjargað, hjálpað, komið í veg fyrir eða breytt aðstæðunum á einhvern hátt. Sorgin í því að líða eins og hlutirnir hafi verið ósagðir, óheyrðir og óséðir.

Eftirsjánna við ástvinamissi þekki ég eins og handarbakið á mér. Föðurbróðir minn var bráðkvaddur fyrir fimm árum, langt fyrir aldur fram, og leið ekki á löngu þar til sektarkennd og eftirsjáin ógurlega hreiðruðu um sig í hjartanu. Síðar upplifði ég að missa föðurömmu mína en hún hafði verið sjúklingur um áratugaskeið og missirinn sem ég upplifði þá var allt annar en áður. Ferlið að syrgja hana var fullkomlega frábrugðið því að syrgja fimmtugan föðurbróður og hvað þá þegar ég kvaddi níræða langömmu mína nú fyrir stuttu.

Þegar föðurbróðir minn lést var sem eftirsjáin elti mig á röndum eins og hundóður rakki. Þessi fimm ár frá andláti hans hafa verið strembin og var það ekki fyrr en nú í ár þar sem afmælisdagur hans og dánardagur lamaði mig ekki tilfinningalega. Það hefur maður gjarnan lært af biturri og illfenginni reynslu að tíminn læknar vissulega öll sár. Sorgin breytist ár frá ári en hún hverfur líklegast aldrei, verður aldrei ógild eða hættir að eiga rétt á sér.

Ég hef þurft að leita mikið inn á við, leita sálfræðihjálpar og stunda mikla sjálfsvinnu til þess að losna undan þessari sífelldu sektarkennd og eftirsjá sem fylgdi þessu sorgarferli. Þessi sorg, sem hafði gríðarleg áhrif á fjölskylduna og hafði í för með sér óútskýranlega eftirmála, hefur setið í mér í mörg ár. Það er sársaukafullt að upplifa sig máttvana gegn aðstæðum sínum og lifa í sífelldri óvissu um það hvort hann hafi í raun og veru vitað hversu miklu máli hann skipti mig, hversu mikið ég kunni að meta hann sem föðurbróður minn, sem manneskju, sem listamann, sem þjáningarbróður og vin. Það getur reynst fólki gríðarlega erfitt að sætta sig við það ósagða og þurfa að lifa með því, sem aldrei var sagt upphátt.

Ég trúi því staðfastlega að alheimurinn leggur aldrei meira á okkur en við getum torgað. Þær lífsreynslur sem verða á vegi okkar, slæmar eða góðar, eru aldrei að ástæðulausu og er það okkar að leita inn á við og draga af þeim lærdóm. Þessi þjakandi eftirsjá eftir andlát föðurbróður míns kenndi mér það að fögur orð skulu aldrei geymd fyrir minningargreinar. Ég sór þess því eið að upplifa aldrei framar slíka eftirsjá og hef allar götur síðan verið dugleg við að skrifa og segja þeim sem standa mér næst hvers virði þau eru mér og hversu miklu máli tími okkar saman skiptir mig.

Fyrir fáeinum mánuðum veiktist langamma mín. Raunar hafði hún lengi verið sjúklingur og fyrir lifandi löngu verið tilbúin að kveðja þennan heim, enda að nálgast nírætt og fannst hún hafa upplifað allt sem þetta jarðneska líf hafði upp á að bjóða. Þegar veikindi hennar urðu alvarlegri og leit út fyrir að hún myndi kveðja okkur innan nokkurra mánaða, þyrmdi yfir mig þessi þjakandi eftirsjá og sektarkennd. Hvers vegna hafði ég ekki skrifað henni fyrir löngu hversu mikið ég elskaði hana? Nú gæti það verið um seinan.

Ég settist samstundis niður og ákvað að skrifa einlægt, hreinskilið og skorinort bréf til langömmu, sem var yndisleg og hjartahlý kona en alls ekki mannblendin eða mikið fyrir melódramatík og tilfinningahjal. Ég ákvað hinsvegar að frekar skyldi ég berskjalda mig og segja henni allt, og gott betur en það, sem ég hefði annars látið gulna á síðum minningargreinanna. Ég ákvað að þó það yrði kannski óþægilegt, vandræðalegt og skrítið að lesa upp hinstu kveðju mína til einstaklings sem enn var á lífi og með fullu viti, skyldi ég þó gera það ef ekki aðeins til þess að við gætum kvaðst í sátt við almættið og menn, vitandi það að við höfðum áhrif á hvora aðra.

Langamma mín var mögnuð kona sem bjó yfir stórfenglegri lífsreynslu, eins og margir af hennar kynslóð. Hún var handlagin, búsældarleg og gríðarlega sterk fyrirmynd fyrir mig og fjölskylduna. Ég settist gegnt henni þar sem hún lá í hvítu spítalalíni og þuldi upp æskuminningar, lífslexíur og sagði henni örugglega í fyrsta skiptið upphátt að ég elskaði hana. Hún lagði lófana á bumbuna og heilsaði langalangömmubarninu sínu, sem hún fengi aldrei að hitta, en ég lofaði henni að sonur minn fengi að tengjast henni órjúfanlegum böndum í gegnum minningar, sögur og ljósmyndir.

Þarna náðum við að eiga fullkomlega ómetanlega stund saman. Ekki er það öllum gefið, sem liggja banaleguna, að geta kvatt ástvini sína með fullri meðvitund og reisn. Þegar langamma loksins kvaddi þetta jarðneska líf vissi ég í hjarta mínu að við værum sáttar og glaðar og ég gat verið fullviss um að hún vissi hversu innilega heitt ég elskaði hana og leit upp til hennar.

Sorgin sem ég er að upplifa núna er því önnur en áður og örugglega ekki eins flókin. Þessi góða stund sem við áttum saman hefur veitt mér innblástur í að nýta hvert tækifæri sem gefst, hvort sem um er að ræða þriðjudag eða stórafmæli, að segja fólkinu í kringum mig að ég elski það, kunni að meta það og virði hlutverk þeirra í mínu lífi.

Það er ómögulegt að taka því sem sjálfsögðum hlut að eiga fjölskyldu, vini og ástvini sem skipta mann máli, hlúa að manni og vernda mann. Hverju höfum við að tapa með því að opna okkur aðeins og tjá tilfinningar okkar?

Minningargreinar eru gríðarlega falleg hefð og stór þáttur í sorgarferlin okkar Íslendinga. Þær hjálpa okkur gjarna á að takast á við sorgina, eftirsjánna og það ósagða því þær gera okkur kleift að vinna úr sorginni og halda lífinu áfram. Munum þó að fögru orðin sem við skreytum síður dagblaðanna með eru best geymd í huga og hjörtu þeirra sem þau eru rituð um.