BROTNIR FÆTUR OG BROTNAR SÁLIR

BROTNIR FÆTUR OG BROTNAR SÁLIR

Grein þessi birtist fyrst á vefritinu Freyjur, á alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga, þann 10.september 2013. Ljósmynd, Eggert Jóhannesson, mbl.is.

 

„Að vera inn á geðdeild er eins og að vera fótbrotin á sjúkrahúsi“

Þessi litlu skilaboð voru hripuð niður á þakkarbréf bestu vinkonu minnar til mín eftir að ég hringdi í hana í offorsi og bað hana að keyra mig upp á spítala. Ég hafði innbyrt hálfan lyfjaskápinn og setið yfir dimmustu krikum veraldarvefsins sem áttu að leiðbeina mér áfram í þessari tilraun minni til að taka mitt eigið líf.

Í dag er alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna, dagur sem ætti að hafa mun stærri sess og meira umtal í okkar samfélagi. Það er ömurleg staðreynd, en staðreynd engu að síður, að sjálfsvíg verða æ algengari og algengari í nútímasamfélagi en umtalið breytist því miður hægt og harla lítið.

Ég hef rætt það í fyrri skrifum mínum og predikað það í forvarnarpistlum að sjálfsvíg, eins vofveiglegur atburður og það er, getur ekki talist sjálfselska. Nú gæti þessi skoðun mín reitt einhverja til reiði en ég skal útskýra mál mitt.

Ég þjáist af sjúkdómi. Þessi sjúkdómur sést kannski ekki utan á mér, hann hefur kannski ekki stórtæk áhrif á daglega líkamstarfsemi mína en hann er samt til staðar. Ég tek lyf á morgnanna, ég berst allan daginn við fylgikvilla þessa sjúkdóms og ég hef þurft að takast á við verstu bakslögin sem þessi sjúkdómur bíður upp á  – sjálfsvíshugsanir og tilraunir til þess.

Þessi sjúkdómur er þunglyndi.

Tilfinningar þessar, það að óska eigin dauða, eru tilfinningar sem ég óska ekki upp á mína verstu óvini. Ég óska það engum að liggja í hnipri á gólfinu, öskrandi af tilfinningalegum sársauka og vilja ekkert heitar en að þurfa ekki að vakna næsta dag. Þetta eru hugsanir sem þunglyndissjúklingar og í raun margir aðrir sjúklingar, þurfa að glíma við á hverjum degi kannski. Sem betur fer er erfitt að útskýra þessar hugsanir fyrir þeim sem ekki hafa upplifað þær. Sem betur fer hafa ekki allir kynnst þessu sjálfshatri, þessari sjálfsásökun og þeirri gríðarlega sorglegu rökvillu að finnast maður eiga skilið að deyja.

Ég hugsaði oft með mér að sem þunglyndissjúklingur væri ég byrði. Ég væri ekki einungis mín eigin byrði, ég væri byrði á fjölskyldu minni, vinum og jafnvel samfélaginu í kringum mig. Ég væri einskis virði og allir í kringum mig yrðu örugglega bara fegnir að losna við mig úr þeirra lífi. Ég hugsaði oft að mamma og pabbi þyrftu ekki annað en að borga eina jarðarför,  ég myndi bara skrifa þeim bréf sem útskýrði þetta allt saman og þau myndu með tímanum bara átta sig á því að það væri betra fyrir þau ef barnið þeirra lægi undir grænni torfu.

Með sjálfsvígstilraun minni ætlaði ég þar með ekki einungis að binda enda á mínar eigin þjáningar, stoppa mínar sáru, vondu hugsanir og koma í veg fyrir að ég þyrfti að takast á við erfiðleikana sem stóðu frammi fyrir mér, heldur ætlaði ég líka að frelsa fjölskylduna mína frá þeim hlekkjum sem mér fannst ég vera að binda þau niður með. Ég get ekki með neinu móti reynt að útskýra það betur en svo að sársaukinn var það mikill, angistin, reiðin og vonleysið svo drífandi í mér þá stundina að ég sá enga aðra leið úr þessu ástandi en að gleypa hálfan pilluskápinn, skola honum niður með gúlsopum af líkjör og binda snöru á ljósakrónuna.

Ég vona að fólk sjái að sér og hætti tafarlaust að segja fórnarlömb sjálfsvígs séu bara sjálfselskir aumingjar sem hafi ekkert hugsað út í fjölskyldu sína og aðstandendur. Jú víst var ég að hugsa um mömmu, elsku fallegu mömmu mína sem hefur þurft að vaka yfir mér hágrátandi, sem hefur þurft að leggja út fyrir lyfjum og sálfræðikostnaði, mömmu minni sem hefur haft áhyggjur af mér í næstum því fjögur ár. Mömmu minni sem ég er búin að brjóta niður, mömmu minni sem ég veld vonbrigðum daglega með hegðun minni og framkomu, saklausu mömmu minni sem bað ekki um veikt barn. Ég hugsaði bara víst um hana þegar ég sat með pilluglasið í annarri og áfengið í hinni. Ég hugsaði um það hvað það væri gott fyrir hana að þurfa ekki lengur að hafa áhyggjur af mér, ég hugsaði hvað hún myndi spara mikla peninga á því að þurfa ekki að halda mér uppi og ég hugsaði um hvað hún hlyti að vera fegin því að vita að ég finndi ekki lengur til sársauka.

Þannig virkar þessi sjúkdómur, þannig virka þessar hugsanir. Þær eru villur, rökleysa sem yfirtaka vit okkar og senda alla skynsemi á brott. Þarna er botninum algjörlega náð og leiðin upp á við er stórgrýtt og torfær. En það er til leið og hana má klífa.

Þegar ég vaknaði upp á gjörgæslunni, með súrefni í nefinu og næringu í æð, leið mér ef til vill verr en mér hafði liðið deginum áður. Tilraun mín hafði mistekist og núna kæmu enn verri eftirmálar – að takast á við hlutina, eitthvað sem hefur alltaf reynst mér svo erfitt. Frá og með þeim degi hófst ný barátta fyrir mig, stríð sem ég herja við sjálfa mig á hverjum einasta degi þó ég beri það kannski ekki utan á mér. Það er brynjan okkar og sverð – leyndin og feluleikurinn. Að enginn átti sig á því að við erum veik, að við erum ekki heil og getum ekki rifið okkur upp úr lægðunum sem við lendum í eins og næsti maður virðist eiga auðvelt með.

Mér finnst það miður þegar samfélagið og undirliggjandi fordómar þess grafa undir þeim ömurlega sjúkdómi sem þunglyndi er. Þegar lítið er gert úr okkur (og öðrum sjúklingum sem þjást af geðkvillum) og við bara málaðir upp sem einhverjir aumingjar, letingjar og vælukjóar. „Hvernig getur sjálfsörugg, flott og gáfuð stelpa eins og ég sem ekkert skortir í lífinu, verið svona þunglynd? Hvernig getur svona skynsöm ung kona ekki áttað sig á því að það er ekkert að hjá henni annað en vælið í henni?“

Af því ég er veik. Af því ég er með sjúkdóm sem ég ræð ekkert við. Samfélagið myndi aldrei láta hafa það eftir sér að krabbameinssjúklingurinn, sem eftir áralanga baráttu kvaddi þennan heim af völdum sjúkdómsins væri bara sjálfselskur aumingji. Fólk verður ekki reitt við krabbameinssjúklinginn. Hvernig eru þá fórnarlömb sjálfsvígs einhverju frábrugðin ef þeirra sjúkdómar leiða þau einnig til dauða, burt séð frá því hvernig endalokin bar að?

Sem betur fer sé ég það í dag að þessi tilraun mín var í besta falli misheppnað ákall á hjálp, göng vonleysis sem ég sá ekkert ljós í en á nú von að sjá í bjartari endann. En þó mér líði betur og þó ég geti verið í kringum hnífa, lyfjaskápa og hægt sé að treysta mér fyrir sjálfri mér – læðast þessar hugsanir enn að mér. Þær ná kannski ekki sömu hæðum og þær gerðu þann 18.júní síðastliðinn en þær koma samt.

Vera mín á geðdeild Fjórðungssjúkrahússins var mér erfið en skilaði sér á endanum. Fyrst um sinn skammaðist ég mín fyrir að liggja inni, ég barðist á móti og vildi bara komast heim. Mér fannst algjör fásinna að ég þyrfi að vakna á morgnanna á settum tíma, borða morgunmat og lifa lífinu eftir einhverri ákveðinni dagskrá í kringum mun veikari einstaklinga en mig sjálfa. Þóttist bara vita betur og geta tekið á þessum atburði upp á eigin spýtur. En það var ekkert annað en hroki og hræðsla í mér, holdgervingur minna eigin fordóma. Svo ég vitni nú aftur í góða vinkonu mína: „Ef þú væri fótbrotin myndir þú ekki bara labba hér út. Nú ertu brotin á sálinni, það er alveg eins“.

Af hverju á ég að skammast mín fyrir að hafa legið inni á geðdeild? Af hverju á ég að skammast mín fyrir að hafa rætt við sálfræðinga, geðlækna og hjúkrunarfólk? Af hverju þarf ég að skammast mín fyrir að leita lausna á vandamálum mínum?

Hvernig gerir þessi sjúkdómur mig að sjálfselskum aumingja?

Þess á ekki að þurfa, en við gerum það því miður samt. Við hræðumst umtal og slúður, við hræðumst að vera merkt sem einhverjir „klepparar“ og viljum ekki að skoðanir annarra á okkur breytist vegna sjúkdóms okkar. Það þurfti ég að glíma við, þessa viku sem ég lá inni; að takast á við eigin fordóma og taka utan um þá staðreynd að ég væri veik og ég þyrfti faghjálp. Rétt eins og krabbameinssjúklingur sækir efnameðferð, rétt eins og manneskja með tannpínu leitar til tannlæknis – leitaði ég, manneskja með geðsjúkdóm, til geðlæknis.

Verum meðvituð um okkar eigin geðheilsu og geðheilsu annarra. Dæmum fólk ekki útfrá þeim kvillum sem kann að hrjá það – því enginn kýs það að verða veikur. Föðmum hvort annað, verum umburðarlynd og reynum að skilja að ekki eru allir sjúkdómar sjáanlegir utan frá. Verstu barátturnar heyjum við, við okkur sjálf innra með okkur.

Munum, sama hversu óheyrilega erfitt það kann að vera, að það er alltaf ljós í enda ganganna. Það kemur alltaf jafnslétta á eftir brekku, það kemur dagur eftir þennan dag. Höldum í þetta eina stutta líf sem við fengum og reynum að gera það besta úr því.

Dæmum ekki brotna fætur og dæmum ekki brotnar sálir.