MEÐGANGAN MÍN

MEÐGANGAN MÍN

Ljósmynd: Krista Björk Kristjánsdóttir/@kristabjorkk

Það er ekki öllum sjálfgefið að eignast eða ganga með börn. Það að verða ólétt og að upplifa meðgöngu hefur kennt mér svo ótal margt, um sjálfa mig og lífið, sem mig langar að deila með ykkur.

Frá því að ég man eftir mér hef ég verið barnasjúk. Ég hef alltaf vitað það, löngu áður en ég varð sjálf kynþroska, að ég vildi og ætlaði að verða mamma. Ég hef alltaf hugsað til þessa tíma með tilhlökkun og eftirvæntingu og miðað við hversu barngóð ég er, er í rauninni kraftaverk að ég eigi ekki sjö börn nú þegar. Ætli það sé ekki einhverri skynsemi að þakka…

Það fyrsta sem ég lærði á þessu langa ferli var að þú þarft að vera tilbúin. Þú þarft að vera tilbúin í þessa stórfenglegu skuldbindingu og öllum fórnunum sem henni fylgja. Þá er ég ekki aðeins að tala um að sleppa áfengi og sushi í níu mánuði, heldur þarftu að vera undirbúin undir það að gefa líkamann þinn á vald náttúrunni og umturna lífi þínu, rútínu, fjárhag og sambandi til frambúðar. Það er ótrúlega ógnvekjandi en þegar þessi tilfinning læðist að manni, að maður sé í raun og veru tilbúin að takast á við þessa áskorun, er eins og lífið snúist í höndunum á manni.

Auðvitað upplifa ekki allir eitthvað “eureka!”-augnablik, þar sem allar plánetur raðast í rétta röð og lífið bara smellur saman eins og púsluspil. Auðvitað eru getnaðir, meðgöngur og fæðingar eins ólíkar og þær eru margar. Þetta var einfaldlega mín persónulega upplifun, að fara frá því að elska, dýrka og dá öll börn sem ég kom nálægt yfir í það að finna það djúpt í hjartarrótum að ég var sjálf tilbúin að verða mamma.

Við Ísak erum búin að vera saman síðan sumarið 2014. Við ræddum að sjálfsögðu barneignir, framtíðina, langanir okkar og þrár snemma í sambandinu eins og eðlilegt er og komumst að því að við vorum nokkurnveginn á sömu bylgjulengd. Okkur langaði bæði að eignast börn og verða foreldrar en við vissum að við þyrftum fyrst að kynnast hvoru öðru betur, að sjálfsögðu, og öðlast ákveðinn skilning og upplifanir áður en við gætum tekist á við þetta saman.

Þegar ég missti vinnuna haustið 2015 ákváðum við að taka nýja stefnu í lífinu og skipuleggja ferðalag. Ég hafði sjálf verið “á leiðinni” í reisu síðan ég útskrifaðist úr menntaskóla og vissi að ég þyrfti að upplifa ferðalög um heiminn, frjáls eins og fuglinn, áður en ég gæti orðið foreldri. Það er ekki svo að ég sé á þeirri skoðun að ferðalög séu ómöguleg með börn, en þesskonar ferðalag eins og við leituðumst eftir krafðist þess að við værum bara tvö á flakki, að kynnast heiminum og hvoru öðru. Það læddist þó alltaf að mér sá grunur að um leið og við kæmum heim tækju við barneignir og íbúðarkaup. Það var eins og þessi reisa væri síðasti múrsteinninn í vegg unglingsáranna og síðar tæki alvaran við. Það var þó ekki alveg svo dramatískt.

Þegar heim var komið í ársbyrjun 2017 ákvað ég að hætta á getnaðarvörnum. Það var aðallega vegna þess að ég hafði verið á hormónagetnaðarvörnum meira og minna síðasta áratuginn og þær heftu verulega kynhvöt mína, orku og lífsgleði. Ég vildi líka hætta á hormónagetnaðarvörnum með góðum fyrirvara áður en við færum að reyna að verða ólétt, því ég vildi skapa sem minnst vandræði við getnaðinn.

Þrátt fyrir að hafa hætt á hormónagetnaðarvörnum svona snemma þá vorum við ekki tilbúin að verða foreldrar strax. Við vorum nýkomin heim, enn að fóta okkur á leigumarkaði og greiða úr skuldum. Fyrst um sinn vorum við því mjög varkár og notuðum smokka, en vorum þó meðvituð um að ef “slys” ætti sér stað, þá væri það sú vegferð sem lífið leiddi okkur að. Ég fann það samt innra með mér að ég var ekki alveg tilbúin, ég átti ennþá eftir að djamma, vera kærulaus og fá útrás.

Það var ekki fyrr en eitt síðsumarkvöldið, þar sem ég skakklappaðist heim af næturlífinu að draugfullur hugurinn fór að reika og ég áttaði mig á því að mig langaði ekki að lifa svona lífstíl lengur. Miðnætursólin sleikti vanga mína og hjartað fylltist af tilfinningu sem ég get ekki útskýrt betur en svo að ég vissi að nú væri ég tilbúin. Ég væri tilbúin að verða mamma.

Mér fannst mjög erfitt og satt besta að segja pínu “asnalegt”, að segja það upphátt. Ég hugsaði með mér að nú færu allir að uppnefna mig dramatíska og fanatíska, fyrir að hafa fengið einhverja svakalega uppljómun um foreldrahlutverkið eldsnemma morguns, sauðadrukkin á göngunni heim. Upplifunin var þó til staðar, ég get sagt ykkur nákvæmlega hvar ég stóð þegar þessari hugsun laust niður í kollinn. Ég leyfði hinsvegar tilfinningunni að malla í nokkra daga og hugsaði stíft um þetta vikurnar á eftir. Tilfinningin fór aldrei og innsæið staðfesti það fyrir mér að nú væri tími kominn.

Þá fyrst fórum við Ísak að ræða það að af alvöru að reyna að verða ólétt. Smokkarnir urðu æ sjaldgæfari gestir í kynlíf okkar en lengi vel vorum við ekkert að fylgjast með egglosi, tíðahring eða hitastigi legsins. Við leyfðum okkur bara að njóta hvors annars og hugsuðum, það fer sem fer. Í desember síðastliðnum fékk ég meldingu í smáforritið sem ég nota til að fylgjast með tíðarhringnum. “Þú ert með egglos! Til hamingju!” Ég las meldinguna og hugsaði að það sakaði nú ekki að láta á þetta reyna fyrir alvöru það kvöldið. Við létum á það reyna og að sjálfsögðu skellti ég löppunum beinustu leið upp í loftið við vegginn svona til að auðvelda sundköppunum langferðina!

Ég er mikill kvíðasjúklingur og hef lengi verið sannfærð um það að af einhverjum óútskýrðum ástæðum sé ég ófær um að eiga börn. Kvíðinn hafði sannfært mig að vegna þess hversu heitt og innilega ég þráði að verða ólétt, ganga með barn og verða mamma að upp kæmist að ég væri hreinlega ekki með leg eða að sæðisfrumurnar hans Ísaks væru svo lélegar að það væri ekki séns fyrir okkur að eignast börn saman. Ef kvíðinn hamraði ekki á þessum hugsunum þá voru það aðrar hugsanir um hversu erfiðlega þetta myndi ganga og ef okkur tækist að verða ólétt yrði ég svo fárveik að ég myndi ekki geta notið þess. Kvíðinn var því líka stór ástæða þess að við frestuðum því svo lengi að virkilega láta á þetta reyna.

Það var fallegt desemberkvöld og ég lá með lappirnar upp í loftið og skrollaði í gegnum símann. Ísak lá við hliðina á mér, sáttur eftir sitt, og hló að þessum aðförum kvíðasjúku konunnar hans. Þegar mér þótti ég hafa haft lappirnar nægilega lengi í loftinu til að gefa sundköppum hans forskot á eggjasæluna, lagðist ég niður og fór að sofa. Nú væri bara að bíða og sjá, hvort okkur hefði tekist ætlunarverk okkar.

Á Þorláksmessu keyrðum við Ísak norður og eyddum jólunum með fjölskyldunni minni. Ég man þegar ég kom inn heima hjá foreldrum mínum og faðmaði mömmu heitt og innilega að hún spurði hvað væri að frétta og það fyrsta sem mig langaði að segja var “Ég gæti verið ólétt!”. Sem betur fer stoppaði ég sjálfa mig áður en ég espti móður mína upp í ömmuleik, en þetta var mjög sérstakt augnablik. Hvers vegna langaði mig að segja þetta upphátt? Það var ekki séns að okkur hefði tekist þetta í fyrstu tilraun og það var heimskulegt að pæla í því einu sinni. Þetta myndi taka fleiri tilraunir en eina. Ég reyndi mitt besta til að bægja þessum hugsunum frá, en allt kom fyrir ekki, alla jólahátíðina hvíslaði að mér lítil rödd “Þetta tókst, þetta tókst, þú ert ólétt, þú ert ólétt…”

Ég reyndi að stilla væntingunum í hóf og bældi niður innsæið mitt. Blæðingar áttu að hefjast á nýársdag og ég sór að ég myndi ekki hugsa um þetta fyrr en ég væri orðin sein og farin að æla lífi og lungum. Nýársdagur kom og fór. Ekkert blóð. Næstu dagar komu og fóru og þrátt fyrir smá seiðing í leginu og mjóbakinu, bólaði ekkert á blessuðu blóðflóðinu.

“Andskotinn hafi það Silja, þetta tókst í fyrstu tilraun…”

Ísak fór heim til Reykjavíkur nokkrum dögum á undan mér og það er mér lífsins ómögulegt að skilja hvernig ég gat haldið kjafti í þessa nokkra daga. Þegar heim var komið reyndi ég svo að plata hann með mér útí sjoppu seint um kvöldið. Ég sagðist vilja nammi en planið var að lauma einu óléttuprófi með á kassanum og sjá viðbrögðin hans. Allt kom fyrir ekki, drengstaulinn þráaðist við og nennti ekki út í sjoppu svona seint. Þá gargaði ég á hann “Ísak, ég ÞARF AÐ FARA ÚT Í SJOPPU OG KAUPA ÓLÉTTUPRÓF!” svarið hans var einfaldlega “Óléttupróf? Til hvers?”

Ég sagði honum að ég væri sein. Þá svaraði hann því, sérfræðingurinn sem hann er í mínum tíðahring, að ég væri nú oft sein. Jújú, ég jánkaði því svosem að tíðarhringurinn minn væri ekki sá stabílasti en þetta væri öðruvísi. Í þetta skiptið væri ég handviss. Við gerðum þá þá málamiðlun að ég skyldi kaupa óléttupróf daginn eftir og við myndum taka það saman eftir vakt hjá honum næsta kvöld. Ísak, svo ósannfærður um það að okkur hefði í raun tekist þetta í fyrstu tilraun, maldaði þó í móinn því hann hafði ætlað sér í bjór með strákunum eftir vaktina. Ég hinsvegar handviss um okkar eigið ágæti í svefnherberginu, tók það ekki í mál að ég myndi bara tilkynna honum um tilvist frumburðar síns í sms-i og skipaði honum að koma heim rakleiðis eftir vakt.

Ég beið í ofvæni með blöðruna fulla af þvagi eftir því að Ísak kæmi heim. Ég pissaði á prikið, beið í þrjár mínútur og sá svo tvær daufar línur myndast á prikinu. Það kitlaði innsæið að vita að ég hafði haft rétt fyrir mér allan tímann. Ísak vildi hinsvegar ekki enn láta sannfærast enda voru línurnar alltof daufar að hans mati, þrátt fyrir að bæklingurinn tæki það skýrt fram að línur sama hversu daufar þær væru, væru staðfesting á þungun. Ég hoppaði um af kátínu og öskraði í sífellu “Við erum að verða foreldrar, þú ert að verða pabbi, ég er að verða mamma – VIÐ ERUM AÐ VERÐA FORELDRAR!”.

Ég held að Ísak hafi ekki áttað sig almennilega á stöðu mála fyrr en nokkrum vikum seinna þegar við mættum í fyrsta tímann í mæðraskoðun og fengum að heyra dúndrandi hjartsláttinn í litla kraftaverkinu okkar. Ég lá á bekknum með hjartað í buxunum og táraflóðið streymdi niður kinnarnar þegar ég hugsaði til þess að loksins væri komið að þessu. Ísak sat steiniruninni og horfði í gegnum mig eins og draug, þangað til augu okkar mættust og við brostum bæði út að eyrum. Við erum að verða foreldrar.

Meðgöngulengdinni, sem er vanalega 38-42 vikur, er skipt niður í þrjú þriggja mánaða tímabil.

Fyrsta tímabilið var án efa erfiðast fyrir mig. Ekki nóg með það að líkaminn tekur breytingum og þú þarft að venjast þeirri tilhugsun að nú sértu að rækta líf, þá fylgir því kvíði að fela leyndarmálið fyrir fólki og sérstaklega ef maður upplifir mikil veikindi á fyrsta tímabilinu eins og algegnast er. Ég hafði t.d. verið með stórtækar yfirlýsingar um veganúar og heilsueflandi nýtt ár en lítið varð úr því þar sem ég varð svo fárveik fyrstu 16 vikurnar og hélt engu niðri nema pizzu, Cheeriosi og Coke. Það var lán í óláni að mikil magakveisa gekk manna á milli í janúar og einhverjir skringilegir gerlar fundust í vatninu í Reykjavík og hylmdi ég þannig yfir leyndarmálinu lengi. Ég laug því líka að fólki að samhliða þessu stórfína veganúar-átaki mínu hefði ég ákveðið að vera edrú í janúar líka og langflestir trúðu því, þó bestu vinkonur mínar grunaði mig um græsku um leið og ég sagði þeim að ég hefði skilað gómsætri máltíð aftur í klósettið. Það reyndist mér því ákaflega kvíðvænlegt að leyna meðgöngunni eins “lengi” og við gerðum, því við vildum segja foreldrum okkar fréttirnar fyrst og það helst eftir 12.vikuna, en foreldrar mínir búa náttúrulega á Akureyri og ekki var von á þeim í borgina á næstunni. Allar tilraunir okkar til að lokka þau suður misfórust og þegar staðan var sem verst leit út fyrir að við gætum ekki sagt þeim frá fyrsta barnabarninu fyrr en um páskana sem voru í mars. Við vissum strax að það myndi reynast okkur ómögulegt, fólk væri nú þegar farið að gruna eitthvað og ég gæti ekki haldið því til streitu í marga mánuði að vera með magapesti. Í millitíðinni voru afmæli, árshátíðir, utanlandsferð og allskonar viðburðir þar sem ég þurfti að halda uppi stuðinu og ég var nú þegar að missa mikið úr vinnu og skóla.

Fjölskyldan mín kom svo suður í febrúar til að sækja jarðarför háaldraðrar afasystur minnar. Þá var kjörið tækifæri að segja ömmu, afa, langömmu og langafa, frænkum og frændum litla kraftaverksins að von væri á nýjum meðlimi í fjölskylduna. Kvöldið áður höfðum við sagt foreldrum Ísak gleðifréttirnar og næstu daga spurðust fréttirnar hægt og rólega út, sérstaklega þegar komið var framyfir tólftu vikuna, við höfðum farið í fyrsta sónarinn og höfðum nú haldbærar sannanir þess efnis að erfingi væri á leiðinni.

Því næst kom tilkynningin á Facebook.

 

Þess má til gamans geta að ég var búin að sviðsetja þessa tilkynningu í huganum á mér fyrir svona ári síðan, hamborgarinn og allt. Þegar myndin hafði verið tekin og henni komið á samfélagsmiðla ákvað sonur minn hinsvegar að hafna þessum glæsilega beikoncheddar borgara og ég ældi honum öllum í klósettið. Ó, jæja…myndin er að minnsta kosti fyndin!

Fyrsta tímabilið var, eins og ég segi erfiðast. Mikil ógleði allan sólarhringinn, nokkrar ferðir á salernið til að skila máltíðum dagsins og erfitt var að þóknast mér í matarvali. Mig langaði helst að borða eins og smákrakki, bara drekka stafasúpu og háma í mig sykurpúða en Ísak sá til þess að ég væri að borða nóg og næringarríkt.

Á seinna tímabilinu fór allt að róast, maginn og hugurinn. Ég gat farið að borða aftur eðlilega og orkan tók við sér. Móður og barni heilsaðist vel, allar mælingar eðlilegar og við fengum að vita að við ættum von á strák. Það var ákveðið sjokk fyrir mig því ég var svo fullkomlega sannfærð um það að ég gengi með stelpu, en eftir mikla naflaskoðun og vangaveltur um kyn, kyngervi og vitund komst ég að þeirri niðurstöðu að að sjálfsögðu skipti kynið engu máli svo framarlega sem barnið væri heilbrigt. Nýjar og spennandni langanir í mataræði og kynlífi fór að láta á sér kræla, skyndilanganir í 7-Up og Kornflex í samblandi við blússandi greddu er gríðarlega fyndin blanda þegar maður er annarsvegar að rækta nýja manneskju. Ég ákvað strax að ég ætlaði ekki að standa í kaloríutalningum eða hafa áhyggjur af kílóatölu, heldur ætti þetta að vera tímabil þar sem ég leyfði mér að lifa og njóta, svona fyrst sushið var lagt á hilluna. Ég notaði þessa nýfundnu orku í ferðalög og hefur sonur okkar heimsótt Stokkhólm, Lund og strendur Almeria á meðan hann svamlar og damlar í bumbunni. Ég byrjaði í meðgöngujóga og hefur sú lífsreynsla gjörsamlega umbylt lífi mínu, eins og ég mun segja frá í annarri færslu. Líkaminn studdi okkur mægðinin í gegnum þetta og þrátt fyrir stöku bakflæði og þreytu, hélt ég áfram að vinna alveg fram á áttunda mánuð og hefur sjaldan, ef aldrei liðið betur á líkama og sál.

Þriðja tímabilið, sem senn líður undir lok, hefur liðið eins og draumur. Á þessum síðustu þremur mánuðum hef ég leitað meira inn á við og komist í betri tengsl við manneskjuna sem ég er í hjartanu. Ég hef tekist á við allskonar áskoranir í hugsunarhætti, samskiptum og fundið breytingar innra með sjálfri mér sem ég hef lengi leitað að. Ég hef upplifað mig sem feitan hval og þokkafulla gyðju, ég hef grátið í meðgöngujóga, ég hef fundið orku í náttúrunni og kristöllum, bætt samskipti við fjölskyldu og vini og fullkomlega leyft sjálfri mér að upplifa, lifa og njóta. Ég hef sleppt allskonar kvíða, áhyggjum og þunglyndi því ég finn það innra með mér að slíkar hugsarnir eru ekki þess virði lengur og ég vil skapa jákvætt, uppbyggilegt umhverfi fyrir son minn. Við litla fjölskyldan höfum verið ötul í hreiðurgerðinni og komið okkur upp öllum þeim nauðsynjum sem ungabarn og nýir foreldrar þurfa. Við erum tilbúin.

Það eru nokkur augnablik á þessari meðgöngu sem eru okkur minnistæðari en önnur. Að heyra hjartslátt barnsins í fyrsta skipti. Að sjá litla krílið með berum augum í fyrsta sónarnum. Að fá að vita kynið og sjá hann sprikla, vaxa og dafna. Að finna fyrstu, furðulegu hreyfingarnar sem aðeins mamman getur áttað sig á. Að leyfa Ísak að finna fyrstu hreyfingarnar sem finnast út fyrir legið. Að finna barnið okkar stækka, vaxa, dafna með degi hverjum. Að heyra litla hjartsláttinn aftur og aftur og fá að vita að allt væri í himnalagi, að allt gengi vel. Að leyfa mér að vera dramatísk, fara í meðgöngumyndatöku og leita inn á við í meðgöngujóga. Að upplifa eitthvað alveg glænýtt á hverjum degi. Að fylgjast með þroskaferlinu í smáforriti og finna hvernig barnið stækkar og hreyfingarnar stækka og allir geta fundið spörkin og lætin. Að tengjast nýrri mannveru og bíða með eftirvæntingu að fá lítið kraftaverk í hendurnar.

Meðgöngur eru eins misjafnar og þær eru margar. Fæðingar, upplifanir, uppeldi, börn og bura – allt er þetta frábrugðið þeim næsta. Það er mikilvægt að geta deilt reynslu sinni og upplifun með öðrum og að geta tekið þátt í gleðinni sem fylgir því að koma nýju lífi í heiminn. Við Ísak bíðum í offvæni eftir litla kraftaverkinu okkar sem kom undir í fyrstu tilaun, og eins hamingjusöm og þakklát ég er fyrir þessa meðgöngu get ég ekki beðið eftir næsta kafla – að verða loksins mamma!