10.

10.

AMSTERDAM

Ég man hvernig við þræddum þröngar götur Amsterdam, sólin skein og hjörtu okkar full af ást. Ég man þegar við gáfum dúfunum á torginu að borða og þú gaptir í undrun yfir þessu forljóta minnismerki með ljónunum fjórum. Ég man að þú hneykslaðist á þessu endalaust, “Ég meina, hafði þessi myndhöggvari ALDREI SÉÐ alvöru ljón eða?!” og ég frussaði út úr mér ávaxtasafanum sem bragðaðist eins og tómatsósa. Ég man hvert einasta kvöld á tötraralegu hostelinu okkar, þegar þú lást í rúminu með dagbókina þína og skáldsögurnar. Ég man að við fórum á hvert einasta listasafn sem við fundum í borginni aðeins til þess að gera grín að listaverkum miðaldanna, hverni börnin voru svo feit og pattaraleg á málverkunum og ljónin voru alveg jafn ljót þar og á minnismerkinu á torginu. Við þræddum salina og völdum fínustu vasana og málverkin fyrir herrasetrið okkar, óðalið sem við eigum í skýjunum. Ég man hvernig við stóðum gagnteknar af listaverkum Van Gogh en sama hvað við reyndum að eiga hugleiðandi stund í sal fullum af merkilegustu málverkum listasögunnar, hlössuðust sífellt inn rútufarmar af amerískum túristum í litríkum skyrtum og sandölum og eru nú Ameríkanar ekki þekktir fyrir það að láta lítið fara fyrir sér. Ég man sérstaklega eftir þessu eldra pari sem var einhvernveginn alltaf á hælunum á okkur og konan stundi og þuldi upp sömu ræðuna um Van Gogh og vinstra eyrað í hvert skipti sem hún kom að nýju málverki. Ég gæti ekki gleymt því þó ég reyndi, hvað við ragnhvolfdum augunum af áfergju í hvert skipti sem hún opnaði á sér munninn.
Ég man svo vel eftir skrykkjóttum, hellilögðim götunum við síkin og hvernig við gátum gengið í endalausa hringi að dást að byggingarlistinni og reyndum að gægjast inn um gluggana. Ég man eftir því hvernig við þræddum hverja einustu bóka og myndasagnabúð sem við komum auga á, ég man alla kaffibollana (misgóða) og þegar þú, glænýji kaffibarþjónninn hlóst upphátt að illa freyddum cappuccino. Ég man að ég gerði stólpagrín að þér og kallaði þig snobbara, en ég myndi líklegast gera slíkt hið sama í dag. Hversu marga mismunandi hamborgara borðuðum við í þessari ferð? Hvað þá þegar við púffuðum þessa einu aumu jónu á einhverju bakstrætiskaffíhúsi og hlógum eins og fífl að pakistönsku vinum okkar í sjoppunni sem seldu okkur M&M. Í vímunni, hvort sem hún var sönn eiður ei, skakklöppuðumst við með sitthvoran pokann af M&M niður torgið og áfram eftir síkjunum því við höfðum einhverntímann í ferðinni, einhversstaðar séð pizzavag sem okkur langaði að heimsækja. Ég man hvernig rigningin dundi á markísunni á meðan við gúffuðum í okkur pizzu, í gargandi hláturskasti, skakkar og týndar í Amsterdam. Ég gæti heldur ekki gleymt hverfinu sem við gistum í, sem var steinsnar frá illræmdu Rauða hverfinu sjálfu. Ég man eftir stelpunum, og tjah strákunum, sem veifuðu okkur svo glaðlega úr upplýstum glugguum eins og kjötstykki í verslun slátrarans. Ég man að fyrst um sinn hlógum við að því en svo runnu á okkur tvær grímur þegar við mættum manni sem kom upp úr einum kjallaranum, og hneppti að sér buxunum.
Ég elska að ferðast með þér, því þú hefur svo gaman af kirkjum eins og ég, þrátt fyrir að vera löngu búnar að segja skilið við Jesú nokkurn Krist. Ég man hvað mér fannst ótrúlega gaman að týnast með þér, hlæja að heimskulegum bröndurum og gera grín að fyndnum götuskiltum og ég man hvernig himinbláa hárið þitt bægðist rólega í síðsumargolunni þegar við gegnum í gegnum dýragarðinn og hvernig hjarta mitt fylltist af ást og hamingju og stærðarinnar bros tók sér bólfestu á andliti mínu. Ég man þig og ég man Amsterdam. Lengi lifi V.O.C.