UPPÁHALDS BÍÓ: THE NIGHTMARE BEFORE CHRISTMAS

UPPÁHALDS BÍÓ: THE NIGHTMARE BEFORE CHRISTMAS

Í þessari pistlaröð ætla ég að skrifa um uppáhaldskvikmyndirnar mínar. Það þýðir ekki endilega að þetta séu að mínu eða annarri mati “bestu” kvikmyndir sögunnar, enda er það aldrei hlutlaust mat, heldur eru þetta kvikmyndir sem ég hef persónulegt dálæti af, af ástæðum sem koma fram í hverri grein fyrir sig. Þess ber að geta að í greininni koma fram fléttur og fleira um framvindu kvikmyndarinnar sem um ræðir, svo þið hafið hér með verið formlega vöruð við að hætti Höskuldar.

“You know, I think this Christmas thing is not as tricky as it seems! But why should they have all the fun? It should belong to anyone!”

-Jack Skellington

Það varð að sjálfsögðu að vera ein jólamynd í þessum greinabálki og hjá mér kom engin önnur til greina en The Nightmare Before Christmas. Ég kann þessa mynd nánast utan að, staf fyrir staf enda hef ég séð hana hátt í tuttugu sinnum. Ég held að ég geti hér með fullyrt það að ég hef ekki séð neina aðra kvikmynd eins oft og ég hef séð þessa.

Kvikmyndin er unnin upp úr ljóði eftir furðufuglinn Tim Burton og er gjarnan kennd við hann og hans höfundarverk, þó myndinni sé leikstýrt af Henry Selick (James and the Giant Peach (1996), Coraline (2009)) og hefur hún skapað sér óumdeilanlegan sess í kvikmyndasögunni, sögu “stop-motion” eða brúðumynda og er löngu orðin að sígildri jólamynd á mörgum heimilum.

The Nightmare Before Christmas kom út árið 1993, ári eftir að ég fæðist og ég hef verið litlu eldri en fjögurra, fimm ára þegar ég sá hana fyrst. Ég man svosem lítið eftir því nema lengi vel átti ég einhverja óskýra minningu af Jack Skellington og félögum sem dúkkaði upp í heilabúinu í kringum aldamótin og stigmagnaðist aðeins með ári hverju þegar “emo”-tískan stóð sem hæst. Ég sá plaggat úr myndinni í bókabúð örugglega einum tíu árum eftir ég sá myndina fyrst og minningin um brúðurnar og hjartnæma sögu kvikmyndarinnar endurvakti áhuga minn. Á þessum tíma voru mynddiskar enn framandi og niðurhal einhverskonar framtíðarsýn, þannig það var ekkert annað í sögunni en að spyrjast fyrir um kvikmyndina á bókasafninu heima. Þar gat ég fengið myndina leigða á litlar 200kr á VHS-myndbandsspólu og þegar ég setti hana í tækið rifjuðust upp fyrir mér ljúfar tilfinningar og hlý gleði. Síðan þá, nú fimmtán árum síðar hef ég horft á The Nightmare Before Christmas hver jól og sungið með!

Kvikmyndin heillaði mig alveg upp úr skónum sem barn með brúðunum, því frá því að ég man eftir mér hef ég verið með smáhluti á heilanum. Ég lék mér mikið með brúður og smádót sem barn og það var hreinlega eitthvað svo ánægjulegt að sjá húsgögn, matvæli, fatnað og fleiri hversdagslega hluti í smækkaðri mynd. Það er svo sefjandi að virða fyrir sér hvert einasta smáatriði, raða pínulitlum bókum í hillur, leggja pínulitla hnífa og gaffla á lítið eldhúsborð. Ég heillaðist af því hvernig hlutirnir hreyfðust og hversu mikið þrekvirki það hlaut að vera að fá dauða hluti til að haga sér svona og festa það á filmu. Boðskapur myndarinnar talaði kannski minna til mín þegar ég var barn, en sem unglingur á erfiðu tímabili milli þess að glata barnslegu jólanna og fóta sig í sinni eigin sannfæringu, gat ég samsvarað mig með vini mínum honum Jack Skellington. Á mínu heimili hefur það alltaf verið þannig að sama hvaða “shit, fokk og helvede” (eins og mamma orðar það pent) var í gangi yfir árið, þá koma alltaf jól og þau eru alltaf yndisleg, ástrík og nærandi fyrir líkama og sál.

Sagan er ofureinföld og krúttleg um það hvernig jólaandinn tekur yfir hinar ólíklegustu persónur og það eina sem maður þarf til að halda jólin hátíðleg er hlýtt, stórt hjarta og umkringja sig vinum og vandamönnum. Burton sótti innblástur í sígildar, amerískar brúðumyndir sem fyrir mörgum Bandaríkjamönnum einkenndu jólahátíðina. Það eru ef til vill kvikmyndir sem hafa lítið verið spilaðar hér heima en flestir ættu að þekkja, t.a.m. Rudolph The Red Nose Reindeer (1964) og The Year Without Santa Clause (1974). Söguþráðurinn er innblásin af ljóði sem Burton skrifaði eftir að hafa séð Hrekkjavökuskreytingum skipt út fyrir jólaskreytingar í búðargluggum en myndin fjallar einmitt um íbúa Hrekkjavökubæjar (e. Halloweentown) og tilraun þeirra til að halda jólin hátíðleg.

Jack Skellington er margkrýndur skelfir og Graskerskóngur Hrekkjavökubæjar. Hann er slánaleg en ákaflega vel klædd beinagrind sem skortir lífsfyllingu og ánægju. Eins og flestir lenda í einhverntímann á lífsleiðinni hefur Jack fengið leið á því sem hann er að gera og finnst hann endlaust hjakka í sama farinu. Eina nóttina álpast hann inn í dularfullan skóg við jaðar Hrekkjavökubæjar og sér þar bregða fyrir stórum trábolum sem allir hafa sérstakar dyr, hver og ein kennd ákveðinni hátíð. Jack laðast strax að dyrunum sem eru í laginu eins og jólatré, hvernig er annað hægt? Þaðan kemst hann á mitt torgið á hinum ljómandi, litríka Jólabæ og finnur þar fyrir þeirri gleði, hamingju og hlýju sem honum þótti áður skorta í sitt líf. Þar ákveður Jack að nú sé ekkert annað í stöðunni en að ræna jólasveininum og koma jólunum fyrir í Hrekkjavökubæ. Með herkjum tekst honum að sannfæra bæjarbúa um ágæti jólanna, þó ásetningur þeirra sé sumpart afvegaleiddur en þau þekkja ekki þessa sérstöku tilfinningu sem fylgir jólunum. Skuggalegar vampírur og uppvakningar hoða saman í álkulegar jólagjafir og skreytingar á meðan Jack smeygir sér í hátíðarrauðan búning sveinka og þeytist af stað í sleða gerðum úr líkkistu. Það fer sem fer og Jack snýr aftur heim eftir misheppnaða tilraun til jólanna en stundum veit enginn hvað átt hefur fyrr en misst hefur og snýr Jack til baka í Hrekkjavökubæ fílelfdur og skelfilegri nú en áður fyrr.


The Nightmare Before Christmas er án efa þekktust fyrir saumlausar hreyfimyndir, glaðhlakkalega tónlistina og þau einföldu en einlægu skilaboð að hátíð jólanna er fyrir alla – unga sem aldna, óháð trú eða kyni, atvinnu eða búsetu. Jólin eru tími gleði, gjafmildi og fyrst ófrýnilegir íbúar Hrekkjavökubæjar sem ekkert kunna nema að hræða börn, geta fundið í rotnum hjörtum sínum frið og jólagleði þá geta það allir. Tónn kvikmyndarinnar er angurvær á köflum en troðinn af kímnigáfu, skírskotunum í sígildar hrekkjavöku- og jólasögur og tekst að fanga áhorfandann með hrífandi hreyfimyndum, grípandi tónlist og boðskap sínum.


The Nightmare Before Christmas var kannski ekki byltinarkennd þegar hún kom út á sínum tíma en hún átti þó stóran þátt í því að endurvekja áhuga kvikmyndageirans og hins almenna áhorfanda á þá vanmetnu listformi brúðumyndanna. Þessi kvikmyndagrein hafði verið vinsæl á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, og eins og áður segir, þótt stoð og stytta í jólahefðum margra Bandaríkjamanna að horfa á brúðumyndir um jólasveina og hreindýr með rauð nef. Eftir á að hyggja eru þær myndir, þó uppfullar af nostalgíu og ákveðnum “krúttfídus” eru þær hálf klunnalegar og eldast hreyfimyndirnar misvel. Því var lögð mikil vinna í þessa sýn Burton að blása lífi í greinina aftur og aragrúi af nýstárlegri tækni var dælt í framleiðslu myndarinnar. Þrátt fyrir hátæknibúnað tíunda áratugarins tók myndin þrjú ár í gerð og gjarnan er talað um að fyrir hverja tíu sekúndur af myndefni hafi legið tveggja ára vinna að baki. Það er því ekki annað hægt en að bera ómælda virðingu fyrir sýn Burton á kvikmyndina, seiglu leikstjórans Selick og þeirra sem komu að gerð myndarinnar. Hún hefur skapað sér fastan sess í stórbrotnu kvikmyndasafni Disney, en það var teiknimyndarisinn sem gaf út kvikmyndina þó hún hafi verið seld á vegum Touchstone, þar sem hún þótti hels til of skelfileg fyrir ung börn. Síðan þá hafa ritskoðendur róast aðeins og nú er Draugahúsi Disneylands umbreytt í Matrtöð á jólanótt í desember ár hvert. Um miðjan síðasta áratug var ekki þverfótað í verslunum fyrir varningi tengdum myndinni, og held ég að ég hafi sjálf persónulega átt helminginn af því sem til var í sölu. Enn þann dag í dag prýðir stærðarinnar Jack Skellington bangsi sig sælan í stofunni hjá mér hver jól! Það má því með sanni segja að kvikmyndin hafi komið sér kyrfilega vel fyrir í jólatíðaranda vestræna heimsins sem og hug og hjarta þeirra sem nokkurntímann sjá Martröð á jólanótt.

Tónlistin er eftir helsta landráðamann Burton, Danny nokkurn Elfman en hann samdi einnig tónlistina fyrir Beetlejuice (1989), Edward Scissorhands (1990) og The Corpse Bride (2005). Tónlist Elfman hefur ákveðin stíl og brag sem er erfitt að koma í orð en þegar honum er falið að semja söngleikjatónlist, frábrugðna hefðbundinni kvikmyndatónlist, semur hann frábæra, frumlega og ákaflega glettna texta sem eru í senn áhrifamiklir en auðveldir að muna. Í The Nightmare Before Christmas ljáir Elfman svo söguhetjunni Jack Skellington söngrödd sína og það er alveg með ólíkindum hvað honum tekst að ná fram miklum leikþrifum með söngnum einum. Hann skiptir saumlaust frá skapstyggð yfir í hryggð, úr spennu yfir í melódramatík og gerir lögin þannig ekki aðeins ógleymanleg heldur áleitin á tilfinningar áhorfandans. Það er hreinlega ekkert betra en skær, barnsleg undrun beinagrindarinnar í laginu What’s This? en sú atburðarrás er án efa hápunktur kvikmyndarinnar.

The Nightmare Before Christmas er ákaflega gleðjandi fyrir augað, sérstaklega fyrir svona litla nörda eins og mig. Þegar Jack ráfar í gegnum kirkjugarðinn og syngur átakanlegt lag sitt um einmannleika þess að vera fastur í sama farinu eða Jack’s Lament, og hvernig heiðgult tunglið veitir skotinu ákveðna hliðsetningu persónunnar, fær mig alltaf til að halla undir flatt, dæsa og dást að rammanum sem ég er að horfa á.

Persónurnar eru hver á fætur annarri hreint dálæti, frá ástsjúkum uppreisnarsegginum Sally og  snarbrengluðum vísindamanninum sem saumaði hana saman, að illkvittnum spilafíklinum Oogie Boogie og handbendum hans, að akfeitum jólasveininum, bjargarlausum bæjarstjóranum og öllum hinum furðufuglunum. Í atriðinu þar sem bæjarbúar Hrekkjavökubæjar bifast við að setja saman jólin á réttum tíma getur maður ekki annað en fundið til með börnunum sem þurfa að taka á móti hrollvekjandi gjöfunum á sama tíma og maður kann að meta metnað og elju bæjarbúa sem langaði aðeins að fá að taka þátt í því að dreifa gleði og hamingju í stað öskra og hræðslu, svona einu sinni. Það er hægt að færa ákveðin rök fyrir því hver raunveruleg dæmisagan er að baki sögu The Nightmare Before Christmas – er hún allegoría fyrir rasisma og stéttaskiptingu, er hún ádeila á hákapítalískt og kristið nútímasamfélag eða táknar hún baráttuna við myrkt þunglyndi og uppliftingu jólaandans?

Það er algjör óþarfi að fara í einhverjar frekari kvikmyndagreiningar á The Nightmare Before Christmas. Það er óþarfi að tíunda allar kenningar, túlkanir og duldar merkingar sem kunnu leynast í textanum því þegar öllu er á botninn hvolft er The Nightmare Before Christmas falleg mynd sem gleður augað jafnt og hjartað. Fyrir mér koma ekki jól nema ég skelli henni í tækið, syngi með og fái þessa hlýju í hjartað sem myndin veitir mér. Ég er mjög mikið fyrir hefðir og ég veit að þegar ég verð foreldri sjálf verður þessi mynd klárlega jólahefð okkar í fjölskyldunni.