EPLA- OG BEIKONSULTA

EPLA- OG BEIKONSULTA

Beikon er allra meina bót, það er mín speki. Beikon á allt segi ég nú bara. Þessi epla- og beikonsulta er t.d. eitthvað það albesta sem ég hef nokkurntímann smakkað!

Það eru til allskonar útfærslur af þessari sultu og smakkaði ég þessa dásemd fyrst þegar við Ísak unnum saman á veitingastað á Skólavörðustíg. Þessi uppskrift er algjörlega Ísaks en ég fékk góðfúslegt leyfi hans til að sýna ykkur hana.

Við höfum margsinnis hent í þessa sjúku sultu bæði með bjórbrauðinu fræga þegar við héldum brunchklúbb á Bragagötunni í den og jólin 2015 gerðumst við svo fræg að gefa krukkur af henni í gjafir. Fólk er ennþá að tala um það!

Sultugerð getur litið út fyrir að vera svolítið flókin og vissulega þarfnast þessi dásemd nokkurrar fyrirhafnar en maður lifandi hvað þetta var auðvelt, fljótgert og bragðgott! 

Þessi sulta er auðvitað ekki eins og “venjuleg” berjasulta en hana má setja ofan á brauð, blanda við annað kjöt eða kjúkling eða án gríns, borða beint upp úr krukkunni eins og ég stalst til þess að gera. Ítrekað.

Beikon- og eplasulta

3 epli
600 gr beikon
2 msk eplaedik
3 msk hlynsýróp
75 gr púðursykur
2 msk pikkluð sinnepsfræ

Byrjið á því að hita helluna og notið stóran pott undir blönduna.

Flysjið eplin og skerið í smáa bita. Mér finnst betra að hafa bitana smáa því eftir því stærri sem bitarnir eru því meira chunky verður sultan, en það er auðvitað eftir smekk hvers og eins. Skerið beikonið líka álíka smátt og eplin.

IMG_0873

Byrjið á því að setja beikonið ofan í pottinn og steikið þangað til það verður gullið og fallegt. Þegar beikonið er klárt má setja eplin út í og ná þeim álíka gylltum og fallegum. Næst fer púðursykurinn og hlynsýrópið út í, hrærið þessu öllu vel saman og leyfið að malla í ca. 1 mínútu. Hellið edikinu út í, hrærið vel og látið malla í aðrar þrjár mínútur á meðan þið hrærið í. Þegar sultan er að verða tilbúin eru sinnepsfræin sett út í lokin, öllu hrært vel saman og sultan er klár!

 

IMG_0878Þetta er svo alls ekki flókið en almáttugur hvað þetta var gott, þessi blanda sem við gerðum fór í þrjár krukkur, tvær sem kláruðust í brunchinum og ein sem varð eftir. Ég notaði hana ofan á bakaða sæta kartöflu daginn eftir og það var fáránlega gott!

Það er best að leyfa sultunni að kólna í opnum krukkum (ef þið ætlið ekki að borða hana strax) og setja svo lok á og inn í ísskáp. Ekki láta ykkur bregða ef þið takið sultuna út daginn eftir og það hefur myndast hvít fituskán í krukkunni. Það er eðlilegt. Til að hita sultuna upp aftur er annað hvort hægt að skella henni í örbylgjuofninn í 2-3 mínútur og hræra vel í eða setja krukkurnar í vatnsbað og hræra.

Verði ykkur að góðu!

ps. Ekki kenna mér um ef þið vaknið um miðja nótt með cravings og finnið ykkur skófla úr krukkunni ofan á Ritzkex um miðja nótt, á náttfötunum fram í eldhúsi. Já, þessi sulta er það góð.