UPPÁHALDS BÍÓ: THE SHINING

UPPÁHALDS BÍÓ: THE SHINING

Í þessari pistlaröð ætla ég að skrifa um uppáhaldskvikmyndirnar mínar. Það þýðir ekki endilega að þetta séu að mínu eða annarri mati “bestu” kvikmyndir sögunnar, enda er það aldrei hlutlaust mat, heldur eru þetta kvikmyndir sem ég hef persónulegt dálæti af, af ástæðum sem koma fram í hverri grein fyrir sig. Þess ber að geta að í greininni koma fram fléttur og fleira um framvindu kvikmyndarinnar sem um ræðir, svo þið hafið hér með verið formlega vöruð við að hætti Höskuldar.

“All work and no play makes Jack a dull boy”
-Jack Torrance

Það eru ótal ástæður fyrir því hvers vegna The Shining er ein af mínum uppáhaldskvikmyndum. Það fer ekki á milli mála að hér er um að ræða stórvirki í kvikmyndasögunni og kvikmynd sem hafði stórfengleg áhrif á hrollvekjur sem kvikmyndagrein, framþróun sálfræðitryllanna og samfélagslega vitund samtíma síns, nútíma og framtíðar.  

Ég sá The Shining fyrst þegar var fimmtán ára. Ég man nákvæmlega eftir upplifuninni, því eftir að ég hafði lokið við myndina, sat í mér einhver tilfinning sem ég hafði aldrei fundið áður en átti eftir að finna aftur ótal sinnum eftir kvikmyndaáhorf. Ég hafði lokið við að horfa á alvöru, góða kvikmynd. Ég vil meina að The Shining (ásamt Jaws og The Clockwork Orange, sem ég sá fyrst á svipuðum tíma) hafi verið þær þrjár kvikmyndir sem kveiktu hjá mér þennan brennandi áhuga á kvikmyndinni sem listgrein. The Shining fékk ekki aðeins blóðið í mér til þess að frjósa heldur vakti hún hjá mér ákveðna þráhyggju. Sama hvað ég reyndi þá gat ég ekki hætt að hugsa um myndina og söguþráð hennar, heldur gat ég ekki hrist af mér þessa ísköldu ónotatilfinningu sem hún vakti hjá mér og sem meira er – ég gat ekki hugsað um annað en Stanley Kubrick.

Það leið ekki á löngu fyrr en ég var komin með nefið ofan í kvikmyndasögubækur, merkjandi við kvikmyndir úr 1001 Movies You Must See Before You Die sem ég þurfti að sjá, ævisögur og greinar um leikstjórann ógnarstóra og duttlungafulla og sporðrenndi ég höfundarverki hans svo gott sem á næsta ári. Ég var heltekin, vægast sagt. Stanley Kubrick varð þá, og verður alltaf, minn uppáhaldsleikstjóri.

Nú geta menn, með eftirhyggju, lagt allskonar dóma á verkferla Kubricks, fullkomnunaráráttu hans og sálfræðilegar leikstjórnaraðferðir – en það er efni í annan pistil. Ástæða þess að kvikmyndir Kubricks heilluðu mig svo var að þær fengu mig til þess að hugsa um kvikmyndir sem tungumál. Texta sem mátti túlka á hvaða hátt sem er, texta sem var samofin myndum, táknum og litum sem gerðu það að verkum að það sem bar manni fyrir augum var svo miklu meira en einföld söguframvinda með hamingjusömum endi. Í kvikmyndum Kubricks er ekkert tilviljun og ekkert sem þú getur tekið sem sjálfsögðum hlut. Hann lætur margt liggja milli hluta því ekkert sem birtist í ramma er tilviljun og er það hlutverk áhorfandans að ráða úr myndmálinu.

 


The Shining
, sem kom út árið 1980 og er byggð á samnefndri bók hrollvekjusnillingsins Stephen King, var gríðarlega umdeild þegar hún kom út. Framleiðsluferlið hafði dregist ákaflega á langinn og þar af leiðandi hægt á framleiðslu fleiri stórmynda úr Hollywood við dræmar viðtektir kvikmyndabransans, hún var harðlega gagnrýnd af gallhörðum aðdáendum upprunalegrar sögu King og hlaut The Shining einna mest gagnrýni frá King sjálfum, en hann hafnaði handriti myndarinnar algjörlega og var (og er örugglega ennþá) mjög ósáttur við túlkun Kubricks á verki sínu. Fyrir þá sem hafa lesið bókina er þessi kergja King algjörlega skiljanleg, þar sem kvikmyndin tekur allt annan pól í sögunni, bæði hvað varðar framvindu, persónusköpun og heildarmynd hryllingsins sjálfs. Í rauninni er fátt sameiginlegt með sögu King og túlkun Kubricks, annað en söguleg beinagrindin, nöfn persónanna og sú staðreynd að illska leynist gjarnan í því sem stendur okkur næst.

The Shining fjallar í stórum dráttum um afdrif Torrance-fjölskyldunnar meðan þau taka að sér það óvænlega verkefni að sjá um umhirðu mikilfenglegs Overlook hótelsins í faðmi einangraðra fjalla Colorado-fylkis. Hótelið á sér drungalega sögu og dularfull tenging drengs hjónanna, Danny við andaheiminn hrindir af stað ógnvænlegri og yfirnáttúrulegri atburðarás meðan þau fennir inni á hótelinu ógurlega.

Umfangsefni myndarinnar er umdeilanlegt vegna þess að The Shining er einfaldlega ein þeirra kvikmynda sem verða alltaf í deiglunni. Þrátt fyrir að nálgast fertugt, er enn verið að spá og spekúlera í söguþræði hennar, táknfræði, duldum merkingum og túlkunum. Fyrir áhugasama mæli ég með að kíkja á heimildarmyndina Room 237 sem tekur saman allar helstu samsæris- og túlkunarkenningar á The Shining, allt frá því að hún sé aðeins hliðstæð saga ofbeldisins sem indíánar máttu þola af hálfu hvíta mannsins upp í stórbrotnar samsæriskenningar þess efnis að kvikmyndin sé ekkert annað dulkóðuð játning leikstjórans um meinta aðild hans að sviðsetningu tunglendingarinnar.

Meginástæða þess að The Shining situr enn svo fast í mér persónulega er sú að þrátt fyrir að hafa aðeins verið óharðnaður unglingur þegar ég sá myndina fyrst varð ég heilluð af myndmáli hennar og setningarfræði. The Shining varð til þess að ég fór að veita því almennilega athygli á hvað ég var að horfa og hætta að treysta á söguframvinduna eina sem leiðbeinanda í gegnum kvikmyndina. Skynjun okkar og sjón er bundin ákveðnum takmörkunum og verðum við, sem áhorfendur og neytendur miðla, að geta lesið milli línanna og náð ákveðnum tenginum við listaverk án þess þó að þeim sé slengt í andlitið á okkur. The Shining fékk mig til þess að kunna að meta góðar, metnaðarfullar kvikmyndir sem skildu eftir sig langavarandi áhrif og tilfinningu án þess að svara almennilega þeim spurningum sem þær sjálfar kröfðust svara. Kvikmynd þarf því ekki að vera saumlaus uppröðun atriða frá upphafi, miðju og endi heldur er allt opið til túlkunar og er það okkar að fylla inn í eyðurnar.

The Shining notast einnig við annarskonar og ef til vill, áður óþekktar aðferðir, við að vekja hrylling og óhug. Áhrif hennar eru sálfræðilegri heldur en líkamleg því hún notast ekki við mikið af blóðugum brellum, bregðuatriðum (e.jump scares) eða annarskonar áþreifanlegs hryllings. Þvert á móti er uppbygging hryllingsins hæg og lúmsk, sem var ákaflega nýstárleg nálgun á tíma slashermynda 8. og 9.áratugarins. Stærsti ógnvaldurinn er óneitanlega yfirvofandi geðsýki fjölskylduföðursins og löngun hans í að myrða fjölskyldu sína en að sama skapi vætlar eitthvað rotið niður veggi Overlook-hótelsins. Einangrun fjölskyldunnar er bersýnileg frá fyrsta degi, þegar hótelstjórinn Ullmann áréttar að “by five o’clock tonight it’ll be as is no one was ever here” og stærð hótelsins gleypir í sig persónurnar í hvert skipti sem þær reika um vistarverur hótelsins.

 

Í The Shining er það ekki myrkrið og óttinn við það sem við sjáum ekki læðast meðal veggjanna, heldur er það gapandi víðátta og opið rými hótelsins og yfirvofandi tilfinningin að eitthvað óæskilegt leynist handan við hornið, þó öll ljós séu kveikt. Það sem við hræðumst því mest er ekki það óþekkta í myrkrinu, aðstæðum sem við ráðum ef til vil ekki við, heldur er það að hið þekkta og venjulega birtist á óvenjulegum tímum – sérstaklega tilvist annarra gesta á einangruðu hóteli sem á annars að vera autt.

Hótelinu tekst því að verða að ákveðinni persónugerðri heild, einingu eða sögupersónu sem ætlar sér að breiða út illsku og hroða. Ætlunarverk hótelsins er þó ekki að verða fjölskyldunni að aldurtila, því í rauninni gerir hótelið sjálft eða draugar þess aldrei neitt illt á hlut persónanna. Það eru engin ærsl í dvalarstað Torrance-fjölskyldunnar, engin fljúgandi húsgögn, engir eldar eða hnífar, fljúgandi eggvopn eða árásargjarnir draugar heldur er það einfaldlega djöfullegt andrúmsloft hótelsins og ásetningur þess að fá fjölskylduna til að myrða hvort annað. Hótelið er ekki morðinginn, heldur brúðumeistarinn. Rétt eins og kokkur hótelsins, Dick Halloran, kemur að orði sjálfur þegar hann ræðir við Danny í eldhúsinu –  “some places are like people. Some “shine” and some don’t”.


Persónugerving hótelsins sem illmenni kvikmyndarinnar er eins og áður segir lúmsk og undirskynjuð. Tónlistin og hljóðvinnslan hjálpa til við að skapa andrúmsloft fullt af illsku og morðæði, með endalausum óhljómi og furðulegum hljóðum sem eiga hvergi við. Það er oft erfitt að greina hvort hljóðin séu innan eða utan söguheimsins, líkt og gerist í atriðinu þegar Jack og Wendy ræða um son sinn og afdrif hans síðan á hótelið kom. Þau sitja saman á rúmbríkinni og eftir því sem samtalið ágerist verður tónlistin háværari, glamrandi undir ásökunum Jack í garð Wendyar og þegar bókstaflegur hjartsláttur tekur að heyrast undir rifrildinu er eins og hótelið, með sláandi hjarta, sé að beina illum áhrifamætti sínum að Jack.

Óþæginda tilfinningin kristallast svo í leik Nicholson og Duvall, en báðir leikararnir voru komnir á ystu nöf við lok kvikmyndatökunnar. Tilfinningin sem einkennir myndina og togstreitan milli hjónanna er því kannski ekki svo fjarri raunveruleikanum þar sem Kubrick krafðist þess, eins og frægt er orðið, að skjóta hvert atriði í tuga, jafnvel hundraða tali. Það má deila um það hvort slíkar aðferðir sem Kubrick beitti, kallist andlegt ofbeldi eða einhverskonar rangsnúin aðferðarleikstjórnun (e. method acting/directing). Leikur Duvall sérstaklega, hefur verið gagnrýndur um árabil og vann leikkonan meðal annars Razzie-verðlaun fyrir leik sinn í myndinni en í raun var það ætlun Kubricks að fá þessa uppgjafar, ruglingslegu leiktúlkun á persónu Wendy. Duvall greiddi hinsvegar fyrir þennan leiksigur sinn í magasárum, hármissi og ákveðinni fyrirlitningu á Kubrick og kvikmyndagerð. Þegar öllu er á botninn hvolft má hinsvegar túlka leik Nicholson og Duvall sem tilraun Kubricks til að brjóta niður einstakling og fá úr honum trylligeggjaðan, ofþreyttan og afskræmdan leik sem á best heima í andrúmslofti kvikmyndar eins og The Shining.

The Shining er ein þeirra kvikmynda sem er þeim fágæta eiginleika gædd að meiða mann við áhorfið. Það er sársaukafullt fyrir öll skilningarvitin að horfa á kvikmynd eins og The Shining. Hún smýgur inn í heilabúið á manni með óþægilegri tónlist, glamri og óhljóðum á sama tíma og klippingin, kvikmyndatakan og endalausar samhverfurnar spila með sjónina. Sagan flakkar fram og aftur í tíma og stillir upp nútíma móti fortíðinni, með myndfléttum og leikmynd. Leikurinn er óvæginn, skrítinn og afskræmdur, sagan sjálf og myndmálið er djúpstætt, óþægilegt og sálfræðilega átakanlegt. Hún vekur mann til umhugsunar um hversdagsleg umfangsefni eins og fíkn, áfengissýki, einangrun, togstreitu í hjónaböndum og flóknum samböndum foreldra við börnin sín, fjölskylduofbeldi og hryllingin sem felst í því hversdagslega.

Henni tekst með saumlausum klippingum, samstæðri kvikmyndatöku og samhverfri innrömmun atriða, hljóðum, tónlist, litasamsetningum – í raun tekst henni að fanga öll skilningarvitin og hagnýta allar brellur kvikmyndalistarinnar til að vekja hjá áhorfendum óhug sem varir um alla eilífð, sama hversu oft horft er á myndina.

Ég gæti lengi vel tíundað þau fjölmörgu atriði myndarinnar sem vekja hjá mér óhug eða einfaldlega eru einstaklega falleg, vel skotin og útfærð. Hér eru nokkur sem hafa að mínu mati djúpstæð áhrif á upplifun áhorfandans og framvindu sögunnar þar sem notast er við myndmál frekar en tungumál.

Í þessu annars einfalda skoti, þegar Wendy og Danny eru úti að leika í snjónum stendur Jack og horfir út um gluggann, eða starir út í tómið. Hann er allur sjúskaður, órakaður og eftir því sem skotið þrengist meira tökum við eftir litlum blæbrigðum í andliti Jack sem eru óvenjuleg, óþægileg og vægast sagt tryllingsleg. Þau eru þó aðeins agnarsmá, alls ekki dramatísk, en nóg fyrir hárin til að rísa og nóg til að gefa til kynna að hér sé eitthvað ískyggilegt á seyði.

Í senunni eftir að Wendy ásakar Jack að hafa lamið Danny, ráfar fjölskyldufaðirinn um hótelið og gargar út í loftið í ákaflega illa bældu reiðiskasti. Hann ráfar inn í gylltan veislusalinn og við sjáum framan í hann þegar hann nuddar andlit sitt, smellir gómunum þyrstur og biður til guðs um “aðeins einn fjandans bjór”. Allt virðist þokkalega eðlilegt þangað til hann dregur hendurnar af andliti sínu og lítur upp, heilsar manni að nafni Lloyd og gantast með það hversu dauður staðurinn sé. Þessi áreynslulausa skipting í tíma og rúmi og án nokkura útskýringa (var þetta draumur eða geðhvörf, gerðist þetta í raun og veru?) er svo óþægileg að hún verður að hrylling.

Í senunni þegar Jack heimsækir sturluðu konuna í herbergi 237 og skellir hurðinni á eftir sér, eftir miður skemmtilega upplifun af þessari sturluðu konu, sést hann hörfa úr ljósinu og inn í myrkrið. Það er eitthvað við leik og hreyfingar Nicholson í þessu atriði sem virkar eins og afturhvarf til klassísku skrímslamynda Universal á 3. og 4.áratugnum. Hann hörfir höktandi og að endingu sjáum við ekkert nema kolsvartan, teygðan og afbakaðan skugann sem minnir einna helst á skrímsli. Það er í rauninni ekki fyrr en eftir heimsókn hans í herbergi 237 sem geðhvörfin kikka inn og virkar þessi sena eins og uppbygging að því sem koma skal.

Fyrir utan atriðin þar sem blóðið vellur úr hótellyftunni og þegar Jack rekur höfuðið í gegnum hurðina, er líklegast ekkert annað myndmál jafn einkennandi fyrir The Shining og Grady-systurnar. Þegar við höfum fylgt Danny á endalausum hjólreiðaferðum sínum þar sem hann þræðir ganga hótelsins, um hábjartan dag, er ekkert ógnvænlegra en að sjá þessar tvær einkennilegu stúlkur standa við enda gangsins. Það verður því svo að áhorfandinn frýs jafn fastur við sófann og Danny litli við þríhjólið sitt.

Senan í stiganum er án efa meðal þeirra bestu í The Shining. Einangrunin og illska hótelsins hefur ýtt persónunum á ystu nöf og nú er aðeins tímaspursmál hvert þeirra verður morðingi og hvert þeirra verður drepið fyrst. Það sem er áhugaverðast við þessa senu er hins vegar lýsingin, því því ofar sem við fylgjum hjónunum upp stigann verður Jack ekki aðeins árásargjarnari og groddaralegri heldur verður lýsingin rauðari. Wendy hinsvegar gengur inn í mýkri, gulari lýsingu á meðan skyggingin og rauði liturin gera andlit Jack djöfullegt og ásækjandi. Ekki nema von að hún hafi barið hann með kylfunni…

Ég held síðan að það sé óhætt að segja að það atriði sem kemur mest við mann og fær mann til að fetta sig úr hryllingi sé án efa maðurinn í bjarnarbúningnum og félagi hans á rúminu. Atriðið er stutt, samhengislaust, óþægilegt, kynferðistlega afbrigðilegt og í alla kanta hreinn hryllingur að sjá, þó ekki sé nema í nokkrar sekúndur. Atriðið er svo óskiljanlegt og illlæsilegt að það situr eftir í manni og mun bjarnargríma ásækja martarðir áhorfandans lengi vel eftir á.

The Shining er kvikmynd sem fylgir manni löngu eftir að kreditlistinn rúllar. Í hvert einasta skipti sem ég horfi á hana get ég fundið nýja nálgun, nýja eiginleika og nýja hluti til að fá þráhyggju yfir. Hún er ennþá jafn uggvænleg og hún var þegar ég sá hana eitt haustkvöldið fyrir 10 árum síðan og hún mun líklegast halda áfram að skríða undir holdið þangað til ég sé hana í hinsta sinn.