MANGÓ MYNTU DAIQUIRI

MANGÓ MYNTU DAIQUIRI

Það er ekkert skemmtilegra en að kunna að hrista saman góðan kokteil handa góðum vinum. Sjálf er ég mikil kokteilamanneskja og eftir að ég vann sem barþjónn öðlaðist ég meiri þekkingu, áhuga og hæfni í að hanna og hrista góða drykki.

Það þýðir þó ekki að allir þurfi að vera faglærðir barþjónar til að geta hrist saman góðan drykk – það eina sem maður þarf er hristari, sjússamælir, sigti, glös og innihaldsefni.

Mangó myntu daiquiri

1 1/2 oz. dökkt romm (Ég notaði Diplomático Reserva Exclusiva Rum)

1 oz. ferskur lime safi

1/4 oz. sykursýróp

5 stórir mangóbitar (frosnir eða ferskir)

5 fersk myntulauf

Klakar

Skreytið með limeberki, myntu og/eða mangósneið

Byrjið á því að setja mangóbitana, myntuna og sykursýrópið saman í hristarann. Merjið það saman með “muddler” eða öðru tóli. Þetta mýkir upp mangóið, leysir bragðið úr myntunni og blandar sykrinum við.

Smá trix með myntuna – áður en þið notið myntu í kokteila er þjóðráð að taka laufin, leggja þau í annan lófann og skella lófunum svo saman. Þannig “springur” allt bragðið og lyktin úr myntunni og gerir bragðið dýpra og betra!

Setjið svo nóg af klaka í hristarann og ofan í glasið til að kæla það á meðan. Þannig helst drykkurinn í sama hitastigi og betra jafnvægi.

Hellið romminu og limesafanum út í hristarann, yfir klakann. Lokið hristaranum og hristið vel og vandlega.

Hristið drykkin til, þangað til hristarinn er orðinn hrímaður og ískaldur, sláið hann opinn og gerið ykkur klár að hella. Skellið nýjum klökum ofan í glasið (eða sleppið því – fer eftir glösum og smekk) og hellið kokteilnum ofan í glasið í gegnum einfalt kokteilsigti.

Hendið klökunum úr glasinu sem þið ætlið að nota og sigtið kokteilinn úr hristaranum og í glasið í gegnum einfalt sigti.

Þá er drykkurinn tilbúinn og ekkert annað í stöðunni en að njóta hans í góðra vina hópi – skál!