08.

08.

LITLA GULA HÚSIÐ

Ég man svo vel eftir fyrstu íbúðinni sem við fluttum í saman í háa gula húsinu í lítilli, þröngri götu í miðbænum. Ég man þegar við gengum þarna fyrst inn og allir draumar okkar um sambúð og hamingju rættust. Ég man svo vel eftir pínulitlu stofunni með stóra glugganum sem baðaði rýmið í fallegri vetrarsól. Ég man eftir forljótu brúnu leðurstólunum við eldhúsborðið og klórförin sem kötturinn okkar skildi eftir á þeim. Ég gæti aldrei gleymt því, þó ég myndi reyna, hvernig sturtubotninn fylltist vanalega upp af vatni eftir hverja sturtu því niðurfallið var svo stíflað. Það situr enn fast í minni þegar ég óð ofan í niðurfallið í gulum gúmmíhönskum og veiddi upp margra ára virði af hári, fitu og skít svo við gætum nú farið í sturtu án þess að standa í botnfylli af volgu vatni. Lyktin er í minningunni ein sú versta sem ég hef á ævinni fundið og ég sver, ég man eftir því að íbúðinni lyktaði eins og skólp í margar vikur eftir á.
Ég man eftir því hvernig ég eldaði alltaf kvöldmatinn handa okkur, hvernig ég vakti þig af værum blundi eftir langan vinnudag og tilkynnti að það væri matur. Mér er minnistæðast eitt laugardagskvöldið, þrátt fyrir ævarandi unglingsþrá í djamm og drykkju, ákváðum við að kúra saman upp í sófa og horfa á alla seríuna af True Detective og háma í okkur sælgæti og flögur á meðan. Ég man eftir nágrannanum okkar í húsinu á móti og hvernig svefnherbergisglugginn hans sneri að stofunni okkar og ég man að hann var allskostar ekki aðdáandi einkar frumlegra leisersýninga okkar inn um gluggann hans. Það er svo ekki hægt að tala um þennan tíma án þess að minnast á gömlu hverfisjoppuna, klædda smjörauglýsingum og kátum, feitum börnum. Ég man eftir ótal ferðum á öllum tímum sólarhrings í sjoppuna til að versla inn ruslmat, sælgæti og annað að maula meðan við sátum fastar fyrir framan sjónvarpið langt fram eftir öllu. Ég man eftir Hjálpræðishernum á horninu og gömlu kerlingunum sem unnu þar. Ég man að við komum gjarnan við í búðinni á leiðinni heim og þær tóku á móti okkur slúðrandi, slökktu í löngum sígarettunum á húsveggnum. Ég man að þó við ættum enga peninga komum við alltaf út úr versluninni með pokafylli af fötum og við réttlættum það að sjálfsögðu því við vorum að styrkja gott málefni í leiðinni. Hversu margar pizzur ætli síðan að við höfum pantað á þessum tíma? Ég man að við vorum orðnar góðkunnar pizzasendlunum og höfðum við einstakt dálæti á því að flatmaga upp í stóra rúminu þínu með pizzuna á milli okkar og einhverja arfaslaka mynd í tækinu. Ég minnist þessa tíma með hlýju og gleði, ég man eftir hverjum einsta krók og kima, litla ísskápnum og skrítna sófanum, löngum og krækjóttum stiganum, strákunum sem við buðum með okkur heim og endalausri gleðinni sem fylgdi gula húsinu í litlu þröngu götunni í miðbæ höfuðborgarinnar.