UPPÁHALDS BÍÓ: JAWS

UPPÁHALDS BÍÓ: JAWS

Í þessari pistlaröð ætla ég að skrifa um uppáhaldskvikmyndirnar mínar. Það þýðir ekki endilega að þetta séu að mínu eða annarri mati “bestu” kvikmyndir sögunnar, enda er það aldrei hlutlaust mat, heldur eru þetta kvikmyndir sem ég hef persónulegt dálæti af, af ástæðum sem koma fram í hverri grein fyrir sig. Þess ber að geta að í greininni koma fram fléttur og fleira um framvindu kvikmyndarinnar sem um ræðir, svo þið hafið hér með verið formlega vöruð við að hætti Höskuldar. 

You’re gonna need a bigger boat” 
-Chief Brody

 

Þeim sem þekkja mig vel kemur það kannski ekkert sérstaklega á óvart að Jaws skuli vera ein af mínum uppáhaldskvikmyndum. Ég er með þráhyggju fyrir hákörlum og góðri kvikmyndagerð og í Jaws, eða Ókindinni, eins og hún heitir á íslensku, sameinast þessar tvær ástríður mínar.

Ég sá Jaws fyrst þegar ég hef verið öðru hvoru megi við fermingu og átti hún ásamt A Clockwork Orange og The Shining eftir að kveikja hjá mér brennandi áhuga á sjöundu listgreininni; kvikmyndalist, um ókomna tíð.

Ég heillaðist strax af Jaws og viðfangsefni hennar, enda hræddi hún úr mér líftóruna á sama tíma og hún espti upp ævarandi áhuga minn á hákörlum og leyndardómum djúpsævis. Það var ekki fyrr en löngu seinna, þegar ég fór að nema kvikmyndafræði að ég gerði mér grein fyrir því hversu mikilvæg Ókindin var á sínum tíma og hversu stóran stað hún á í kvikmyndasögunni.

Spielberg var á þessum tíma ungur og óreyndur leikstjóri  og hafði aðeins leikstýrt nokkrum sjónvarpsmyndum og þáttum en Jaws var aðeins önnur tilraun hans á hvíta tjaldinu, á eftir The Sugarland Express (1973). Samningsbundinn Universal og heillaður af sögunni, þó tregur til að taka hana að sér, varð það svo að hinn 26 ára Steven Spielberg leikstýrði kvikmyndinni sem, þrátt fyrir allan framleiðsluvanda og hnökra, yrði löngum þekkt sem fyrsti alvöru sumarstórsmellurinn og kæmi til með að eiga stóran þátt í vinsældum Spielbergs sem leikstjóra. Kvikmyndin þykir marka spor í nútímakvikmyndasögu og gengu gagnrýnendur Dagblaðsins Vísis svo langt að fullyrða að um væri að ræða “mynd [sem] er gerð eftir nýrri formúlu amerískrar kvikmyndagerðar, þar sem aðalmarkmiðið er að sýna ofsahræðslu hjá fólki sem lifir i umhverfi sem við þekkjum öll vel.” (Vísir, 286. Tölublað (18.12.1975) bls. 10)


Sagan af Ókindinni ætti að vera öllum góðkunn en kvikmyndin fjallar um ferðamannaþorpið Amity á samnefndri eyju út af ströndum New England. Þjóðhátíðarhelgin nálgast og reiðir bærinn sig á tekjur ferðamannana til að lifa veturinn af. Þegar feiknarstór og morðóður hvítháfur kemst í æti við strendur Amity verður fjandinn (bókstaflega) laus. Ólíkegt bandalag myndast á milli lögreglustjórans Brody, sjávarlíffræðingsins Hooper og harðnaglasjóarans Quint, en leggja þremenningarnir í svaðilför til að verða ófreskjunni að bana. Hver og einn þessara manna tákna óneitanlega þrjár erkitýpur hetjuskapar – lögreglustjórinn táknar eljusemi meðalmannsins, Hooper rökvísi vísindamannsins og Quint táknar ólíkindalæti tilfinningaseminnar. Ásetningur þeirra þriggja kann að vera sá sami en á endanum er það lögreglustjórinn Brody sem sigrar hákarlinn ógurlega. Þar sem hann táknar óneitanlega hinn venjulega mann, snauðan hámenntun eða persónulegri hefndargjörð er áhorfandinn skilinn eftir með þau skilaboð að þú þarft ekki að vera stórkostlegur sjóari eða menntamaður til að sigrast á óttanum.

Jaws kom út sumarið 1975, þá góðum 100 dögum og allnokkrum milljónum fram yfir framleiðsluáætlun. Á þessum tíma var harla óvenjulegt að gefa út stórar kvikmyndir að sumri til, þar sem sumarmánuðir þóttu ekki vænlegir til gróða en Universal og Spielberg tóku áhættuna og byrjuðu auglýsingaherferð sína í október 1974. Á vormánuðum 1975 keyrði kvikmyndaverið svo í þá stærstu og margþættustu markaðssetningarherferð sem hafði verið farið í á þessum tíma. Þetta var í rauninni í fyrsta sinn þar sem bók og kvikmynd voru auglýstar samhliða hvorri annarri, með sömu kápunni og kvikmyndaplaggatinu sem er alþekkt taktík í dag og í fyrsta sinn var víðfemd sjónvarps- og útvarpsherferð farin til að kynna kvikmyndina, með viðtölum, stiklum og áhrifamiklum kitlum. Samhliða þessu öllu var svo framleiddur alls lags söluhæfur varningur tengdur kvikmyndinni, allt frá leikföngum upp í nestisbox, sem þótti óþekkt þangað til. Nú er ekki til það mannsbarn sem ekki þekkir til táknmyndarinnar bláu með rauðu stöfunum, af hákarlinum með galopinn skoltinn koma úr kafi og saklausri stúlkunni svamlandi.  

Þetta gerði það að verkum að þegar myndin kom út var hún nú þegar á milli tannanna á fólki og varð Jaws fljótt tekjuhæsta kvikmynd allra tíma. Sýningar hófust þann 20.júní 1975 í alls 409 kvikmyndahúsum víða um Bandaríkin, en það þótti gríðarlega stór opnun á þeim tíma. Rúmlega 70 milljónir gesta sáu hákarlinn leika baðstrandagesti grátt á þeim tíma sem hún var í sýningu og er það um margt Ókindinni að þakka að mannkynið hefur alið með sér slíkan órökréttan ótta á hvítháfum. Ég segi órökréttur því það er  líklegra að þú deyjir heima hjá þér á sófanum en að vera étin af hvítháfi. Treystið mér, ég hef kafað meðal þeirra!

Það sem gerir kvikmyndina, sem er í raun ekkert annað en klassísk “skrímslamynd”,  er sú staðreynd að hákarlinn sjálfur birtist fyrst eftir rúman klukkutíma inn í framvindu sögunnar og eftir það sést hann aðeins í örfáum atriðum. Þetta var þó ekki viljandi hjá leikstjóranum heldur gerðu vél-hákarlarnir og duttlungafull náttúran það að verkum að mikið af senunum með feiknarstórum og ósamvinnuþýðum vélbúnaðinum voru fullkomlega ónothæf. Úr þessu varð ný nálgun á “minna er meira”-sögufléttuna sem menn eins og Hitchcock voru þekktir fyrir. Leikstjórinn þurfti því að reiða sig meira á aðra skynþætti eins og tónlist, leik, persónusköpun, kvikmyndatöku og önnur klækjabrögð kvikmyndalistarinnar, og treysta skynjun áhorfandans. Í raun hefst þessi frásagnarháttur fyrst þegar persóna Richard Dreyfuss, vísindamaðurinn Matt Hooper, er færður að skoða líkamsleifar fyrsta fórnarlambs hákarlsins. Þar er treyst á snilldarlega leikhæfileika Dreyfuss og óróleika persónunnar í aðstæðunum frekar en að sýna mikið af sundurlimuðu líki stúlkunnar til að vekja ógleði og óhug. Þannig nær áhorfandinn raun meiri tengingu við hryllingin, heldur en að sjá gervilimi og tilkomumiklar brellur. Þær sitja ekki jafn lengi í manni og andlitið á Hooper þegar hann hrifsar af sér gleraugun og öskrar “This was no boating accident!”

Atriðið fræga þar sem þremenningarnir skjóta gulum olíutunnum í hákarlinn og eltingaleikurinn sem fylgir er einn svakalegasti tilfinningarússíbani kvikmyndasögunnar og er óneitanlegt að kvikmyndin hefði haft allt annan blæ ef skrímslið sjálft hefði verið í forgrunni. Þar sem myndin var líka skotin út á miðju ballarhafi, en ekki í sundlaug eða tanki í þægilegu kvikmyndaveri eins og gert er í dag, ýtir þessi fjarvera hákarlsins sjálfs sem slíks undir einangrun persónanna, óútreiknanlega hegðun rándýra og fullkomið getuleysi mannsins gagnvart sjónum og hættum hans. 

Þetta sígilda þema, maðurinn gegn náttúrunni, endurspeglast svo í einu magnaðasta atriði myndarinnar þar sem Quint, leikinn af Robert Shaw, fer með fræga einræðu sína um upplifun sína af hinu sannsögulega skipbroti USS Indianapolis. Atriðið fer fljótt úr því að vera gamansamur fyllerísmetingur milli mannanna þriggja yfir í hádramatíska frásögn fyrrverandi hermanns af ólýsanlegum hryllingi þar sem hann horfði upp á vini sína reka um í ísköldum sjó undirlögðum af tígris- og nautháfum. Atriðið gefur ákveðna sýn inn í óútreiknanlega persónu Quint sem og persónulegan ásetning hvers þeirra að ráða ófreskjulegum hákarlinum bana. Það tók nokkrar tilraunir til að ná þessu atriði fullkomnu, þar sem Shaw var mikill fyllibytta og vildi ólmur leika atriðið undir áhrifum, þar sem persónurnar eru jú sjálfar aðeins kenndar. Aldrei tókst að ná einræðunni fullkominni fyrr en Shaw lét renna af sér, grátbað um eina töku í viðbót og nelgdi hana í einni atrennu – leikurinn er vandaður, framsetningin vönduð og hrá sem gerir það að verkum að áhorfandinn situr stjarfur með gæsahúð.

Tónlistin, úr smiðju John Williams, spilar svo mikilvægan þátt í því að byggja upp spennuna og koma í stað hákarlalíkneskisins þegar það á við. Þemalag myndarinnar er löngum orði þekkt og vekur hvívetna hræðslu hjá fólki, enda gaf lagið það til kynna hvenær hákarlsins væri von með uggvænlegum hætti. Litapallettan, mótsetning kaldra og heitra tóna hefur ákveðin sjónræn áhrif, bæði í kvikmyndinni sjálfri og auglýsingarefni hennar. Spielberg fannst mikilvægt að takmarka notkun rauða litarins í sviðsmyndum og búningum svo það yrði enn áhrifameira þegar áhorfendur sæju eldrautt blóðið byrja að seitlast út frá árásarstaðnum í himinbláum sjó.

Kvikmyndatökunni er beitt eins og sjálfstæðri persónu, þar sem fókuspunktar og þysjun (líkt og þessi fræga Dollyzoom eða Hitchcock-þysjun) ýta undir óróleika, spennu og hræðslu samhliða tónlistinni. Saman vinna þessir tveir þættir brautryðjandi starf í kvikmyndagrein spennu og hryllings á sama tíma og einstakt, flókið og átakanlegt samband aðalpersónanna endurómar í sígildri þráhyggju mannsins að beisla náttúruna.

Jaws hvarf því fljótt frá því að verða að þeirri innantómu hasarspennuvellu sem Spielberg óttaðist að myndi draga dilka á eftir sér í ferli hans heldur sannaði kvikmyndin það að minna er sannarlega meira. Ókindin varð til þess að sumarsmellir urðu vænlegasta gróðrarleið stóru kvikmyndaveranna, hún hrinti af stað farsælum ferli Spielberg og gerbreytti því hvernig Hollywood markaðssetur stórmyndir sínar og hvernig við sem áhorfendur neytum þeirra. Hún er án efa ein áhrifamesta stórmynd allra tíma og er vert að horfa á hana í sögulegu samhengi og án nokkurra formerkja eða fordóma sem kunnu að fylgja skrímslamyndagreininni sem slíkri.

Ég elska þessa mynd, hún lætur mér í alvörunni líða vel og er ein af þeim sem ég get horft á aftur og aftur, talað með hverri frægri línu á eftir annarri og alltaf tekst mér að sjá eitthvað nýtt sem fær mig til að elska hana enn meira.