EINFALT SPAGHETTI BOLOGNESE

EINFALT SPAGHETTI BOLOGNESE

Ég held að það sé ekkert leyndarmál að ég elska pasta. Ég dýrka pasta því það er svo matarmikið, bragðgott og fjölbreytt. Það virkar sem svo góður grunnur í allskonar rétti og það þarf alls ekki að vera dýrt heldur. Það er kannski ekki alveg það besta þegar um mittismálið ræðir, en hverjum er ekki sama þegar maður er bara hér til að lifa og njóta, eins og sönnum Ítala sæmir!

Einn uppáhalds pastarétturinn minn er Spaghetti Bolognese en það getur reynst flókið og tímafrekt að gera góða bolognese-sósu frá grunni. Hún þarfnast, eins og langflestar hefðbundnar ítalskar uppskriftir, mikillar þolinmæði, vinnu og flókinna aðferða. Það getur að sjálfsögðu verið ákáflega róandi og gefandi að laga hana frá grunni en þegar maður er svangur, klukkan er að ganga sex og maður hefur ekki tíma í einhverjar dúllur er mjög auðvelt að sneyða hjá nokkrum skrefum en ná samt geggjuðum árangri. Hérna er ein alveg skotheld og fáránlega auðveld leið til að græja gott spaghetti bolognese á undir hálftíma.

Einfalt og gott spaghetti bolognese (2-4 manns)

250 gr af spaghetti (Í þessu tilfelli notaði ég ferskt pasta frá Pastella sem er alveg gúrmei)
1 krukka af Jamie Oliver Tomato-Basil pastasósu
250 gr nautahakk
100-150 gr beikon
4-5 gulrætur
1/2 gulur laukur
1/2 rauðlaukur
1 rauð paprika
2 stórir hvítlauksgeirar
Salt&pipar
Basilikka
Parmesanostur (eftir smekk)
Toppað með ferskum kirsuberjatómötum

Kveikið á hellunni, setjið stóra og djúpa pönnu yfir og skvettið góðum slurk af olíu yfir. Bíðið þangað til pannan hitnar almennilega áður en þið setjið nokkuð á hana til steikingar. Hitið svo aðra hellu og setjið yfir hana stóran pott með um það bil líter af vatni. Saltið vatnið til með fínu salti, það er betra að nota fínt borðsalt heldur en t.d. flögusalt því það leysist betur upp í vatninu. Dassið svo vel af þurrkaðri basilikku (eða setjið nokkur fersk lauf ef þið eigið þau til) út í vatnið. Sumir slurka smá extra virgin ólífuolíu út í pastavatnið sitt svo það festist ekki saman en það hefur hvorki verið sannað né afsannað – svo það fer algjörlega eftir smekk. Ég nota í þessa uppskrift ferskt spaghetti frá Pastella þannig það er ekki alveg þurrt og glerhart eins og annað spaghetti, og finnst mér það festast minna saman.

Trikkið er svo að bíða eftir því að vatnið sjóði og skella pastanu þá ofan í pottinn, setja lok yfir og lækka hitann. Þá getur pastað mallað í smá tíma meðan við græjum sósuna.

Á meðan er tilvalið að skera niður grænmetið en í svona uppskrift þarf að vanda sig vel og skera grænmetið frekar smátt. Gulræturnar er best að skera í tvennt upp á rönd og skera í fína bita. Laukinn er best að flysja og skera lóðréttar rákir í hann  en ekki skera hann alveg í gegn. Þá helst laukurinn saman á meðan þið hakkið hann niður í litla bita, þvert eða lárétt yfir. Skerið svo paprikuna í nokkra helminga, hreinsið kjarnann og fræin úr, skerið bitana svo í margar þunnar lengjur og skerið þær svo aftur þvert.

Hafið beikonið til, skorið í smáa bita og takið nautahakkið til. Þegar pannan er orðin vel heit, takið þá hvítlauksgeirana og merjið þá yfir pönnuna, skellið grænmetinu yfir og saltið og piprið eftir smekk. Galdurinn er að steikja grænmetið vel og lengi, eða þangað til gulræturnar eru orðnar mjúkar undir tönn. Leyfið grlænmetinu öllu að brúnast vel og verða mjúkt og gyllt. Þegar grænmetið er svo gott sem tilbúið er um að gera að lækka hitann undir pönnunni, taka hana aðeins af mesta hitanum og setja kjötið út á. Setjið pönnuna aftur á hita og hækkið aðeins undir henni. Steikið svo hakkið og beikonið með grænmetinu í dágóða stund, þangað til kjötið er orðið brúnt og beikonið fallega gyllt. Takið þá sósuna og hellið henni yfir allt saman. Hrærið reglulega í sósunni svo hún brenni ekki við. Það er allt í lagi að taka pönnuna af hellunni á milli skrefa til að minnka hættuna á að eitthvað brenni eða fari úrskeiðis. 

Þegar pastað er soðið og tilbúið, hellið því yfir sigti og sigtið vatnið frá. Ítalska leynitrikkið er svo að geyma smávegis af pastavatninu, eins og 1-2 dl, og blanda því pastasósuna sjálfa. Þetta á að gefa silkimjúka og góða áferð á pastasósuna og skapa betra jafnvægi milli pasta og sósu.

Látið sósuna malla áfram og þegar öllu hefur blandast vel saman er ráðlagt að smakka sósuna til. Bragðið aðeins á henni og ákveðið hvort þurfti meira salt, pipar eða basilikku. Bætið því við og hrærið vel saman með spaghettíinu.

Það er líka hægt að sleppa því að blanda spaghettíinu saman við í lokin (eins og ég gerði í þessu tilfelli) og hella sósunni yfir hreiður af elduðu spaghetti. Toppið svo réttinn með nóg af parmesan osti og nokkrum ferskum kirsuberjatómötum. Til að kóróna þetta alveg væri tilvalið að henda einu hvítlauksbrauði í ofninn áður en byrjað er að elda og þá er það svo gott sem klárt þegar rétturinn er tilbúinn!

Vissulega þarfnast þessi uppskrift smá tíma og ákveðinna tímastjórnunarhæfileika en hún er engu að síður einföld, ódýr og gómsæt! Verði ykkur að góðu eða bon appétit eins og Ítalinn segir!