ÞORSKUR Í PARMESAN OG STEINSELJURASPI

ÞORSKUR Í PARMESAN OG STEINSELJURASPI

Ég skora á ykkur öll, lesendur góðir, að borða meiri fisk. Ég var sjálf dauðhrædd við að elda og borða fisk því reynsla mín af fiskáti var ýmist fiskfars í formi fiskibolla í skólamötuneyti eða ofeldaðrar ýsu með tómatsósu og kartöflum.

Nú á síðari árum fórum við fjölskyldan að borða bleikjur og lax í auknum mæli, sögðum skilið við ýsuna með tómatsósunni og fögnuðum grilluðum lax og sætum kartöflum.

Þegar ég flutti að heiman ákvað ég svo að reyna að borða meiri fisk og þó það heiti hafi helst verið bundið sushiáti fyrst um sinn erum við Ísak að verða æ duglegri að elda fisk. Það er nefninlega mjög hentugt að eiga matreiðslumeistara fyrir kærasta!

Ég elskaði alltaf fisk í raspi sem barn en ákvað að taka þennan einfalda klassíska rétt og bæta hann aðeins. Hann er ferskari en þessi klassíski fiskur-í-raspi með sýrðum rjóma og og sítrónu. Ég myndi alltaf mæla með því að gera þetta “gamaldags” og fara í fiskbúð eftir fiski. Þá getur maður alveg stjórnað því hvaða stykki maður fær og hversu mikið af fisk. Við Ísak keyptum 500 gr handa okkur tveimur en það hefði alveg verið nóg ofan í fjóra.

Þorskur í parmesan og steinseljuraspi (2-4 manns)
500 gr af þorski
150 gr raspur
1 msk þurrkuð steinselja
3- 4 msk af parmesan
1 dós sýrður rjómi
Sítrónusafi
Salt & pipar
Sítrónupipar
6 smælkiskartöflur
3-4 hvítlauksgeirar
Spínat
Blaðlaukur
1 egg
Hveiti

Byrjið á því að hita upp eina hellu og pönnu fyrir kartöflurnar. Það er þjóðráð að steikja eða sjóða kartöflurnar áður en þær fara inn í ofn, þá verða þær aðeins stökkari og taka minni tíma í ofninum. Það er líka góð regla að ef þú vilt hafa kartöflur með matnum er best að byrja á þeim. Þá geta þær verið að malla á meðan maður undirbýr restina af matnum. Skerið kartöflurnar í báta og steikið með smjöri, salti og nóg af hvítlauk. Þegar þær eru orðnar gylltar og flottar er um að gera að henda þeim í eldfast mót og beint inn í ofn á 180°C. Þá geta þær mallað á meðan við græjum restina, það ætti að taka svona 15-20 mínútur.

2015-06-091

Raspurinn er ofureinfaldur. Ég kaupi bara venjulegan rasp úr Bónus, þennan gula og appelsínugula. Að sjálfsögðu getur maður gert eigin brauðrasp en það er svolítið moj svo ég sýni ykkur það seinna! Ég set raspinn í skál og blanda út í hann fínum rifnum parmesan osti og þurrkaðri steinselju. Steinseljan gefur extra gott bragð og parmesan osturinn bætir við svolítið af seltu. Þið getið skammtað raspinum niður eða gert þetta við allan raspinn og geymt hann svo með ostinum og steinseljunni ef þið viljið nota hann aftur. Ég gerði það og það geymist mjög vel og er mun betra en eintómur raspur.

2015-06-09

Þorskurinn sem við fengum var ennþá með roðinu. Verandi vel stæð og í sambandi við faglærðan kokk, þá tók hann og roðfletti stykkið á þremur sekúndum. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að koma því orð hvernig er best að roðfletta þorsk á þremur sekúndum en þið getið að sjálfsögðu beðið afgreiðslufólkið að roðfletta flakið fyrir ykkur.

IMG_1294

Fiskurinn var skorinn í fjögur stykki. Síðan er gáfulegt að setja raspinn í eina skál, hveiti í aðra og eitt egg í þá þriðju. Byrjið á því að velta fiskinum upp úr egginu, því næst úr hveitinu og svo þekja stykkið með raspinum. Geymið svo stykkin til hliðar til steikingar. Ég er svo mikil subba að ég fór bara með hendurnar ofan í allt, það voru egg og hveiti allstaðar á borðinu. Ísak kenndi mér þá að galdurinn er að nota aðra höndina í þurrefnin og aðra í eggin. Þannig smitast minnst af klístri í raspinn sjálfan og maður getur geymt afgangana lengur. Byrjið þá að nota aðra höndina til að velta stykkinu upp úr egginu, leggið stykkið í hveitið og notið hina höndina til að velta flakinu upp úr hveitinu. Notið síðan sömu hendi til að velta stykkinu upp úr raspinum. Passið að þekja stykkið vel svo það verði stökkt og gott!

IMG_1297

Kartöflurnar eru enn að malla í ofninum og nú er komið að því að steikja fiskinn. Hitið pönnu og slettið góðum slurk af ólífuolíu á pönnuna. Steikið hvert stykki fyrir sig í ca. 3 mínútur, 1 og hálfa á hvorri hlið. Þegar stykkin eru steikt er gott að klára þau í ofninum í ca. 4 mínútur í eldföstu formi.

IMG_1304

Á meðan fiskurinn klárast í ofninum er gott að græja sósuna sem er sjúklega fersk og góð. Hún er samt svona eftir smekk svo ég hef engin sérstök hlutföll. Takið sýrða rjóman og kreistið góðan slurk af sítrónusafa út í. Kryddið með sítrónupipar, steinselju og smá salti. Hrærið vel saman og setjið fínsaxaðan blaðlauk út í. Hrærið vel og smakkið til – góð leið til að æfa bragðpallettuna! Finnið út hvað ykkur finnst gott – viltu hafa sósuna með fiskinum salta eða sæta eða súra eða kryddaða? Þú ræður!

IMG_1305

Nú þegar fiskurinn er loksins tilbúinn er um að gera að raða honum fallega á disk ofan á spínatbeði, kartöflum og sósu. Verði ykkur að góðu!