07.

07.

TEKÍLA & TÁR

Ég man eftir kvöldinu áður en þú fluttir úr bænum. Ég man hversu innilega leiðar og dramatískar við vorum og hvernig okkur tókst að drekkja þessum sorgum okkar í ódýru tekíla. Ég man hvernig með hverju skotinu dofnaði sársaukinn og yfirvofandi söknuður. Ég man hvernig við dönsuðum um í herberginu þínu við gráa vegginn með flamingóunum, tókum okkur til saman undir ljúfsárum tónum uppáhalds djammtónlistarinnar okkar og reyktum trúnósígó út á tröppum. Ég man hvernig við marseruðum niður brekkuna í himinháum hælunum þrátt fyrir kulda og hálku, eins og við höfðum gert hverja helgi í mörg ár á undan, í áttina að uppáhaldsbarnum okkar. Ég man hvernig við sníktum út ódýra drykki frá barþjóninum sem var fyrrverandi kærastinn minn og það var eitthvað smá heimskulegt daður í gangi. Ég man að við sátum á háu barstólunum við barinn og tókum stærðarinnar sopa af eldrauðum ávaxtakokteilunum og þú byrjaðir að tala um nýju plötuna með Kanye og Jay-Z. Ég man hvernig þú þysjaðir í gegnum albúmin á spilaranum þínum þangað til gyllta myndin af Watch The Throne kom upp og þú stakkst öðrum endanum af heyrnartólunum í eyrað á mér og spilaðir lagið. Ég man að við vorum svo fullar, bæði af tekíla og ást, og hvernig ég táraðist því ég vissi hversu mikið ég átti eftir að sakna þess að sjá þig ekki á hverjum degi og tala um kvikmyndir, hip hop og asnalegt slúður úr hæðum Hollywood. Ég man að hvernig þú ljómaðir öll upp og hækkaðir þegar Church in The Wild byrjaði því það var uppáhaldslagið þitt. Ég man hvernig ég, í mínu dramatíska, drukkna ástandi, lokaði augunum og í eitt einasta augnablik var ekkert annað til í heiminum nema ég, þú og þetta lag.  Það var ekkert annað til í heiminum nema sameiginleg ást okkar á hip hoppi, sykursætt bragðið af jarðarberjakokteilnum og þetta lag, þessi taktur sem dansaði um drukkið heilabú mitt eins og vökvi í þyngdarleysi. Ég man hvernig takturinn skoppaði milli vinstra og hægra eyra, hvernig við dilluðum hausnum upp og niður og hvernig mig svimaði smá þegar þessi fimmtán tekílaskot fóru að segja til sín. Ég man að mér leið eins og ég væri í vímu. Ég hugsa alltaf um þetta augnablik þegar ég heyri þetta lag og það er ein af mínum uppáhalds minningum.