06.

06.

  HEIMAVISTIN

Ég man svo vel eftir öllum klækjunum sem við notuðum til að lauma mér inn á heimavistina að nóttu til því öryggisvörðurinn var lygilega strangur og leyfði enga gesti eftir kvöldmat. Ég man hvernig þér tókst með ólíkindum að stela auka lykilkortum af ólíklegustu stöðum eða finna þau liggjandi í bráðnum snjónum og gafst mér þau svo ég gæti þóst búa á vistinni. Ég man eftir öllum laumulegu símtölunum og hvíslinu, þegar þú sagðir mér að koma inn að baka til og þú myndir henda lykilkortinu niður til mín í snjóinn, vafið inn í visastykki. Þá gæti ég ég gengið hnarreist inn í anddyrið þó það væri helgi, þættist bara vera í símanum og talaði hátt um það hvernig nú væri ég komin „heim“ svona til að plata aldraðan öryggisvörðinn til að halda að ég væri virkilega íbúi heimavistarinnar. Ég man að eftir nokkur skipti af þessum skrípaleik um helgar að aldraði öryggisvörðurinn fór einfaldlega að trúa því að ég byggi þarna og kippti sér ekki lengur upp við það þegar ég laumaðist inn á annarra manna lykilkortum. Ég man hvernig ég eyddi öllum mínum vökustundum á heimavistinni, man nákvæmlega hvernig hún lyktaði af heimilismat og hvernig gamla, myntugræna teppið var undir fótunum á mér klukkan sjö á morgnanna rétt áður en skólinn byrjaði. Ég man eftir því að kúldrast saman upp í einbreiða rúminu þínu, hvernig við sváfum þétt upp við hvort annað og rákum herbergisfélagann þinn á dyr þegar við vildum fá að vera ein en eyddum svo kvöldunum öll saman að borða hundraðkalla-núðlur, spiluðum tölvuleiki eða lásum myndasögur saman. Ég man eftir háværum hlátrasköllum og heilum helgum þar sem ekkert annað var til í þessum heimi en við, litla rúmið, núðlurnar og sjónvarpið. Ég man þegar við sváfum fyrst saman í pínulitla einbreiða rúminu og í öllum æsingnum gleymdirðu að læsa hurðinni og tvíburnarir af ganginum ruddust inn með látum í miðjum klíðum til að spyrja hvort þú vildir koma með þeim í fjallið á snjóbretti. Ég man hvernig þér fannst alltaf betra að sofa upp við kaldan vegginn því þér líkaði svo vel að finna fyrir kaldri steypunni á kinninni. Ég man að þrátt fyrir að vera bæði ung og í léttum holdum þurfti ég samt að klemma aðra öxlina undir líkamanum svo við gætum bæði komist fyrir í þessu skammarlega litla rúmi og stundum þegar ég vaknaði var handleggurinn nánast dauður og ég sat með hann dofinn í fyrstu tveimur stærðfræðitímum dagsins en mér fannst það svo vel þess virði því ég elskaði þig svo mikið. Ég man alltaf eftir því þegar þú bullaðir einhverjar sögur og endalausa vitleysu upp úr svefni og hvernig fæturnir þínir stóðu alltaf út fyrir endann á rúminu, sama hvað. Ég man eftir því hversu heitt mér var að sofa við hliðina á þér undir þykku dúnsænginni þinni. Ég man hvernig sængin lá þungt ofan á nakinni húðinni eftir við höfðum legið í rúminu stundunum saman löngu fram eftir háttatímann því við gátum ekki hætt að kyssast. Svo vöknuðum við hvern morgunn við ömurlega vekjaraklukkuna þína og við hljóðin í öðrum nemendum að taka sig til fyrir komandi skóladag, gangandi berfætt niður ganginn að bursta í sér tennurnar eða niður steyptan stigann í morgunverðarsalinn með myntugrænt teppið undir iljunum. Ég man að ég elskaði hvern einasta vetrarmorgun sem ég átti með þér á heimavistinni. Ég man að ég þorði aldrei að viðurkenna það fyrir þér eða sjálfri mér, því ég hafði verið særð og vængbrotin svo lengi. Ég man að ég þorði ekki að leyfa mér að elska og vera hamingjusöm. Ég man að þú gerðir mig hamingjusama.