05.

05.

FYRSTI KOSSINN

Ég man eftir því að hafa setið í skólastofunni og kvartað undan þreyttum fótum. Ég man hvernig þú bauðst ástúðlega til þess að nudda á mér fæturnar. Ég man hvað ég hikaði fyrst en sagði þó já. Ég man hvernig næstu daga urðum við sífellt nánari og þú bauðst til þess að færa mér kaffi, sækja mig fyrir skólann og keyra mig heim eftir langa daga á kappræðufundum. Ég man hvernig þú horfðir á mig svo innilega og beint í sálina og hvernig þú sendir mér heimskuleg smáskilaboð meðan kennarinn sá ekki til. Ég man eftir því að hafa farið heim á hverju kvöldi og segja vinkonum mínum frá því hversu góður og yndislegur þú værir og ég man eftir því hvernig þær flissuðu og spurðu mig hvenær brúðakaupið yrði. Þeim þótti svo augljós í hvað stefndi. Ég man hvernig eftir vikur og vikur af getgátum og augnagotum að þú bauðst mér í bíó og það fyrsta sem ég gerði var að senda vinkonum mínum skilaboð þess efnis, spurði í hverju ég ætti að vera og hvað ég ætti að segja, hvernig ég fórst úr spenningi og hvernig þeim fannst sem örlögin væru skrifuð í skýin. Ég man þegar við komum í kvikmyndahúsið og ég ætlaði að vera svaka flott, með veskið uppi og borga en þú þverneitaðir og borgaðir fyrir okkur bæði og mér fannst það sætt og herramannslegt. Ég man hvernig við vorum bæði blindfull af spenningi og hormónum, hvernig við gátum hvorugt haft augun á myndinni því athyglin var á því hvernig hendur okkar snertust á sætisarminum. Ég man hvernig ég hló innilega og brosti og hvernig við keyrðum inn í nóttina endilanga, í gegnum dúandi snjóflyksurnar og lögðum bílnum á kirkjugarðshæðinni sem snýr út að firðinum fagra. Ég man hvernig bæjarljósin lýstu upp nóttina og hvernig ljósið speglaðist í stóru, bláu augunum þínum. Ég man að ég hallaði mér þúsund sinnum fram yfir gírstöngina til að reyna að fá þig til að kyssa mig, hvernig ég beit í vörina tælandi og ég man það svo skýrt hvernig spennan magnaðist og akkúrat á því augnabliki sem þú hallaðir þér í áttina til mín og ætlaðir að kyssa mig að mamma þín hringdi og í óðagoti svaraðir þú símanum því mamma þín vildi fá þig heim. Ég man hvernig þú roðnaðir og varðst vandræðalegur og keyrðir mig heim og augnablik fyrsta kossins hafði fokið í vindinn.  Ég hugsaði með mér fjandakornið, ég sleppi honum ekki úr þessum bíl án þess að kyssa hann. Ég man hvernig lostinn greip mig og um leið og ég tók þessa ákvörðun varð ég eins og ljónynja á eftir bráðinni. Tilfinningin greip mig eins og stormsveipur og ég gat ekki annað en dýft mér af öllu afli ofan í þig allan. Ég man eftir mjúku vörunum þínum og tungunni og hvernig hamingjan sprakk innra með mér eins og stútfull blaðra af fiðrildum. Líkamar okkar titruðu og ég man þegar kossinum lauk og ég hallaði mér aftur með munúðarfullu augnaráði og nýfundinni virðingu fyrir eigin framsækni, þá brosti ég mínu lævísasta brosi og vissi að þarna hefði ég hankað þig um aldur og eilífð. Ég man hvernig ég steig út úr bílnum og skildi þig eftir í hálfgerðum lamasessi og gekk hægum, tælandi skrefum niður heimreiðina og vissi það mætavel að það eina sem þú gast horft á var rassinn á mér. Ég gerði það viljandi. Ég man þegar þú sagðir mér svo, nokkrum mánuðum síðar, að þú hefðir setið sleginn á bílastæðinu, gersamlega ófær um að hreyfa þig og keyrðir svo heim með stærðarinnar glotti og dillandi þér í sætinu.