MAROKKÓSKUR KJÚKLINGUR

MAROKKÓSKUR KJÚKLINGUR

Ég fékk einhverja svona sjúklega löngun í kjúkling með kryddum og döðlum um daginn. Þá fór ég á stúfana að finna einhverja djúsí uppskrift en fann enga sem heillaði mig alveg. Þá ákvað ég að búa til mína eigin uppskrift með því sem mig langaði að hafa!

Ég ákvað að hafa þetta í marrokkókóskum stíl. Það er eitthvað svo heillandi við svona framandi mat sem er stútfullur af brögðum og kryddum. Í miðausturlenskri og arabískri matargerð er mikið um þurrkaða ávexti, hnetur og grjón og notaði ég það sem innblástur í þennan ilmandi kjúkling!

Rétturinn samanstendur af hrísgrjónum, kjúkling og svo lauksósu með döðlum, kryddum, engifer og chilli og svo er rétturinn toppaður með muldum valhnetum og fersku kóríander, sem er klassískt í matarhefð Marokkó. Ég hef einu sinni borðað á veitingastað í Marokkó, þar sem við sátum á púðum á gólfinu, fengum te fyrir og eftir matinn, borðuðum allt með puttunum og á meðan við snæddum dönsuðu magadansara um salinn – ég sver þegar ég fann lyktina af lauknum og kryddinu langaði mig mest að panta flug aftur til Tangiers!

Marokkóskur kjúklingur (2-4)
6 kjúklingalundir
2 msk hveiti
15-20 döðlur
1 laukur
1 rauður chilli
2 hvítlauksrif
3 tsk kramið engifer
Sítrónusafi úr 1/4 af sítrónu
3 dl kjúklingasoð
1 1/2 dl kókósmjólk
Túrmerik
Kúmen
Kanill
Cayennepipar
Salt & pipar
Muldar valhnetur
Ferskur kóríander
1 dl hrísgrjón

Processed with Rookie Cam

Byrjið á því að hita víða pönnu á heitri hellu, með nóg af olíu. Til að gera kjúklinginn aðeins stökkari og gefa honum svolítið svona djúpsteikta áferð, byrjum við á því að salta hann og pipar. Síðan leggjum við kjúklinginn á disk og hveiti á annan disk. Þegar pannan er orðin heit og olía sjóðandi, lækkum við hitann aðeins á hellunni. IMG_2359Takið hverja lund fyrir sig og veltið henni upp úr hveitinu, þekið lundina alveg og leggið svo í olíuna á pönnunni. Síðan skal steikja lundinar á hvorri hlið svo þær verði fallega gullbrúnar, stökkar viðkomu en mjúkar í miðjuna. Þegar kjúklingur er eldaður er mikilvægt að athuga hvort hann sé tilbúinn áður en hann er borinn fram, gott að skera í gegnum eina til tvær lundir og sjá eldunina. Ef kjúklingurinn er hvergi bleikur, er hann tilbúinn!

Leggið kjúklinginn til hliðar á disk með álpappír yfir. Í litlum potti á heitri hellu, sjóðið 3 dl af vatni með 2 kjúklingakröftum, fyrir kjúklingasoðið. Skerið niður laukinn, eldipiparinn og döðlurnar. Hellið næstum allri olíunni af pönnunni, skiljið ca. 2 msk eftir. Setjið svo laukinn og eldipiparinn á pönnuna og steikið. Með hvítlaukspressu, pressið hvítlauksgeirana og engiferið út á pönnunna. Nú er að krydda!

IMG_2372

Þar sem ég er dassari af guðs náð, er ég ekki með hárnákvæmar mælieiningar á þessu.  Ég byrjaði á kúmeninu, þar sem það er svolítið biturt og það fóru þrjú góð döss úr þeim stauk. Næst fór cayennepiparinn, ekki nema tvö döss af honum, þar sem hann er mjög sterkur. IMG_2361Fallega, gula túrmerikið fór næst, þar fóru fjögur góð döss úr stauknum. Túrmerik er ekki bara gullfallegt og klassíkst í arabískri matargerð, heldur líka meinhollt! Svo skellti ég einni góðri teskeið af kanil á pönnuna, því næst klípu af salti og pipar. Hrærið þessu vel saman og blandið svo hægt og rólega kjúklingasoðinu út á, ca 1 dl í einu og hræra vel á milli. Smakkið soðið til og athugið hvort ykkur finnist eins og vanti meira krydd. Ég get svo svarið það að lyktin sem gusaði upp var ónáttúrulega góð! Öll þessi dásamlegu krydd!

IMG_2363Kreistið síðan safan úr einum sítrónubát yfir blönduna og hrærið vel. Smakkið aftur til því eftir að maður setur sýruna út í blönduna getur verið að maður vilji aðeins laga hana til með kryddum. Næst fer kókósmjólkin á pönnuna, hún gefur réttinum bæði rjómakennda áferð og ákveðna sætu.

Lækkið hitann á pönnunni töluvert og leyfið blöndunni að malla á lágum hita í smá stund. Á meðan er gott að sjóða hrísgrjónin en hræra allta vel í blöndunni, smakka til og svoleiðis.

Lokaskrefið er svo að steikja döðlurnar í blöndunni. Bætið þeim út á pönnuna og hækkið hitann aftur, kannski um 1-2 stillingar. Döðlurnar eru náttúrulega sykraðar svo þegar þær hitna og fara að sjóða lekur sykurinn úr þeim sem gerir blönduna klístraða og góða.IMG_2365
Sætan verður alls ekki yfirþyrmandi heldur tónar fallega með kryddunum okkar. Eftir nokkra stund, þegar blandan er orðin klístruð og góð, smakkaðu þá hana til í síðasta sinn, bættu því við sem þér finnst þurfa eða ekki!

Þegar hrísgrjónin eru klár er um að gera að leggja á borð, skera niður kóríanderinn og valhneturnar og búa sig undir ferðalag fyrir bragðlaukana! Berið kjúklinginn fram ofan á vænu beði af hrísgrjónum, hellið lauk- og döðlublöndunni yfir til að fá smá hita aftur í kjúklinginn, stráið svo valhnetunum og kóríanderinum yfir eftir smekk og njótið.

Að hætti Marokkóbúa snæddi ég þetta með puttunum, reyndar ekki sitjandi á gólfinu og fékk mér vænan bolla af fersku myntutei eftir á, þar sem það virkar örvandi fyrir meltinguna. Þetta er án efa einn besti réttur sem ég hef nokkurntímann eldað og þó hann virki flókinn er hann alveg gjörsamlega þess virði! Verði ykkur að góðu!

IMG_2377