FYRIRLESTUR UM EITTHVAÐ FALLEGT

FYRIRLESTUR UM EITTHVAÐ FALLEGT

Færslan er unnin í samráði við fulltrúa úr leikhópnum SmartíLab en eru skoðanir höfundarins eigin og endurspegla aðeins álti höfundar.

FYRIRLESTUR UM EITTHVAÐ FALLEGT

 Baldur stígur á svið og er að hefja fyrirlestur um nýjasta listaverk sitt. Hann finnur að eitthvað er ekki eins og það á að vera… hann frýs. Hann er að fá sitt fyrsta kvíðakast. Hann kíkir inn í heilann sinn og sér þá hvar stjórnstöðin er að bila.

  

Í vor var mér boðið að koma á nýja og framsækna sýningu á vegum leikhópsins SmartíLab en sýningin er titluð Fyrirlestur um eitthvað fallegt og fjallar á algjörlega einstakan hátt um þá fáránlegu, furðulegu og kímnu tilfinningu sem kvíðinn getur verið.

Nú hljómar það ekkert sérstaklega fyndið og skemmtilegt að skella sér á leiksýningu um kvíða á föstudagskvöldi og skella sér svo á barinn – en ég lofa ykkur góðri (og nokkuð þenkjandi) skemmtun á þessari sýningu. Leikhópnum tekst á einlægan og skorinorðan hátt að nálgast þennan kvíðasjúkdóminn í leikverkinu og koma öllum þeim flóknu og harla óútskýranlegu tilfinningum sem kvíðanum fylgja til skila áleiðis til áhorfenda.

Í leikverkinu fylgjumst við með fyrirnefndum Baldri en hann hefur sýninguna á því að kynna sig og afstætt listaverk hans sem hann hefur unnið að í marga mánuði. Þegar líða fer á ræðuhöld Baldurs fer að bera á líkamlegum einkennum kvíðans hjá honum – hröðum andardrætti, svita, andköfum, óróleika og flóttahneigð. Það er þá sem Baldur hverfur inn í sjálfan sig, inn í sinn eigin heila og þar hittum við fyrir allar mögulegar útgáfur af sjálfi Baldurs og sjáum hvernig þau takast á við kvíðann. Því eru allar persónur leikverksins í raun Baldur en á sama tíma endurspegla upplifanir þeirra kvíðann í okkur öllum. 

Ég veit, þetta hljómar ansi framsækið og ákaflega listrænt – en á einhvern hátt virkar þessi túlkun leikhópsins á kvíðanum fullkomlega. Kvíði spyr nefninlega ekki um aldur, kyn eða aðra hagi. Hann bíður ekki eftir einhverjum “fullkomnum” aðstæðum til að birtast, séu þær yfirleitt til, hann þvælist fyrir og fær allar mögulegar raddir í hausnum á manni til að fara á fullt. Kvíðinn heldur í höndina á efanum, þunglyndinu, sjálfsásökunum og óttanum.

Þessar marbrotnu útgáfur af kvíða Baldurs og túlkanir hvers og eins leikara á sinni útfærslu af kvíðanum heldur manni við efnið í gegnum sýninguna. Þó að leikmyndin sjálf sé ákaflega einföld, búningarnir og umfangið ekki mikið – þá tekst leikurunum með óyggjandi hætti að færa okkur úr einum aðstæðum í aðrar, inn og út úr heilabúi kvíðasjúklingsins og koma birtingarmyndum sjúkdómsins vel til skila. Í gegnum verkið má svo heyra þjála rödd þulu óma um salinn en verk þulunnar er að útskýra fyrir áhorfendum hvað kvíði er í raun og veru. Þulan bindur sýninguna saman, eins og maður sitji á biðstofunni hjá sála og gluggi í einhverja bleðla um hinar ýmsu geðraskanir á meðan maður ber sig sjálfan saman við dæmin sem maður les í bæklingunum.

Erum við ekki öll einhverntímann kvíðin?

Í raun eru til tvær birtingamyndir kvíða – eðlilegur og óeðlilegur kvíði. Munurinn á þessum tveim birtingarmyndum kvíðans eru teknar fyrir og útskýrðar á einfaldan og auðskiljanlegan hátt í leikverkinu, en í grófum dráttum er eðlilegur kvíði það sem gæti jú, talist eðlilegt og óeðlilegur þá sá ótti og kvíði sem á sér ef til vill engar stoðir í raunveruleikanum. Kvíðinn er frumstætt viðbragð heilans og náskyldur óttanum við það sem við þekkjum ekki. Kvíðinn hefur í aldanna rás hjálpað manneskjunni að forðast það sem hún ætti helst að forðast – ef þú stæðir t.d. andspætt öskrandi ljóni væri kvíðinn líklegur til að kikka inn og aðstoða þig við að þekkja hætturnar og komast hjá þeim. Þegar kvíði verður óeðlilegur er það einfaldlega vegna þess að hann tengist ótta yfir einhverju sem er manneskjunni eðlilegt að óttast ekki. 

Sjálf hef ég glímt við þunglyndi og kvíða, og mér hefur aldrei tekist sjálfri að koma þeirri lífsreynslu frá mér í gengum húmor eða gamanleik. Mín listræna tjáning felst í fræðslu, textaskrifum og úrvinnslu hugsana í alvarlegra samhengi. Þess vegna finnst mér alltaf svo frábært að sjá svona verk sem ná að taka eitthvað grafalvarlegt mál, eins og sjúkdóminn kvíða, og sjá á honum skondnar hliðar. Það er nefninlega mjög auðvelt, þegar maður er ekki kvíðinn, að hneykslast yfir því sem kvíðasjúklingar eru að glíma við. Það er meira að segja auðvelt að vera vitur eftir á og hlæja að sjálfum sér, þegar kvíðakastið er liðið hjá. Fyrirlestur um eitthvað fallegt er svo fullkomið hjónaband hláturs og gráturs – því að snertir á jafn marga tilfinningalega strengi og það kitlar hláturtaugar.

Þó ég sé ekki sjálf lærður leikhúsgagnrýnandi get ég með sanni sagt að ég hafði dálæti af þessari sýningu og er sjálf að hugsa um að skella mér jafnvel aftur á hana, svo skemmtileg og fræðandi var hún. Leikararnir stóðu sig allir stórkostlega vel í sínum hlutverkum en þótti mér túlkun Hannesar Óla á hinum “upprunalega” Baldri bera fram af, sem og innslag Agnesar Wild á líkamlegum einkennum kvíða. Það var sláandi að sjá hana standa eina á miðju sviði og klemma í sig hverja þvottaklemmuna af annarri. Það var aðallega erfitt fyrir mig persónulega, því þessi sýn lýsti mínum líkamlegu kvíðaeinkennum svo upp á hár – sársaukafullur doði í líkamanum sem ágerist og ágerist við hverja hugsun (eða hverja klemmu). Guðmundur Felixsson fór á kostum sem “ofurhetjan” Kvíðamaðurinn og Sigrún Huld var bráðfyndin í hlutverki óákveðnu stúlkunnar á stefnumótinu. Sú sena var líklegast sú sem flestir gætu tengt við sem og svefnleysi persónu Kjartans Darra. 

Allar umfjallanir um hið mannlega eðli og breytni manneskjunnar eru af því góða. Slíkar umfjallanir hjálpa til í hinu stóra samhengi og á geðfræðsla erindi við alla, hvort sem þeir eru sjálfir sjúklingar eða ekki. Túlkanir eins og þessar, sem eru alvarlegar en settar fram í húmor og gleði, eru stórkostleg leið til að fræða almenning og aðstandendur um sjúkdóminn sem kvíðinn er. Túlkun SmartíLab á umfangsefninu vekur mann til umhugsunar og svarar allskonar spurningum, útskýrir feiknavel hvernig það er að eiga við kvíða og á sama tíma gera túlkendur verksins léttgeggjað grín að því hversu fáranlega fyndið, asnalegt, furðulegt, heimskulegt og beinlínis ótrúlegt það getur verið að vera kvíðasjúklingur.

Ég mæli eindregið með þessari sýningu og mæli með að fólk fari að fylgjast grannt með SmartíLab hópnum en hópurinn samanstendur af bráðsnjöllum og upprennandi stjörnum í íslensku leikhúslífi í dag. Verk þeirra hafa einstakan húmor sem ekki verður leikinn eftir og eru þau einn þeirra litlu leikhópa sem þora og er ég viss um að við eigum eftir að sjá meira af krefjandi, framsæknu og alvarlegu en í senn gamansömu efni.

Fyrirlestur um eitthvað fallegt er til sýningar í Tjarnarbíó dagana 15. – 24.september 2017 svo nú fer hver að vera síðastur að næla sér í miða á þetta stórskemmtilega og áhugaverða leikverk. Þið getið nálgast miða hér eða hér, eða hringt í síma 527-2100 og tryggt ykkur miða.