04.

04.

ÁTJÁNDI JÚNÍ 

Ég man að ég hringdi í þig þetta sólríka eftirmiðdegi, skjálfandi á beinunum og grátandi. Ég gat varla slegið inn rétt númer á símann. Ég man hvernig ég hugsaði til þess í geðshræringunni að nýrun á mér væru að gefa sig og ef þú myndir ekki svara strax, ef þú værir kannski í vinnunni, þá myndi ég deyja. Ég vonaði að þú myndir svara símanum, eða ég held það allaveganna. Ég man hvernig allt gerðist svo ótrúlega hratt en á sama tíma löturhægt, eins og tíminn hefði stöðvast. Ég man þegar þú svaraðir símanum og ég heyrði það greinilega að á því augnabliki sem þú heilsaðir mér, vissirðu hvernig var í pottinn búið. Ég man hvernig ég reyndi mitt allra besta að halda ró minni og útskýra milli ekkasoganna að ég þyrfti að fara á spítalann. Ég man að þú sagðir mér að anda og vera grafkyrr, ekki örvænta og að þú værir á leiðinni. Ég man hvernig ég hneig á gólfið umvafin óttanum einum og afleiðingum gjörða minna. Ég man hvernig þú síðar birtist í herberginu mínu, eftir árafjöld en þó á sömu sekúndunni, grátandi sárum tárum og öskrandi á mig í örvinglun. Þú öskraðir á mig að þú gætir þetta ekki ein og ég mætti ekki fara frá þér, ekki svona, ekki svona. Ég man að þú sagðir við mig í gegnum tárin, í tón sem ég tengi við þig og ákveðni þína, að ég mætti ekki skilja þig eftir svona. Ég man að ég hugsaði með mér hversu innilega þú hefðir rétt fyrir þér en sú hugsun var sat ekki lengi því sársaukinn bar mig ofurliði og ég óskaði þess einskis heitar en að honum linnti. Ég man hvernig kvíðinn lamaði mig á meðan þú hélst mér fast að barmi þínum, að hjarta þínu, tárin runnu í fossum niður kinnar þínar, í gullið hárið mitt, við titruðum báðar. Ég man ekki hvað gerðist næst. Ég man ekkert fyrr en ég vaknaði á spítalanum, vitandi hvernig þú hélst í höndina á mér og utan um anda minn, allan tímann. Ég man hversu hræðilega illa mér leið á sama tíma og ég vissi að ég elskaði þig þá, meira en ég gat nokkurn tíman elskað sjálfa mig. Ég man það og hugsa til þess dag hvern, hvernig ég á þér lífið að launa.