03.

03.

SÖNGUR UM SVARTA FUGLA 

Ég man svo vel eftir því hvernig það var þegar ég sá þig í fyrsta sinn. Mér fannst þú vera fallegasta, myndarlegasta og mest heillandi manneskja sem ég hafði augum litið. Þú hafðir þetta þykka, kastaníubrúna hár, fallega mótað nef sem var jafn krúttlegt og það var tignarlegt og tennurnar, skjannahvítar, skinu eins og stjörnur í gegnum næturhimin þegar þú brostir. Ég man eftir stórskrítinni kímnigáfunni og heimskulegu bröndurunum sem ég hló alltaf að, sama hversu ömurlega hallærislegir þeir voru því ég var svo ógeðslega skotin í þér. Ég man hvernig þú sast gegnt mér á hvíta Ikeasófanum inn í unglingaherbergi vinkonu okkar. Það var sumar, við vorum ung, ég man að sólin skein í gegnum næfuþunnar gardínurnar og hvernig sólargeislarnir urðu rauðleitari því lengra sem leið á nóttina. Ég man hvernig vinir okkar, einn af öðrum, tóku að hverfa úr herberginu, sennilega vegna þess þau voru meðvituð um það að við sáum bara hvort annað og ekkert annað í kringum okkur. Ég man að ég gat ekki hugsað um neitt annað en þig. Ég man hvernig ég starði á þig forviða og þú til baka. Svo sagðir þú eitthvað heimskulegt um veðrið og ég hló að þér, að vanda. Ég man hvernig þú tókst upp gítarinn og hjartað mitt ætlaði úr brjóstinu. Ég man hvað ég var óreynd  og vitlaus, kannski meira barnaleg og fannst eins og listaspýrur sem spiluðu á gítar væru það eina sem ég þráði í lífinu. Ég man hvernig hjartað barst um, ég man hvernig ég svitnaði og andardrátturinn var örari því við vorum bara unglingar og í þá daga þurfti lítið til, til að kveikja djúpstæða, eldheita ástarblossa. Þú spilaðir, man ég, lagið ´Blackbird´ með Bítlunum og söngst með. Ég man eftir litla, laumulega glottinu þínu sem mætti mér þegar þú leist upp frá gítarnum og á mig, þar sem ég sat á rúmbríkinni, með hendurnar undir lærunum, full af þrá. Ég man hvernig ég hugsaði til þess að ég skyldi ekki yfirgefa herbergið án þess að kyssa þig. Seinna um nóttina, ég man að það var nánast morgun, gekk ég heim í sumarsólinni og hugsaði um þig allan tímann, alveg þangað til ég lagði höfuðið á koddann og eyddi nóttinni dreymandi, svífandi um á bleiku skýji í fanginu á þér. Ég man að ég bölvaði sjálfri mér fyrir að hafa ekki stokkið á þig og kysst þig. Ég man ég ákvað að næst skyldi ég láta verða af því.