ÞAÐ SEM RITHÖFUNDUR MAN

ÞAÐ SEM RITHÖFUNDUR MAN

Rithöfundurinn Mik Everett á heiðurinn af þessari ljóðrænu og fleygu tilvitnun. Ég man ekki hvar eða hvenær ég sá þessa tilvitnun fyrst, en eitthvað við hana ríghélt í mig. Kannski af því mér finnst ég svo mikið skáld, kannski vegna þess að ég skrifa niður alla mögulega hluti og geymi minningar í orðum, þéttskrifuðum glósubókum, gömlum bloggsíðum og dagbókum. Ég er svona ein af þeim sem elska að fylgjast með fólki, samskiptum og litlum kækjum þeirra sem ég umgengst. Algjört skáld, þið skiljið…

Ég tók svo þessa tilvitnun og gerði úr henni seríu lítilla ör- og smásagna um hina ýmsu hluti sem ég, rithöfundurinn, man um fólkið sem mér þykir vænt um. Hvað er það sem situr eftir, mörgum árum seinna, þegar minningum fer að skola til og þeir sem maður eitt sinn elskaði eru nú kannski ekkert annað en ókunnugt fólk?

Í þessum örsögum sem ég birti hér er að finna þessar litlu minningar, þessa litlu skemmtilegu hluti sem einhverra hluta vegna skilja eftir sig spor í huga manns og hjarta. Þær eru gjarnan handahófskenndar, furðulegar og óskiljanlegar. Þær eru líka alveg óritskoðaðar og koma beint frá hjartanu. Stundum eru þær fyndnar, öðrum skiptum sorglegar. Þær eru þó alltaf tilraun mín til að halda þeim lifandi í minningunni, sem ég hef elskað og þekkt.