TEDX FYRIRLESTUR

TEDX FYRIRLESTUR

THE TABOO OF DEPRESSION 

Á vormánuðum 2014 var ég þeirra forréttinda aðnjótandi að fá að halda erindi á TEDxReykjavík ráðstefnunni sem var haldin í Eldborgarsal Hörpu.

TED-fyrirlestrarnir og fyrirkomulag þeirra er eitthvað sem allir með nettengingu ættu að kannast við. TED eru samtök sem standa fyrir árlegum ráðstefnum þar sem yfirskriftin er einfaldlega “Ideas worth spreading”. TED er skammstöfun fyrir Technology, Entertainment and Design og voru fyrstu fyrirlestraraðirnar stílaðar inn á tæknivæddan markhóp Sílíkondalsins í Los Angeles. Fyrst ráðstefnan var haldin árið 1990 og hafa fleiri ráðstefnur í anda TED sprottið upp um allan heim. TED-hugtakið er komið töluvert frá uppruna sínum í tækniheiminum og eru nú fyrirlesararnir og efni fyrirlestranna þeirra eins fjölbreyttir og misjafnir og þeir eru margir.

TEDx viðburðir eru síðan aftur á móti minni ráðstefnur og fyrirlestraraðir sem skipulagðar eru af sjálfboðaliðum um allan heim og er hópur slíkra eldhuga starfandi ár hvert í Reykjavík. TEDxReykjavík hefur verið haldið árlega (að undanskildu 2010) síðan árið 2009. Næsti viðburður þeirra lofar góðu og er hægt að nálgast miða á hann hér.

 

Ég hafði séð marga mjög góða TED-fyrirlestra en það er gnægð af þeim um allt alnetið, bæði á heimasíðu TED og TEDx, sem og Youtube, samfélagsmiðlum og fréttum. Ég varð strax heilluð af þessu fyrirkomulagi – að heyra fólk með allskonar ólíkar reynslur og upplifanir koma saman og deila með samferðafólki sínu þeirra hugmyndum. Ég vissi síðan af því að slíkur viðburður hafði verið haldinn í Reykjavík árið áður þar sem Sigríður María talaði um þriggja kynslóða kenninguna og hlaut mikið lof fyrir.

Ég hafði verið að halda fyrirlestra í grunnskólum heima á Akureyri um málefni andlegrar heilsu en sá mér þarna leik á borði og fannst þetta kjörið tækifæri til að breiða út boðskapinn á víðari velli. Ég hafði samband við skipuleggjendur ráðstefnunnar og bar upp erindi mitt við þau. Eftir nokkra fundi og útfærslur var samþykkt að ég fengi kortérserindi á ráðstefnunni sem haldin yrði haldin í maí árið 2014. Þarna var tæpt ár liðið frá því að ég kom út af geðdeildinni eftir sjálfsvígstilraunina og var þessi fyrirlestur ágætis bataleið fyrir mig og gott tækifæri til að skrifa niður og vinna á tilfinningunum sem ég kom ekki orðum um, á sama tíma og ég vonaðist til þess að vekja fólk til umhugsunar um málefni andlegrar heilsu.

Úr varð þessi fyrirlestur sem ber titilinn „The Taboo of Depression“ eða „Hið bannhelga þunglyndi“ á okkar ylhýra. Ég er gríðarlega stolt af þessum fyrirlestri sem nú er komin með tæp 95.000 áhorf á Youtube. Ég er búin að lofa því að skella í risaveislu með kampavíni og tilheyrandi, þegar ég næ í 100.000 áhorf!

Ég byggði þennan fyrirlestur á minni eigin reynslu af þunglyndi og sjálfsvígshugsunum, sem og samtölum við mína sálfræðinga og vini sem eiga við andleg veikindi að etja. Í honum set ég fram einfaldar hugmyndir um það hvernig við tölum um andlega heilsu á móti okkar líkamlega formi og hvernig hægt er að uppræta fordóma samfélagsins í garð geðsjúkra og hvernig má bæta lífsgæði samfélagsins til muna með því einu að breyta hugsunargangi okkar.

Þessi fyrirlestur hefur svo verið mér innblástur í öðrum erindum sem ég hef haldið, bæði á íslensku og ensku. Hafir þú áhuga á að bóka fyrirlestur í skólann, fyrirtækið eða samkomuna getur þú skoðað meira hér.