WILD

WILD

WILD EFTIR CHERYL STRAYED

Ég las bókina Wild eftir Cheryl Strayed í fyrra sumar en áður en mér var bent á að lesa hana hafði ég heyrt á hana minnst og hafði séð stikluna úr kvikmyndinni sem var gerð eftir bókinni, þar sem Reese Witherspoon framleiðir og leikur aðalhlutverkið. Í sannleikanum sagt var ég ekki neitt sérstaklega hrifn af sögunni svona við fyrstu sýn og heillaðist alls ekki af viðfangsefninu.

Þessi saga er þessi klassíska „leitin að sjálfri mér-ferðalagið“ þar sem aðalpersónan yfirgefur sitt daglega líf fyrir eitthvað framandi ævintýri og segir okkur svo frá því hvað hún lærði á ferðalagi sínu. Ég hélt að þetta yrði önnur Eat, Pray, Love vella – einhver „kerlingamynd/bók“ þar sem aðalpersónan er ung, hvít kona af vestrænum uppruna, fædd og uppalin í vellystingum og forréttindastöðu, sem lendir í einhverju áfalli (yfirleitt skilnaði eða sambandsslitum) og ákveður að ferðast á framandi (yfirleitt asískar/austurlenskar) slóðir til þess að leita að og finna sjálfa sig, hamingjuna og það sem virkilega skiptir máli í lífinu. Svona sögur eiga það til að verða fljótt klisjukenndar og tilgerðarlegar þar sem einhverri hvítþveginni austurlenskri speki er varpað til lesenda og á manni að líða eins og veröld manns hafi umturnast við lesturinn. Já, ég sem sagt dæmdi þessa bók mjög harkalega af kápunni (og því sem ég las aftan á henni).

Það sem fékk mig til að gefa Cheryl Strayed og villta ævintýrinu hennar annan séns var þegar góður vinur og rithöfundur mælti með henni við mig og sagði að skrifin gætu orðið mér innblástur í mínum eigin verkum, þar sem frásagnartækni okkar Cheryl væri ákaflega svipuð. Ég ákvað því að lesa hana með opnum huga og það leið ekki á löngu þangað til Wild var orðin ein af mínum uppáhaldsbókum.

Það var eitthvað við frásagnastílinn hennar Strayed sem náði mér strax. Það var eitthvað við þennan lestur sem sat í mér og þetta var ein af þeim bókum sem ég gat ekki lagt frá mér. Ég var með Kyndilinn á mér öllum stundum, í strætó, í vinnunni, upp í rúmi, í baðinu og bílnum, svo heilluð var ég af skrifunum.

There were so many other amazing things in this world. They opened up inside of me like a river.

Bókin er nokkurskonar sjálfsævisaga. Hún er í grunninn frásögn Cheryl sjálfrar af sumrinu 1995 þegar hún ákvað að ganga eina mest krefjandi fjallgönguleið í Norður-Ameríku, sem kallast The Pacific Crest Trail, en leiðin er rúmlega 1770 km löng og þræðir snæviþakkta fjallgarða, eyðimerkur, skóga og fjölbreytt landslag frá Mojave eyðimörkinni, til Californiu í gegnum Oregon og að The Bridge of the Gods í Washington. Í gegnum gönguna fléttar Cheryl snilldarlega inn endurminningar og sögur úr fortíðinni, sem tengjast á einn eða annan hátt ástandi hennar og hugsanagangi á hverjum tíma, og úr verður átakanleg en falleg saga um hina mannlegu reynslu og sálarlíf ungrar konu í sorg.

Það einstaka við ákvörðun Cheryl að ganga þessa leið, hinsvegar, er sú staðreynd að hún var heróínfíkill og kynlífssjúlkingur, á barmi skilnaðar og nýbúin að missa móður sína, sem og hún var alls engin göngugarpur og hafði aldrei lagt svona mikið líkamlegt erfiði á sig. Hún renndi algjörlega blint í sjóinn af einskærri örvæntingu og ráðaleysi.

Of all the things I’d been skeptical about, I didn’t feel skeptical about this: the wilderness had a clarity that included me.

Cheryl var ekki nema 22 ára þegar móðir hennar, sem hún var mjög náin og talar fallega um í sögunni, lést langt fyrir aldur fram úr krabbameini aðeins 45 ára gömul. Í kjölfar andláts hennar verður samband Cheryl við systkini sín tvö og stjúpföður sinn æ stopulla. Að endingu hverfur stjúpfaðir hennar, sem átti stóran þátt í uppeldi barnanna, úr lífi þeirra systkina og Cheryl missir alla tengingu við sitt fyrra sjálf og lífið sem hún þekkti. Hún hafði gifst ung en í sorginni sneri hún sér að áfengi, tilfinningalausu kynlífi með ókunnugum og heróínfíkn. Eftir þessi stanslausu framhjáhöld og morgna þar sem eiturlyfin seytluðu úr líkamanum á henni í svitaperlum, þar sem hún lá týnd á skítugri dýnu í ókunnugu greni, ákveða hún og maðurinn hennar að skilja. Cheryl, þá orðin 26 ára, ráfaði um stefnulaus og hafði enn ekki tekist á við sorgina, móðurmissinn og angistina sem þjakaði hana og var það þá sem hún rak augun í leiðsögubók um The Pacific Crest Trail, greip hana úr hillunni og ákvað að hún skyldi ganga þessa leið.

I didn’t get to grow up and pull away from her and bitch about her with my friends and confront her about the things I’d wished she’d done differently and then get older and understand that she had done the best she could and realize that what she had done was pretty damn good and take her fully back into my arms again. Her death had obliterated that. It had obliterated me. It had cut me short at the very height of my youthful arrogance. It had forced me to instantly grow up and forgive her every motherly fault at the same time that it kept me forever a child, my life both ended and begun in that premature place where we’d left off. She was my mother, but I was motherless. I was trapped by her, but utterly alone. She would always be the empty bowl that no one could full. I’d have to fill it myself again and again and again.

Það sem hélt mér svo innilega við efnið, þrátt fyrir að hafa mínar skoðanir á þessum „leitin að sjáfri mér“-sögum, var að ég tengdi svo innilega við kjarnann í sögunni og boðskap Cheryl. Henni tekst að fanga mannlega breytni og hugsun á öfgakenndan en heillandi hátt – hún segir umbúðalaust frá öllu því sem olli því að hún ákvað að ganga þessa leið og lýsir því hvernig hugsanagangur hennar breyttist með því að eyða svona miklum tíma ein með sjálfri sér, á gangi í framandi náttúru, þjökuð af andlegum sársauka sem og líkamlegum. Ég hef kannski ekki lent í jafn dramatískum breytingum í mínu lífi en á sama hátt skil ég svo vel tilfinninguna að líða eins og fótunum hafi verið kippt undan manni og lífið eins og maður hafði áður þekkt það er gersamlega runnið manni úr greipum. Ég skil flóttann, að vilja hverfa sem lengst frá draugum fortíðar og finna sér nýtt sjálf einhverstaðar í fjarlægð frá allri þeirri orðræðu og þeim fyrirframtilbúnu hugmyndum um hver það er sem maður er, sem gjarnan fylgja manni í fortíðinni. Ég flutti reyndar bara frá Akureyri til Reykjavíkur, var ekki alveg jafn afdrifarík í mínum flótta og Cheryl, en ég skil þessa tilfinningu mjög vel engu að síður.

Það skemmir ekki fyrir hversu djúpstæður og einlægur frásagnarstíllinn hennar Strayed er og hvernig hún fer með orðin sem hún velur til frásagnarinnar. Sumar setningarnar eru þess eðlis að manni langar að handmata sig með þeim, láta hvert einasta orð sitja á tungunni og draga í sig merkingu þeirra, aftur og aftur og aftur. Boðskapurinn er alls ekki tilgerðarlegur eða lítillækkandi á neinn hátt – Cheryl setur sig aldrei á háan hest eða lofsyngur þessa ákvörðun sína – heldur spyr hún spurninga um lífið, tilveruna og mannlegt eðli án þess oft að fá svör við þeim og þannig er hin mannlega reynsla. Við erum öll að reyna að finna okkar veg og það er með öllu óþarft að upphefja eða sykurhúða sálarlíf manneskjunnar sem ákveður að finna sitt innra sjálf. Hún þykist aldrei vera betri en við hin sem við lesturinn sitjum, heldur kennir þessi reynsla henni auðmýkt og neyðir hana til að viðurkenna sína verstu galla.

I’d finally come to understand what it had been: a yearning for a way out, when actually what I wanted to find was a way in. I was there now, or close.

Ég held að það sem hjálpi sögunni mest er hversu þroskuð frásögnin er og hversu greinilega má lesa það úr henni að Strayed tók meðvitaða ákvörðun að gefa hana út 17 árum eftir að göngunni lauk. Á þessum 17 árum sem líða hefur hún öðlast ákveðið æðruleysi og nógu góða fjarlægð andlega, til að glæða söguna því lífi og þeim boðskap sem hún hefur að geyma. Hún segir sjálf í sögunni að hún hafi sífellt verið að leita að flóttaleið, leiðinni út úr vandamálinu, út úr sjálfri sér en í raunni fann hún það sem hún hafði alltaf leitað að og þráð – leiðin inn á við.

Tengingin við náttúruna er áberandi og er Pacific Crest-slóðinn í rauninni sögupersóna útaf fyrir sjálfa sig. Strayed persónugerir slóðann á afgerandi máta og lýsir náttúrunni, fegurð hennar og illsku, í tilkomumiklum orðum. Hún sneiðir hinsvegar heldur ekki framhjá því að móðir náttúra getur verið algjör herfa á köflum og sýnir Cheryl okkur sársaukan, einmannleikan og kaldrifjaðar morðtilraunir af náttúrunnar hendi. Á vegi hennar verða allskonar dýr, stór og smá, allskonar erfiðleikar og hindranir, líkamlegar sem andlegar og hún tekst á við þær allar með blóðugum fótum, nuddsárum á mjaðmabeinum og öxlum og gefur ekkert eftir í sálarskoðun sinni.

What a mountain was and what a desert was were not the only things I had not expected. I hadn’t expected the flesh on my tailbone and hips and the fronts of my shoulders to bleed.

Hún talar oft um það hversu reiðubúin hún var að ganga þessa göngu ein, hversu reiðubúin hún var að yfirgefa siðmenninguna og hverfa á vit ævintýranna og hvernig hún ætlaði með viljanum einum að klára þessa göngu. Strayed hafði hinsvegar ekki búist við því hversu líkamlega krefjandi þessi ganga yrði og hversu átakanleg meiðsli hún mætti þola. Hún var undirbúin undir það að sjá hvorki né heyra í annarri lifandi manneskju allan þennan tíma, og var það ef til vill það sem hún sóttist eftir, en henni óraði ekki fyrir því að ganga um fjallgarða berum fótum, að týnast í reiðileysi, sofa í þunnu kúlutjaldi í gegnum snjóstorma og rigningu, að hún fengi blæðandi sár inn að beinum hvar sem er á líkamanum, að hún yrði dögunum saman án vatns og fæðu og að allur skrokkurinn myndi verkja undan níðþungum bakpokanum, ósofin og óþvegin.

Ég var einhvernveginn alltaf að búast við því, í hvert skipti sem Cheryl komst á næsta áfangastað í mannabyggðum eða í hvíld frá óbyggðum í löngu týndum gönguskálum, að nú myndi hún annað hvort snúa við eða forða sér af slóðanum. Hún talar oft um það sjálf, hversu oft og mörgum sinnum hún efaðist um ákvörðun sína, um getu sína, um sál sína og líf en alltaf hélt hún ótrauð áfram. Hún tók í rauninni líkamlega sársaukanum fagnandi eins og hún gerði þeim andlega, því henni leið eins og að ef hún gæti sigrast á þessu væru henni allir vegir færir. Ef hún gæti gengið þennan slóða til enda, sigrast á sínum fíknum og sætt sig við andlát móður sinnar og hvert líf hennar stefndi – með blóði, svita og tárum – er bókstaflega ekkert annað í þessum heimi sem ekki er sigrandi. Það er þessi staðfesta Cheryl, æpandi hugrekkið og eldmóður hennar til að halda ótrauð áfram er það sem rígheldur manni við lesturinn og fær mann í raunninni til þess að langa að takast á við sína eigin djöfla af slíkri trúfestu og þrjósku. Hún fær mann jafnvel til að vilja gerast göngugarpur og sækja The Pacific Crest Trail heim.

What if I forgave myself? I thought. What if I forgave myself even though I’d done something I shouldn’t have? What if I was a liar and a cheat and there was no excuse for what I’d done other than because it was what I wanted and needed to do?…What if I was never redeemed? What if I already was? 

Það er því óhætt að segja að sagan nái að vera djúpstæð og mennsk, þrátt fyrir að vera í grunninn saga ungrar, hvítrar konu í leit að sjálfri sér eftir áföll og sorg. Það sem er þó alveg einstakt við þessa sögu er kannski sú staðreynd að Cheryl leitar ekki í „orientalisma“ og sækist ekki eftir því að finna einhverja dularfulla visku í austurlöndum fjær eins og frægt er orðið með vesturlandabúa. Hún sækir ekki fróun í einhverja fjöldaframleidda, hvítþvegna speki og spiritual-ferðamennsku heldur sækir í óforskammaða ameríska náttúruna sem gefur ekkert eftir og fer ekki með þig eins og blóm í eggi. Cheryl leitaði eftir því að vera ein, ein með sjálfri sér og sínum hugsunum, og upp á enga aðra komin en sjálfa sig. Hún þurfti ekki að heyra af þjáningum annarra heldur takast á við sínar eigin. Hún yrði að stóla á sjálfa sig og þrátt fyrir að vera brotin og óhamingjusöm, þurfti hún að beita allri sinni útsjónarsemi og kænsku til að hafa þessa göngu af. Hún viðurkenndi að þetta væri flótti, flótti frá raunveruleikanum, frá vinum hennar og vandamönnum, flótti frá því sem hún þekkti sem sitt líf en hún vissi að hún gæti aldrei flúið sín raunverulegu vandamál. Hún flúði því fíknina sína og allar þær hækjur sem hún treysti á í raunveruleikanum til að standa nakin í náttúrunni og í rauninni, neyðast til þess að leita inn á við og vinna úr sorginni. Úr flóttanum varð raunveruleikinn sem hún hafði alltaf leitað að.

 I knew that if I allowed fear to overtake me, my journey was doomed. Fear, to a great extent, is born of a story we tell ourselves, and so I chose to tell myself a different story from the one women are told. I decided I was safe. I was strong. I was brave. Nothing could vanquish me.

Það sem er líka algjörlega einstakt við þessa sögu er líka að aðalpersónan er kona og hér er að ræða um algerlega kvenlæga upplifun á þessari klassísku maður-á-móti-náttúrunni/leitin að sjálfinu sögunni. Hún er því mikilvæg fyrir konur að eiga og lesa en ekki bara vegna þess þó að hún er kvenlæg saga. Hún á erindi til allra, karla sem kvenna og allra þar á milli því hún gefur nýja nálgun og fallega innsýn í mannlegt eðli, ferðalög og sorg – hvernig við tökumst öll á við hana á okkar eigin hátt og hvernig við getum dregið af henni lærdóm og haldið lífinu áfram. Hún er mikilvæg lesning fyrir alla þá sem leita að sjálfum sér eða einhverjum æðri mætti, einhverjum boðskap sem situr eftir, því hún segir okkur að stundum er boðskapurinn einfaldlega sá að hlutirnir gerast, þeir gerast af ástæðu en stundum skiljum við þá ekki, lífið er ósanngjarnt en lífið heldur áfram.

There’s no way to know what makes one thing happen and not another. What leads to what? What destroys what? What causes what to flourish or die or take another course.

Kvikmyndin bætir litlu við bókina og er í raun eins og rosalega langt kynningarmyndband fyrir bókina sjálfa. Kvikmyndin nær ekki að fanga mann á jafn afgerandi hátt og bókin sjálf. Þessi aðlögun er ein þeirra þar sem ég er viss um að hefði ég séð myndina áður en ég las bókina, hefði ég ekki nennt að lesa hana. Hún er vissulega mjög gleðjandi fyrir augað, kvikmyndatakan er frumleg og fangar viðfangsefnið á heillandi máta. Reese Witherspoon stendur sig vel í hlutverki Cheryl en að sama skapi er hún fegruð og ákveðin glansmynd dregin af henni, svo mikið er tekið af raunverulegri baráttu Cheryl við grimmdina sem náttúran hefur að geyma. Vitaskuld sleppti hún líka úr skemmtilegum og mikilvægum köflum og er framvinda kvikmyndarinnar þess eðlis að því fæst ekki betur lýst en með þessu – þetta er ein rosalega löng stikla. Ef þú hefur lesið bókina skilurðu myndmálið og texta myndarinnar betur en án þess að hafa texta bókarinnar til hliðsjónar skilur maður lítið vitjanirnar í hana og tilgangur frásagnarinnar týnist. Þetta gæti fallið undir hið löngu leiða rifrildi um hvort sé nú betra, bókin eða bíómyndin, og bækurnar hafa alltaf vinningin. Ég segi ekki að þessi kvikmynd sem slík sé slæm, langt því frá. Hún stenst hinsvegar því miður ekki þær væntingar sem maður hafði eftir lesturinn þar sem hvert einasta orð hélt manni föstum.

And, most surprising of all, that I could carry it. That I could bear, the unbearable.

Í þetta skiptið verð ég því að mæla með að lesa bókina. Ég get hiklaust hælt þessari stórbrotnu frásögn og mun klárlega lesa hana aftur seinna. Ég geymi nokkrar tilvitnanir úr henni og fer reglulega yfir þær, ekki bara vegna þess að ég elska tungumál og setningarfræði, heldur líka vegna þessa að boðskapur þeirra er svo tær og einlægur.

How wild it was, to let it be.