FURIOUSLY HAPPY

FURIOUSLY HAPPY

FURIOUSLY HAPPY EFTIR JENNY LAWSON

Depression is like … when you don’t want cheese anymore. Even though it’s cheese. 

Það var fullkomin tilviljun að ég rakst á þessa frábæru bók, Furiously Happy, eftir Jenny Lawson. Ég var nýbúin að hlaða niður einhverju hljóðbókarappi, því ég get ekki sofnað nema með eitthvað í eyrunum, og sem ég var að fletta í gegnum ókeypis sýnishornin, rak ég augun í þennan titil. Það var eitthvað við þennan tryllingslega þvottabjörn á bókarkápunni og æstan titilinn sem fékk mig til að hlusta. Jenny sjálf les inn á hljóðbókina og var hljóðbúturinn úr fyrsta kafla bókarinnar eftirfarandi:

I’m fucking done with sadness, and I don’t know what’s up the ass of the universe lately but I’ve HAD IT. I AM GOING TO BE FURIOUSLY HAPPY, OUT OF SHEER SPITE. … I’m going to destroy the goddamn universe with my irrational joy…

Ég vissi strax að ég þyrfti að lesa meira. Ég tengdi við höfundinn og viðfangsefnið strax, því við Jenny eigum það sameiginlegt að vera þunglyndissjúklingar. Ég hinsvegar á það til að taka sjálfa mig of alvarlega og hef einhvernveginn aldrei náð að fullkomna þennan gálgahúmor sem fólk eins og Jenny sér í sínum veikindum. Bókin er um þunglyndi, kvíða og hvernig það er að vera með bilaðan heila sem lætur eins og fáviti. Hún er samansafn smásagna og svokallaðra smáritgerða (e.essay) úr lífi Jennyar og hvernig hún hefur lifað af til þessa, þrátt fyrir veikindi sín.

Þetta er í grunninn stórskemmtileg bók um allskostar ekki stórskemmtilegt viðfangsefni. Hún er ótrúlega fyndin en sorgleg á köflum, fræðandi og fyrst og fremst hugvekjandi. Sem þunglyndissjúklingur gat ég setið, lesið og hlegið mig máttlausa í svona „þetta-er-svo-fyndið-af-því-þetta-er-satt“-geðshræringu. Upphátt meira að segja. Ég get hinsvegar líka vel ímyndað mér að þeir sem aldrei hafa glímt við andleg veikindi gætu notað skrifa Lawson sem nokkurskonar frískandi og nýja innsýn í heim þeirra sem þunglyndir eru.

Þunglyndi er enn í dag hjúpað ákveðinni bannhelgi og svignar orðið undan fordómum, fyrirfram ákveðinni orðræðu og staðalímyndum um það hvernig þunglyndir líta og líta ekki út, eiga og eiga ekki að vera og svo framvegis. Samfélagið glímir enn við þann vanda að geðsjúklingar eru gjarnan sýndir í neikvæðu, kaotísku ljósi og persónuleg dýpt þeirra ræðst algjörlega af depurð, sjálfsvígshugsunum, dramatík og voða. Lawson tekst hinsvegar að sýna okkur lesendum það svart á hvítu að það getur stundum verið drullufyndið að vera sjúkur í hausnum. Hún sýnir okkur það líka að hver sem er getur orðið veikur á geði og það að vera þunglyndur þýðir ekki endilega að maður sé niðurlútur með bauga, gangandi þjáðum skrefum að hnífaskúffunni eða pilluskápnum. Þugnlyndissjúklingar eru eins mismunandi og þeir eru margir og ef til vill var kominn tími til að heyra sögu eins og Jennyar, af venjulegum einstakling að glíma við óvenjulegt vandamál.

Á sama tíma og Lawson tekst að vera fullkomlega eðlileg og óhátíðleg í skrifum sínum, tekst henni að setja saman djúpstæðar myndlíkingar um ástand geðsjúklings og eru margar málsgreinar í gegnum bókina sem lýsa upp ljósaperur í heilanum. Það er að segja, hún setur fram ákveðnar hugmyndir um það hvernig það er og hvað það þýðir að glíma við slík veikindi og hún matreiðir þessar hugmyndir á þann máta að hver sem er á auðvelt með að kyngja þeim. Hún eyðir ekki tíma í tilfinningasemi, stórbrotin lýsingarorð og tilkomumiklar flækjur. Hún hugsar, hún skrifar, hún stendur við það og lesendur þakka henni fyrir einlægnina.

Bókin fylgir á eftir fyrstu bók Lawson, Let‘s Pretend This Never Happened, en kápan á henni er jafn skrítin og heillandi og Furiously Happy. Framan á fyrstu bókinni er mynd af uppstoppaðri mús klæddri í búning Hamlet. Eitt áhugamála Lawson er einmitt að safna skringilega uppstoppuðum dýrum og gefa þeim persónuleika, en þvottabjörnin sem prýðir bókakápuna heitir einmitt Rory og er frábær kafli í bókinni um það hvernig Rory kom inn í líf hennar. Hún talar líka opinskátt um samband sitt við eiginmann sinn og dóttur, rekur sögu og ættartré kattanna sem þau eiga og segir frá ferð sinni til Ástralíu þar sem hún heimtaði að fá að sjá kóalabjörn.

I wish someone had told me this simple but confusing truth: Even when everything’s going your way you can still be sad. Or anxious. Or uncomfortably numb. Because you can’t always control your brain or your emotions even when things are perfect

Hún talar líka um öll þau skipti sem henni leið (og líður) eins og hún sé galtóm að innan. Eins og hún sé dofin frá hvifrli til ilja, fái sig ekki fram úr, sjái engan tilgang með lífinu. Hún fer í gegnum sjúkrasögu sína og lyfjasögu, segir lesendum frá sjálsfsvígshugsunum og sínum myrkustu augnablikum, ein með þunglyndinu.

Ég held að ástæðan fyrir því að ég tengdi svona við þessa bók sé, ekki bara það að ég er sjálf þunglynd, heldur var oft á tíðum eins og Jenny hefði prílað inn í hausinn á mér, tekið hugsanirnar beint úr hausnum á mér og sett þær á blað. Hún sagði svo oft í gegnum bókina ákveðna hluti sem mér fannst eins og teknir upp úr fyrirlestrunum mínum og greinum. Meira að segja þegar hún líkir þunglyndi og geðsjúkdómum við krabbamein, í þeim skilningi að þunglyndi er ekki vandfýsinn sjúkdómur og getur snert hvern sem er, óháð öllu öðru. Þú getur orðið þunglyndur án þess að hafa nokkurntímann upplifað eitthvað tráma, nákvæmlega eins og þú getur fengið lungnakrabbamein án þess að hafa nokkurn tímann reykt sígarettu.

I’m tired of the stigma behind mental health. You don’t need to have a rough childhood or go through a traumatic event to experience psychological problems. The truth is that just like cancer, mental health issues don’t discriminate. I guarantee one of the “happiest” people you know is dealing with some sort of disorder right now. Just because you can’t see it doesn’t mean it’s not real.

Ég segi þetta gjarnan í mínum fyrirlestrum, á nokkuð svipaðann hátt. Ég man að ég upplifði mig svo eina, svo mikinn aumingja og að mín veikindi væru svo óverðskulduð því ég hafði aldrei orðið fyrir áfalli (fólki fannst bílslys þar sem enginn lést eða meiddist alvarleg, ekki nægt áfall) eða misnotkun, ástvinamissi eða neinu öðru sem þótti nógu „verðugt“ ef svo má að orði komast. Fólk vorkenndi gjarnan þeim og „skildi“ þá sem voru þunglyndir eftir slíka atburði en þegar maður vogaði sér að játa sig þunglyndan þrátt fyrir góða fjölskyldu, fjárhagslegt öryggi, vini, menntun og önnur vestræn forréttindi, þá hafði maður allt í einu  ekki lengur efni á því að vera þunglyndur. Þunglyndi var heldur ekki sjúkdómur heldur einhverskonar tískubylgja eða hugarástand sem auðvelt væri að breyta, með því einfaldlega að „hætta að hugs svona“. Í lestri Furiously Happy endurspeglast einlægt ástand þess sem veikur er og veitir það okkur hinum sem veik eru ákveðið örryggi. Þegar maður les það svart á hvítu að maður er ekki einn um þetta, þá verður allt einhvernveginn auðveldara. Ekki vegna þess að maður gleðst yfir því að einhvejrum öðrum líði svona illa og ömurlega, þvert á móti, gleðst maður yfir því að vera ekki frábrugðinn, öðruvísi, tabú eða aumingi. Það er þessi ómetanlega tengin sem skiptir öllu máli og er rauði þráðurinn í allri minni bráttu.

When you come out of the grips of a depression there is an incredible relief, but not one you feel allowed to celebrate. Instead, the feeling of victory is replaced with anxiety that it will happen again, and with shame and vulnerability when you see how your illness affected your family, your work, everything left untouched while you struggled to survive. We come back to life thinner, paler, weaker … but as survivors.

Lawson fyllir mann eldmóð og baráttumætti. Hún fær mann til að endurhugsa veikindi manns og sjá þau í algjörlega nýju ljósi. Hún er hrá og óritskoðuð sem er oft á tíðum það sem geðsjúklingar þarfnast mest, harðskeitt ástúð og velvild í bland við ískaldan raunveruleikann. Á einum tímapunkti segir hún frá einu af þunglyndisköstum sínum, þar sem allt verður grátt, dofið og ömurlegt. Hún segir frá því hversu úrvinda hún hafi verið og hversu mikinn toll það tók á eiginmann hennar og dóttur. Vonleysið er orðið algjört og hugsanirnar sem hættulegastar eru læðast að manni – væru ekki bara allir betur af settir án mín? Hún spyr Victor, manninn sinn hvort hann héldi að líf hans væri ekki auðveldara án sín. Hann svarar henni um hæl „Það væri vissulega auðveldara. En það væri ekki betra“. Þetta er eitt af þessum ljósaperuaugnablikum þar sem Lawson (og lesandinn með henni) áttar sig á því að jú, lífið væri kannski auðveldara. Óneitanlega reyndar, væri það auðveldara. En væri það betra? Sannarlega ekki. Því sjúkdómurinn tekur ekki bara, hann gefur líka. Við þroskumst og lærum að vera sterkari manneskjur fyrir vikið. Við græðum allskonar visku og lífsreynslu á því að ganga í gegnum dimmu dalina, þó það geti verið harla erfitt að sjá árangurinn strax.

You are alive. You have fought and battled them. You are scarred and worn and sometimes exhausted and were perhaps even close to giving up, but you did not. 

Furiously Happy varð strax uppáhaldsbókin mín og ég get ekki hætt að mæla með henni við vini og vandamenn – boðskapurinn er svo fallegur og ætti hann að ná til allra.