#ÉGEREKKITABÚ

#ÉGEREKKITABÚ

Árið 2015 var sannarlega ár íslenskra samfélagsmiðlabyltinga með tilkomu #freethenipple, #túrvæðingin, #konurtala, #6dagsleikinn og fleiri róttækra ákalla á að uppræta fordóma í samfélaginu og hjálpa fólki að opna sig um óréttlæti, samfélagsleg vandamál og líðan. Það var í þessari hringiðu sem við Bryndís og Tara kynntumst og ákváðum í kjölfarið að efna til okkar eigin byltingar – #égerekkitabú.

Við stelpurnar þekktumst ekki neitt fyrir þegar við ákváðum að verða aktívistar. Ég hafði séð grein eftir Töru og viðtal við hana þar sem hún talaði um ljósmyndaverkefnið sitt Faces of Depression, þar sem hún ætlaði sér að ljósmynda eins marga þunglynda einstaklinga og hún gæti og sýna fram á fjölbreytileika þeirra sem glíma við andleg veikindi. Við skrifuðumst á í Facebook-skilaboðum og Tara kynnti svo Bryndísi til leiks eftir að viðtal við Bryndísi birtist á Vísi.is þar sem hún vakt athygli á því hversu kostnaðarsöm geðlyf, sem margir geta ekki lifað án, geta verið.

Fljótlega eftir þessi kynni, í krafti allra þeirra frábæra samfélagsmiðlabyltinga sem nú þegar höfðu tröllriðið samfélaginu, ákváðum við að stofna Facebook-hópinn GEÐSJÚK og efna til okkar eigin byltingar með það að leiðarljósi að opna umræðuna um andleg veikindi og fá samfélagið til að endurhugsa hvernig komið er fram við geðsjúklinga í daglegu lífi og tali.

Við sendum út okkar fyrstu tvít þann 5.október haustið 2015. Við höfðum þegar stofnað Facebook-hópinn GEÐSJÚK, sem er enn virkur í dag, og sendum út tvít frá Twitter-aðganginum okkar (@gedsjuk). Við bjuggum til nýyrðið „heilsujafnrétti“ og hvöttum fólk til að deila sínum sögum af andlegum veikindum og vera ófeimið.

Myllumerkið #égerekkitabú varð fyrir valinu eftir miklar vangaveltur en við ákváðum að snúa myllumerkinu að fólkinu sjálfu, s.s. að hvetja fólk til að tjá sig um sín andlegu veikindi, fordómana sem það hefur mætt og hina ýmsu vankanta á íslenska geðheilbrigðiskerfinu, vinnumarkaði og menntakerfinu. Hvatningin var sú að fólk opinberaði sig undir formerkjum þess að það væri ekki tabú heldur manneskjur með fullan rétt til að tjá sig um sín andlegu veikindi rétt eins og fólk fær umbúðarlaust að tjá sig um líkamleg veikindi.

Áður en langt var um liðið byrjuðu tvítin að hrannast inn og dagana 6. til 7.október var vart þverfótað á samfélagsmiðlum fyrir sögum undir merkinu #égerekkitabú. Fjöldi Íslendinga tók þátt í byltingunni, fólk á öllum aldri, stjórnmálamenn, rithöfundar, tónlistarfólk og listamenn, unglingar, gamalmenni og allir þar á milli virtust hafa eitthvað til málanna ða leggja. Við komumst síðan að því að fyrir tilviljun er alþjóðlegur geðheilbrigðisdagur þann 10.október og litur geðheilbrigðisbaráttu er gjarnan grænn – allt sem við höfðum stefnt að passaði einhvernveginn í samhengi við alheiminn!

Fólk streymdi í kjölfarið inn í fésbókarhópinn GEÐSJÚK, þar sem umræðan hélt áfram og gerir enn. Hópurinn var upprunalega opinn og öllum aðgengilegur en hefur nú verið læstur svo einungis meðlimir innan hópsins geta tjáð sig og séð efnið sem þangað er deilt. Tvítin telja þó nokkur hundruð og streyma inn ný og ný tvít á hverjum degi. Fólk tjáði sig einnig um veikindi sín á persónulegum fésbókarsíðum og voru viðbrögðin almennt af jákvæðum toga. Byltingin gerði það að verkum að stofnendur GEÐSJÚK ákváðu að halda starfinu áfram og notfæra sér kraft fjöldans til þess að breyta íslensku samfélagi til muna. Við höldum ennþá úti Twitter-aðganginum og fylgjumst grannt með umræðunni sem og við stjórnum ennþá Facebook-hópnum.

Við stelpurnar störfum þó ekki lengur saman að einu settu markmiði, heldur höfum við tekið að okkur okkar eigin verkefni og útfærslur á baráttunni – að bæta íslenskt samfélag og andlega heilsu landans.

Það voru ótrúlega forréttindi að fá að taka þátt í þessu verkefni og geta með stolti sagst vera einn stofnandi GEÐSJÚK og #égerekkitabú. Það var svo greinilegt frá fyrstu mínútunni hversu þörf þessi umræða var, og í rauninni er, því fólk úr öllum krókum og kimum samfélagsins náði tengingu hvort við annað og fékk ákveðinn sálarfrið við það eitt að segjast upphátt glíma við andleg veikindi. Margar vináttur hina ólíklegustu einstaklinga hafa myndast út frá GEÐSJÚK-hópnum og er með sanni hægt að segja að #égerekkitabú sé orðið partur af íslenskri menningu og þjóðvitund. Geðlæknar sáu t.a.m. aukningu á komu sjúklinga á geðdeildir spítalanna í kjölfarið af byltingunni, minnst hefur verið á byltinguna á öldum ljósvakans margsinnis og hafa bæði Úlfur Úlfur og Emmsjé Gauti minnst á hana í sínum textum.

Enn er hægt að nálgast tvítin á Twitter undir merkinu #égerekkitabú. Hér má sjá nokkur dæmi um umræðuna sem spratt upp í kringum myllumerkið og hér að neðan eru einnig tenglar á hinar ýmsu fjölmiðlaumfjallanir um verkefnið.

PRESSANRÚV – DV BLEIKT – SYKUR STÖÐ2 VÍSIR HÚN/MOI 

Opna sig um geðsjúkdóma sína á Twitter og Facebook

Emmsjé Gauti, Steiney, Salka Sól og Kött Grá Pje leggja baráttunni lið