LASAGNA FRÁ GRUNNI

LASAGNA FRÁ GRUNNI

 

Það er ekkert leyndarmál að ég elska Jamie Oliver. Ég myndi líklegast fara að grenja ef ég myndi hitta hann, ég dýrka matseldina hans og lífsspeki. Þessi uppskrift er úr bókinni Ministry of Food en með þeirri bók hvetur Jamie fólk og fjölskyldur til að læra og fullkomna nokkrar góðar uppskriftir og deila þeim með öðrum. Þannig í takt við  lífsspeki eftirlætismatreiðslumannsins míns, ætla ég að deila með ykkur hinni fullkomnu lasagne uppskrift. 

Ég skal reyndar viðurkenna það að þó að orð Jamie míns séu mér heilög, tek ég uppskriftirnar alltaf og útfæri þær eftir mínu höfði og hentugleika. Uppskriftir eru nefninlega ekki heilagar, maður á að geta fundið sinn rythma í eldhúsinu og prófað sig áfram! En nóg af þvaðri, hér kemur besta lasagna sem þú munt smakka!

Galdurinn er að gefa sér nægan tíma og leyfa því að standa tilbúnu í allt að þrjá tíma. Ef það fær tíma til að standa og jafna sig nær það meiri raka og verður svaka djúsí. Þetta er því ekki uppskrift sem maður gerir skyndilega.

Lasagne (4 manns)

Í þetta lasagna þarf maður bolognesesósu, pastaplötur, sýrðan rjóma, parmesan og nóg af ást, enda einkennist ítölsk matargerð af henni. Í þetta lasagna notaði ég heimagert pasta. Þið getið fundið frábæra pasta uppskrift frá Thomas Keller, eiganda The French Laundryhérna. Það er alltaf gott að eiga pasta eða pastadeig en fyrir þá sem eru ekki eins sleipir í eldhúsinu, er auðvitað ekkert mál að kaupa tilbúnar pastaplötur og nota í lasagnað.

Bolognese-sósa

80 gr beikon
1 meðalstór laukur
1 hvítlauksgeiri
1 meðalstór gulrót
1 selerístilkur
1 msk þurrkað oregano
250 gr nautahakk
250 gr svínahakk
90 gr tómatpúrra
1 dós af niðursoðnum, skornum tómötum
Ólífuolía
Salt & pipar
Fersk basilika

Lasagnað sjálft

150 gr af pastaplötum
Rifinn parmesan ostur (eftir smekk)
300 ml af 18% sýrðum rjóma
1 stóran, veglegan tómat

Ef þið ætlið að nota ferskt, heimagert pasta er um að gera að vera búin/n að gera degið fyrirfram, helst eiga plöturnar til þurrar (bendi aftur á færsluna mína með pastadeginu, þar eru leiðbeiningar um hvernig á að rúlla pastaplötur). Þegar pastað er tilbúið er um að gera að byrja á Bolognese-sósunni.

1544398_10203204297927421_948675161_n

Skerið beikonið og grænmetið niður í bita. Ekki hafa neinar áhyggjur af stærð eða lögun, skerið bara! Hitið helluna á eldavélinni og setjið pönnuna á. Ég hef bæði notað víða pönnu og svo stóran pott, það er eiginlega þægilegra að gera þetta á víðri pönnu. Þegar pannan er orðin heit er um að gera að hella góðum slurk af ólífuolíu á hana, skella beikoninu og grænmetinu beint á og steikja. Þegar beikonið er orðið fallega gyllt og grænmetið orðið stökkt er komin tími á hakkið og tómatana.

Næst eru niðursoðnu tómatarnir settir út á, sem og hakkið. Bætið síðan vatni við, hægt og rólega 1 dl í pörtum. Hrærið vel og látið ekkert brenna. Látið Bolognesið ná suðu og lækkið svo hitann í lægstu mögulegu stillingu, setjið lok á pönnuna og leyfið að malla í klukkutíma. Um að gera að hræra í sósunni aðeins og passa að ekkert sé að brenna. Takið sósuna svo af hellunni, smakkið sósuna til og bætið við salti, pipar og oregano. Í lokinn er gott að bæta við fínt skornum basilikkulaufum fyrir extra gott bragð. Ef ykkur finnst sósan þorna, bætið þá meira vatni og hrærið vel. Passið ykkur bara að setja ekki of mikið vatn!

Ef þið eruð að nota þurrkaðar pastaplötur þarf að mýkja þær upp áður en þær eru notaðar. Það er bæði hægt að sjóða þær í ca. 2-3 mínútur eða leggja þær í bleyti í köldu vatni í 5-10 mínútur. Ef þið notið ferskt pasta sem er ekki ennþá orðið glerhart er óþarfi að sjóða plöturnar, þ.a.e.s ef pastað er ennþá rakt. Það getur verið svolítið snúið að sjóða svona pastaplötur án þess að þær festist saman þannig ég mæli með að nota stóran pott og vera þolinmóður. Komið vatninu upp í suðu og slettið smá ólífuolíu út í vatnið. Sjóðið hverja plötu í ca. 2-3 mínútur og leyfið þeim að þorna á diski eða á grind (ég nota t.d. uppþvottagrindina mína þegar ég er að þurrka pasta).

Nú þegar allt hráefnið er tilbúið er bara að setja saman lasagnað! Það er ósköp einfalt, byrjum á lagi af Bolognese, næst pastaplötum, svo slatta af sýrðum rjóma, rifnum parmesanosti, bolognese, plötur og svo koll af kolli. Gott er að leyfa því að standa áður en á að elda það. Plastið mótið og látið lasagnað standa upp á borði við stofuhita í allt að klukkutíma, tvo.

Hitið ofninn á ca. 180°C.

Áður en það fer inn í ofn, til að gera lasagnað extra djúsi er um að gera að strá osti yfir efsta lagið eða setja sneiðar af einhverjum góðum osti ofan á t.d. Cheddar eða Maribo. Skerið tómatinn í sneiðar og raðið ofan á sem og restinni af basilikulaufunum.

                                                                       

Beint inn í ofn, blástur og undir/yfir hiti og látið malla í 50-60 mínútur. Fylgist með því þegar osturinn verður gylltur á efsta laginu og njótið í góðra vina hópi! Delish!