KÍNVERSKUR APPELSÍNUKJÚKLINGUR

KÍNVERSKUR APPELSÍNUKJÚKLINGUR

Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og ég elska að elda mat sem setur mig alveg út fyrir þægindarammann. Þess vegna ákvað ég um daginn, þegar ég fékk sjúka löngun í kínverskan appelsínukjúkling, að læra að gera hann sjálf!

Nú, þessi uppskrift er svolítið flókinn að því leitinu til að hún þarfnast djúpsteikingar en almáttugur hvað það er þess virði þegar á hólminn er komið.

Uppskriftin er samblanda af nokkrum sem ég fann á netinu og svo því sem mér datt í hug að hafa með.

Kínverskur appelsínukjúklingur (3-4 manns)

700 gr kjúklingalundir
100 ml sojasósa
1-2 teskeiðar ferskt engifer
1-2 teskeiðar sítrónubörkur
Kartöflumjöl
Grænmetisolía
150 ml appelsínusafi
3 vænar matskeiðar appelsínumarmelaði

Stir-fry grænmeti
Brún hrísgrjón
1 laukur
2-3 gulrætur
2-3 sellerístilkar
1 græn paprika
1 poki valhnetur

Fyrst er að marinera lundirnar. Setjið sojasósuna í mót, rífið engiferið og sítrónubörkinn yfir og saltið aðeins. Blandið marineringunni saman og leggjið síðan lundirnar í bleyti. Leyfið þeim að liggja í marineringunni í 15-20 mínútur.

Á meðan lundirnar marinerast er gott að nota tímann til að gera allt klárt og skera grænmetið. Í þessu tilfelli skar ég grænmetið svolítið stórt og gróft, í anda kínverskrar matargerðar.

Þegar lundirnar hafa marinerast er næst að velta lundunum vel upp úr kartöflumjölinu. Þegar allir bitarnir eru tilbúnir, vel þaktir af mjöli er mál að hita pönnuna til steikingar. Sumum finnst betra að hita olíuna í potti og djúpsteikja þannig en það virkar líka að nota víða pönnu með háum börmum. Hitið helluna og pönnuna, setjið vel af olíu, næstum fulla pönnu og leyfið henni að sjóða. Þegar olían er orðin sjóðandi er tími til að steikja.

Steikingin er snúni parturinn. Varúð, þú munt fá slettur af sjóðandi olíu á þig, svo ég mæli með að vera í langerma bol og helst með svuntu. Til að ná kjúklingnum í og úr sjóðandi olíunni er gott að nota einhverskonar töng eða áhald sem auðveldar þér að ná honum upp úr á þess að skaðbrenna þig. Hafðu tilbúið til hliðar disk með eldhúspappír, til að þerra kjúklinginn eftir steikinguna.

Setjið kjúklinginn varlega ofan í olíuna og steikið hvern bita þangað til að hann er orðinn gylltur og fallegur að utan. Þú sérð hvernig kartöflumjölið verður hægt að fallegri, stökkri húð utan á lundinni og þá er bitinn tilbúinn. Alls ekki setja alla bitana út í olíuna í einu, þá er hætta á að eitthvað brenni og að olían slettist meira. Leggið hvern bita fyrir sig á diskinn með eldhúspappírnum og leyfið að jafna sig.

Sjóðið hrísgrjónin í potti, ég notaði ca. 1 og hálfan bolla af hrísgrjónum á móti 3 bollum af vatni. Ekki stressa ykkur á það hvað bolli er mikið, notið bara bolla í venjulegri stærð og notið sama bolla til að mæla hrísgrjónin og vatnið.

Steikið grænmetið á pönnu upp úr ólífuolíu, ekki úr grænmetisolíunni. Ég nota sömu víðu pönnuna en skolaði hana á milli. Grænmetið er tilbúið þegar laukurinn er orðinn fallega gylltur. Þá ættu hrísgrjónin að vera tilbúin líka, skellið þeim á pönnuna og hrærið alltaf vel í. Saltið eftir smekk. Leyfið þessu að blandast vel saman og alveg í lokin er gott að mylja valhneturnar yfir, aðeins til að hita þær.

Þá er það sósan, án hennar eru þetta bara djúpsteiktar kjúklingalundir!
Í pottinn fer appelsínusafinn, marmelaðið, tvær teskeiðar af sterkju og smá salt. Hrærið saman með písk og setjið síðan á hellu á miðlungshita. Ekki hafa helluna of heita því þá brennur sykurinn í marmelaðinu. Verið dugleg að hræra til með pískinum, þangað til sósan verður þykk og myndar loftbólur. Þið getið smakkað hana til og séð hvort það vanti eitthvað en hún á að vera nógu þykk til að þekja kjúklinginn með svolítið klístraðri húð. Þegar sósan er tilbúin takið þá pottinn af hellunni, haldið áfram að hræra í henni og svo þegar hún hefur kólnað aðeins, setjið þá kjúklinginn út í og þekjið hvern bita fyrir sig með sósunni.

Þá er appelsínukjúklingurinn tilbúinn! Berið hann fram með stir-fry grænmetinu, restinni af appelsínusósunni og smá soja. Delish!