HAKKBOLLUR MEÐ CHEDDAROSTI

HAKKBOLLUR MEÐ CHEDDAROSTI

Einu sinni var allt sem ég eldaði með kjúklingi, vegna þess að mér hafði tekist að mastera að elda kjúkling. Undanfarið hef ég verið að mastera að gera kjötbollur og það er í rauninni sjúklega auðvelt að gera góðar, djúsí kjötbollur!

Þessi uppskrift er í rauninni samtíningur úr nokkrum uppskriftum, bæði frá mömmu, Jamie Oliver og hausnum á mér. Það er nefninlega hægt að setja hvað sem er í bollurnar, það fer bara allt eftir því hvað mann langar hverju sinni. 

Í þessum bollum eru aðalbrögðin laukur, cheddarostur og BBQ-sósa. Meðlætið er einfalt, sætar kartöflur með basilikku og ólífuolíu.

Ég ætla nú ekki að vera að monta mig…en þessar bollur unnu til verðlauna í kjötbollu-keppninni milli mín og matreiðslumeistaravina hans Ísaks svoooo…..já. Ég er að monta mig!

Hakkbollur með BBQ og cheddar

250 g nautahakk
250 gr svínahakk
Kubbur af cheddarosti
1 laukur
1 rauðlaukur
Pakki af Ritzkexi
Salt & pipar
Cayenne pipar
Reykt paprikuduft
2 egg
BBQ-sósa

Meðlæti
1 stór sætkartafla
Ólífuolía
Salt & pipar
Þurrkuð basilikka

Forhitið ofninn á 190°C og undir/yfir hita. Skerið sætu kartöfluna í smáa teninga og setjið í eldfast mót. Hellið ólífuolíunni yfir og kryddið með salti, pipar og basilikku. Það er eitthvað við sætar og basilikku saman sem ég hreinlega elska. Veltið þeim uppúr blöndunni og þegar ofninn er orðinn nægilega heitur er mál að skella þeim beint inn og bíða. Sætar kartöflur eru smá vesen því þær þurfa yfirleitt langan tíma til eldunar. Þess vegna er gott að kveikja strax á ofninum og elda kartöflurnar á meðan maturinn er undirbúinn.

Byrjið á því að skera laukinn mjög smátt og fínt. Rífið cheddarostinn, bara eins mikið og ykkur langar, ég notaði bara slatta í þessa uppskrift. Stundum nefninlega, þegar maður er búinn að ná tökum á einhverri uppskrift eða aðferð, finnst manni óþarfi að mæla hlutina og það er allt í lagi! Nema maður sé að baka, þá er vissara að vera með uppskriftina á hreinu!

Setjið hakkið í stóra skál og blandið því saman. Örlitla klípu af salti og pipar, dass af Cayenne og reyktri papriku. Ekki hafa áhyggjur af þessu, setjið frekar minna en meira því ég segi ykkur frá einu leynitrikki á eftir.
Brjótið eggin út í og myljið Ritzkexið út í blönduna. Ástæða þess að ég set kexið er sú að það gerir böllurnar aðeins stökkar og bindur þær betur saman. Vegna þess hve salt kexið er skal varast að salta blönduna of mikið. Það er líka hægt að nota hvaða saltkex sem er, t.d. með öðruvísi kryddi eins og chilikex eða laukkex. Um að gera að prófa sig bara áfram!

Vinnið blönduna vel með höndunum og hnoðið saman eins og deig. Setjið loks laukinn út í blönduna og ostinn, ca. 2 matskeiðar af BBQ-sósu og hnoðið saman. Ef blandan lyktar vel eruð þið að gera eitthvað rétt!

IMG_8025

Leynitrikkið ógurlega er þó, að búa til litla bollu úr hakkinu og steikja hana á pönnu þangað til hún er tilbúin. Þá er um að gera að smakka hana til að sjá hvort blandan bragðist eins og þú vilt, því að sjálfsögðu fer maður ekki að smakka hrátt kjöt. Kannski þarf að bæta við salti eða osti, þið ættuð að geta fundið það út sjálf – hvað það er sem þið viljið að bragð sé af!

Því næst er um að gera að hnoða bollurnar saman. Stærðin skiptir engu máli en ég vil alltaf hafa mínar frekar stórar og djúsí. Látið þær standa í smástund á meðan þið kveikjið á hellunni og leyfið henni að hitna.

Þegar pannan er orðin heit, slettiði smá ólífuolíu á hana og lokið bollunum. Þá meina ég að léttsteikja þær til að fá fallega gullna húð. Þannig helst kjötið djúsí inn í og bollurnar verða vel stökkar og góðar að utan. Þegar búið er að steikja bollurnar má taka eldfasta mótið með sætkartöflunum út, setja bollurnar ofan á og rífa nóg af cheddarosti yfir. Setjið inn í ofn og eldið í ca.20 mínútur.

Beint á diskinn með smá fersku spínati, auka BBQ eða hvítlaukssósu, delish!