BASIL GIMLET

BASIL GIMLET

Áfram heldur kokteilagerðin! Um daginn hélt ég partý og þar sem ég elska að vera góður gestgjafi ákvað ég að sjálfsögðu að hrista nokkra kokteila ofan í liðið. Mig langaði að prófa aðra uppskrift en Bee’s Knees kokteilinn sem ég er orðin vön að gera og er búin að ná fullkomlega. Ég spurði því færan barþjón, hvaða kokteil hann myndi hrista ofan í marga, sem væri ódýr og auðveldur. Svarið var “Basil Gimlet!”

Þessi kokteill er líka gin-based eins og Bee’s Knees og inniheldur ferskan limesafa, sykursýróp og basilikkulauf. Einfalt, ódýrt og fljótlegt! Svo ekki sé minnst á gómsætt…

Gimlet er í rauninni ákveðinn kokteill útaf fyrir sig. Klassískur gimlet inniheldur gin og limesafa. Úr gamalli uppskriftabók frá 1928 er drykknum lýst sem “Gin hrist með sætum limesafa og skvetta af sódavatni”. Síðan þá hefur drykkurinn þróast og til hafa orðið ýmsar útgáfur af honum, t.d. vodka gimlet og basil gimlet. Drykkurinn er alla jafnan borinn fram í klassísku kokteilglasi með limesneið.

Í þennan Basil Gimlet hinsvegar notaði ég ferskan limesafa, einfalt sykursýróp, ferska basilikku og nóg af klaka. Ég notaði falleg plastkokteilglös undir drykkinn og bar hann fram með einu basilikkulaufi. Basilikkan kemur með skemmtilegt kryddbragð á móti sýrunni frá limesafanum og sætunni frá sykrinum.

Basil Gimlet
1 1/2 oz gin 
3/4 oz limesafi
1/2 oz sykursýróp
5 basilikkulauf

Processed with Rookie

Byrjið á því að kreista limeávextina í skál. Það er hægt að nota hendurnar eða djúsvél ef maður á slíka en besta aðferðin að mínu mati er að nota mexíkóskan olnboga eins og sést á myndinni hér að ofan. Slík græja er eiginlega eins nauðsynleg í kokteilagerð og hristari, jigger og sigti. Ég fjárfesti í einum slíkum í Fastus í Síðumúla en það er hægt að fá þá ódýrari í Hagkaup og á netinu. Í svona mikið magn af kokteilum, sem reyndust vera í kringum 20 kreisti ég safann úr 8 góðum limeávöxtum. Sigtið safann svo ofan í flösku til að losna við óþarfa aldinkjöt.

IMG_1594

Sykursýrópið er sjúklega einfalt, rétt eins og hunangssýrópið sem ég notaði í Bee’s Knees drykkinn. Fyrir 1 dl af sykri setur maður 1 dl af sjóðandi heitu vatni. Ef þú vilt nota 2 dl af sykri, seturðu 2 dl af vatni og svo framvegis. Sýrópið má alls ekki vera of þykkt en heldur ekki lepjandi þunnt – það þarf ennþá að vera sykur í því. Rétt þykkt ætti að vera áþekk t.d. hlynsýrópi sem fæst í verslunum.

Nú þegar sýrópið og safinn er til, er okkur ekkert að vanbúnaði. Nú er kokteil tími!

IMG_1599

Fyrir hvern drykk, takið þið ca. 5 basilikkulauf og kremjið í höndunum. Leggið laufin í annan lófan flatann og klappið saman með hinum. Upp gýs yndisleg basilikkulykt en þetta opnar laufin og gerir drykkinn enn betri, bragðið sterkara og meira áberandi. Setjið laufin í hristarann. Því næst ginið, limesafann og sykursýrópið. Stappfylliði hristarann með klaka og hristið duglega. Laufin brotna niður í pínulitlar agnir og blandast við vökvann og gerir drykkinn grænan og fallegan.

Hellið drykknum í glas í gegnum tvö sigti, annað við hristarann sem heldur klökunum frá og svo fínna sigti, svo ekki of mikið af laufunum fari ofan í glasið. Þetta er aðferð sem kallast double strain og er notuð á drykki sem þessa, drykki sem ekki hafa klaka í glasinu og hafa lauf eða krydd eða önnur innihaldsefni sem eiga ekki að flækjast í glasið.

IMG_1597

Drykkurinn er tilbúinn um leið og einu fallegu basilikkulaufi hefur verið skellt ofan á! Sjúklega einfalt og verði ykkur að góðu!