BEE’S KNEES

BEE’S KNEES

Hver elskar ekki góðan kokteil?

Á síðustu árum hefur kokteilamenningin sprungið út á Íslandi og barir í auknum mæli farnir að bjóða upp á flotta, metnaðarfulla kokteila. Barþjónar hafa líka menntað sig betur í kokteilagerð, farið erlendis og komið til baka með þekkingu og ferskleika í fagið.

Eins og það er nú gaman að fara út á lífið og splæsa í góðan kokteil er álíka gaman að hrista slíka heima hjá sér. Kokteillinn sem ég hristi fyrir Ottó og Jenný í matarboðinu um daginn heitir Bee’s Knees og á sér afar skemmtilega og fræðandi sögu!

Kokteillinn er talinn einn af fyrstu kokteilum sem fundnir voru upp. Hann á rætur sínar að rekja til Bretlands og breskra hermanna í fyrri heimsstyrjöldinni. Þá ríkti að sjálfsögðu áfengisbann og áfengisdrykkja var sveipuð einhverju tabúi. Þá fóru hermenn oft landanna á milli með ódýrt og bragðvont áfengi, í þessu tilfelli gin.

Það er því talið að hermennirnir, og í rauninni bara fólkið, sem neyddist til að drekka þetta baðvatnsgin hafi leitað allra mögulegra leiða til að fela lyktina og bragðið. Þá var brugðið á það ráð að setja sítrónusafa og hunang út í ginið. Þannig varð til kokteillinn Bee’s Knees, en orðatiltækið “This is the bee’s knees!” var oft notað um hluti sem voru “bestir” eða “algjör snilld”. Þannig varð kokteillinn til, líklegast fyrir algjöra tilviljun!

Kokteillinn er ofureinfaldur og rennur mjúklega niður! Hérna er uppskriftin að einum slíkum:

Bee’s Knees
2 oz gin
3/4 oz ferskur sítrónusafi
3/4 hunangssýróp
Sítrónubörkur sem skreyting

Fyrir fjórar manneskjur sem drukku sitthvorn kokteilinn, handkreisti ég 6-7 sítrónur í skál og sigtaði svo steinana og aldinkjötið frá. Ég hellti safanum í glerflösku og kældi inn í ísskáp.

Fyrir hunangssýrópið keypti ég stóra krukku af hunangi og hunangið þarf að sjálfsögðu að vera gott en alls ekki eitthvað dýrt, nema auðvitað að þið viljið það! Til að gera sýrópið sjálft setti ég jafna hluta af hunangi og sjóðandi vatni í skál og hrærði til. Fyrir okkur fjögur setti ég 2 desilítra af hunangi á móti 2 desilítrum af vatni. Ekki setja allt vatnið út á hunangi í einu því þá er hætta að sýrópið verði of þunnt. Byrjið frekar á minni einingum, hrærið og bætið við. Sýrópið á að vera í sömu þykkt og t.d. hlynsýróp. Það er mikilvægt að hræra vel í sýrópinu þangað til það er orðið alveg mjúkt og gott, engir kekkir eða slíkt.  Síðan setti ég sýrópið í glerflösku og kældi í ísskápnum.

IMG_1084

Þegar hrista á kokteila er mjög mikilvægt að nota klaka. Margir vilja meina það að drekka kokteila án klaka sé betra því þá er ekkert vatn í honum og áfengið væntanlega meira. Fólk heldur stundum að barir séu að svindla á sér með að fylla glösin og hristarana af klökum en sú er alls ekki raunin. Það er nefninlega reiknað með því að kokteillinn vatnsblandist! Sumir kokteilar fara í há glös full af klökum, sumir í einföld glös með engum klökum en það er alltaf mikilvægt að ná vatnsblöndun og kælingu í drykkinn – í gegnum hristarann og glasið. The more you know…

IMG_1088

Vanalega fer Bee’s Knees í svokallað coupe-glas en þar sem ég bý ekki yfir nógu skápaplássi, ákvað ég að nota lítil hvítvínsglös. Auðvitað er einhver fræði, bæði bragðlega og fagurfræðilega séð, á bakvið í hvernig glös mismunandi kokteilar fara en það er þó ekki hundrað í hættunni að setja áfengið í önnur glös en þeim er “ætlað”.

Fyllið glasið af klaka og látið standa til hliðar. Fyllið minni hristarann af klaka, hellið gininu, sítrónusafanum og hunanginu yfir. Lokið hristaranum vandlega og hristið þangað til hristarinn er orðinn ískaldur viðkomu. Opnið hristarann, hellið klökunum úr kokteilglasinu og double-strainið drykkinn í glasið. Double-strain þýðir að taka strainerinn og sigtið til að sigta drykkinn í glasið. Að tví-streina er yfirleitt gert við drykki sem fara í klakalaus glös. Þeir verða tærari og mýkri þannig.

Notið síðan einfaldan flysjara eða hníf til að flysja börkinn af einni sítrónunni í litlar ræmur. Skerið lítið sár í þveran börkinn og brjótið hann saman og festið á glasið – et voilá, þú ert kominn með ljúffengan Bee’s Knees!

IMG_1094

Now that’s the Bee’s Knees!

Njótið í góðra vina hópi og munið, eftir einn ei aki neinn! Delish!